Sviðsmyndir atvinnulífsins rammaðar inn

Fréttir

Sviðsmyndir atvinnulífsins rammaðar inn

Sviðsmyndir atvinnulífsins eru forsíðuefnið í nýju og glæsilegu tölublaði Frjálsrar verslunar. Efnið er sett fram á mjög skemmtilegan máta þar sem hið nýja landslag atvinnulífsins er rammað inn í margar sviðsmyndir. Mælaborð atvinnulífsins er núna grænt; flestir hagvísar grænir. Forsíðumyndin er af erlendum ferðamanni sem tekur sjálfsmynd; „selfí“, en birtingarmynd atvinnulífsins er ekki síst hin mikla gróska í ferðaþjónustunni.

Ítarleg fréttskýring er um forsetakosningar fyrr og nú og sýnt er fram á hvernig dreifing atkvæða hefur oftast ráðið úrslitum í forsetakosningum. Kristján Eldjárn er í raun eini forseti landsins sem hefur hafið sinn feril með meirihluta atkvæða að baki.

Þá er fjallað um nýlega könnun Frjálsrar verslunar en hún braut blað í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í sumar og leiddi í ljós styrkleika Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings.

Mjög fróðlegt viðtal er við Emil Helga Lárusson í Serrano en hann tekur þátt í rekstri 19 veitingastða á Íslandi og í Svíþjóð.

Legó er í hugum flestra bara legókubbar. En legó getur komið að gagni í stjórnun og leitt til mjög svo bætts árangurs, líkt og Birna Kristrún Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Attentus sýnir okkur fram á.

Viðamikið viðtal er við hagfræðinginn Lilju Alfreðsdóttur sem vaknaði upp einn morguninn sem nýr utanríkisráðherra.

Hinir þekktu álitsgjafar Frjálsrar verslunar eru á sínum stað. Ragnar Árnason spyr sig að því hvort stjórnmálin séu mesti efnahagsvandinn.

Viðamiklir blaðaukar eru um iðnaðinn og fasteignamarkaðinn.

Rafmagn er ekki lengur bara einsleit vara heldur merkjavara. Um þetta efni verður m.a. fjallað á mjög fróðlegri ráðstefnu í haust um tilurð vörumerkja í orkugeiranum. Þekktir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni og er henni líkt við að Bono héldi hér tónleika.

Þetta er brot af því besta. Blaðið er sneisafullt af fróðleik og skemmtilegum greinum.

Frjáls verslun fæst á næsta blaðsölustað.