Nýtt og glæsilegt tölublað Skýja komið út

Fréttir

Nýtt og glæsilegt tölublað Skýja komið út

Forsíðuviðtalið er við Stefán Jakobsson, einn helsta söngvara landsins.

Nýtt tölublað af Skýjum er komið út; þykkt og efnismikið að venju. Raunar sérlega glæsilegt blað. 

Stefán Jakobsson, söngvari hljómsveitarinnar Dimmu en hann er af mörgum talinn einn allrabesti rokksöngvari landsins, er í skemmtilegu og mjög fróðlegu forsíðuviðtali.

Stefán býr við Mývatn ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum. Hann er rokkari af guðs náð og hefur unnið með öllum helstu tónlistarmönnum landsins og vakið mikla athygli fyrir eðalsöng og líflega framkomu. Hann er þekktur gestasöngvari á tónleikum og vakti hrifningu allra á Trúbrotstónleikum í Hörpu nýlega þar sem verkið Lifun var flutt í heild sinni. Stefán er maraþonhlaupari og þekktur leiðsögumaður í Mývatnssveit.

Af öðru efni má nefna viðtal við Guðrúnu Ingimarsdóttur sópransöngkonu; mjög yfirgripsmikla úttekt á líklegum sigurliðum í Evrópukeppni landsliða í knattspyru í Frakklandi í sumar; og sérlega athyglisverða grein eftir Guðmund Magnússon um fræga málverkasýningu Jónasar frá Hriflu um úrkynjaða list og hvaða áhrif hún hafði.

Hjólreiðar, garðyrkja, Justin Bieber, framandi heimur Austurlands, matur og menning, uppskriftin, barnaefnið, kvikmyndastjarnan, Aberdeen, bækur og tónlist - og lífsstílsgreinin er um skotheld tískuráð.