Flugáætlun Skúla

Fréttir

Flugáætlun Skúla

Flugáætlun Skúla Mogensen er metnaðarfull.

FRAMTÍÐARVÖXTUR WOW ERLENDIS

Við grípum hér niður í kafla viðtalsins við Skúla Mogensen þar sem hann ræðir m.a. um að framtíðarvöxtur WOW air verði erlendis.

„Skúli býr nánast í ferðatösku en er aðallega í London og rekur fyrirtækið að mestu þaðan með aðstoð öflugra framkvæmdastjóra sem bera alfarið ábyrgð á daglegum rekstri sinna sviða. Skúli er hér á landi jafnan þrjá til fjóra daga aðra hverja viku. „Yfir 80% af farþegum okkar koma að utan, stærsti hlutinn af framtíðarvexti félagsins mun koma að utan, flugvélar okkar eru alfarið fjármagnaðar af erlendum lánastofnunum og við leggjum mun meiri áherslu á erlenda markaðssetningu en hér á Íslandi. Það er því eðlilegt og nauðsynlegt fyrir mig að vera á miklu flakki og þá er London mjög hentug.“

Það er kannski til marks um áherslur Skúla að nýlega var greint frá því að Bandaríkjamaðurinn Ben Bald­anza hefði tekið sæti í stjórn WOW air en hann er fyrrverandi forstjóri lágfargjaldafélagsins Spirit Airlines.

Skúli segist alltaf hafa haft gaman af að synda á móti straumnum; vera óhefðbundinn. „Það höfðu fáir trú á að það gengi upp að stofna enn eitt flugfélagið í keppni við þau sem væru fyrir. Sögðu að þetta væri áhættusöm atvinnugrein sem margir hefðu farið illa út úr. Ég hef oft þurft að vitna í Mark Twain sem sagði að dauði sinn væri stórlega ýktur: „My death has been greatly exaggerated.““

Skúli getur vel við unað. Hann er á áætlun! Hann er á góðum stað í vaxtarkúrfunni með WOW air þótt vissulega sé ekkert gefið í viðskiptum núna frekar en fyrri daginn. Félagið vex, vélarnar eru orðnar 11 talsins og umskiptin á síðasta ári skýrast af stórauknu sætaframboði á sama tíma og nýtingin var góð. Nýlega kynnti WOW air að félagið myndi bæta við sig þremur nýjum Airbus A330-breiðþotum sem notaðar verða meðal annars á langflugi til vesturstrandar Bandaríkjanna, til nýrra áfangastaða í sumar; Los Angeles og San Francisco. Skúli bjó raunar í síðarnefndu borginni í um þrjú ár á fyrra tímabili OZ-áranna. Skemmtileg borg San Francisco við Kyrrahafsströndina.

„Ég hef litið á WOW air sem „start up“-fyrirtæki og geri enn – sprotafyrirtæki sem tæki nokkur ár að ná vexti. Þetta hefur verið mikil og ánægjuleg vinna; áskorun. Maður nærist á eldmóðinum og ánægjunni yfir að byggja félagið upp og vakir yfir þessu 20 tíma á sólarhring.“

Gangi markmið Skúla eftir um 40 milljarða veltu WOW air á þessu ári verður um fjórfalda veltuaukningu að ræða á aðeins tveimur árum. Í raun ætti þá frekar að tala um stökkbreytingu en veltuaukningu því hér er eingöngu um innri vöxt að ræða. Langflest félög, sem stækka svo ört, gera það með samruna eða yfirtöku á öðrum félögum. Veltan var tæplega 11 milljarðar króna fyrir tveimur árum og 17 milljarðar í fyrra sem er aukning um 50 prósent á milli ára.

Auðvitað hafa vinsældir Íslands sem ferðamannalands hjálpað til, lágt olíuverð, aukinn kaupmáttur erlendra ferðamanna og áfram mætti telja. En svona árangur næst ekki með því að setja sjálfstýringuna á og halla sér aftur í flugstjórasætinu. Það þarf flugáætlun – svo notað sé líkingamál úr fluginu.

Um samlíkinguna við fótboltann

„Þessi mikli vöxtur hefði ekki tekist án frábærs starfsfólks,“ segir Skúli. „Í upphafi vorum við 50 starfsmenn en núna yfir 600. Kastljósið hefur til þessa mest verið á mig sem forstjóra og eiganda félagsins; stofnanda þess. En það nær enginn árangri í viðskiptum án góðs starfsfólks. Og það er engin klisja; þannig er það einfaldlega í viðskiptum.“

Þegar Skúli er inntur eftir því að um tíma hafi borið á fréttum um nokkuð tíðar breytingar í stjórnunarstöðum hjá félaginu segir hann það rétt. „Sumt af starfsfólkinu hefur verið með okkur frá upphafi og vaxið með fyrirtækinu – aðrir hafa horfið á braut með vaxandi kröfum og kosið minna álag. Það er bara eins og gengur, það er ekkert að því. Menn hafa þá orðið sammála um að leiðir skildi. Við erum núna með mjög öflugt lið starfsmanna – sem vill fara alla leið – og sem ég treysti fullkomlega til að takast á við þær miklu áskoranir sem eru framundan. Það leggja sig allir fram og gera sitt besta.“

Skúli segist líkja þessu við fótboltann. „Þegar við byrjuðum haustið 2011 vorum við í raun utandeildarlið. Síðan höfum við unnið okkur upp um deild á hverju ári. Liðið sem við setjum saman hverju sinni þarf að henta hverri deild fyrir sig. Það eru meiri kröfur gerðar til fagmennsku liðsmanna eftir því sem ofar dregur og keppnin verður harðari. Markmið okkar er ekki að verða Íslandsmeistari heldur alþjóðlegur meistari. Wow air er vissulega með heimahöfn á Íslandi en þetta er alþjóðamarkaður þar sem keppt er við bestu og kraftmestu flugfélög í heimi.

Ég las nýlega bókina Leadership eftir sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóra Manchester United. Hann lýsir því að bestu leikmennirnir eru alltaf þeir sem leggja mest á sig á æfingum og í öllum undirbúningi, það er ekki nóg að vera bara efnilegur. Það sama gildir um árangur í viðskiptum og annan árangur. Ef þú ætlar að keppa við þá bestu á heimsmælikvarða þá þurfa allir að vera tilbúnir til að leggja mikið á sig og hlaupa í sömu átt. Annað sem skiptir gríðarlega miklu máli er hugarfarið og hreinlega að þora; að trúa því að við getum ekki bara keppt við hvaða flugfélag sem er heldur líka unnið þau.“

 

Frjáls verslun fæst á næsta blaðsölustað. Nældu þér í eintak af nýjasta tölublaðinu og lestu viðtalið við Skúla í heild sinni.