​YFIR ALDARGAMLAR DÚKKUR OG TINDÁTAR

Fréttir

Greinar

​YFIR ALDARGAMLAR DÚKKUR OG TINDÁTAR

Rætt við Guðbjörgu Ringsted myndlistarkonu sem rekur eina Leikfangasafnið á landinu.

Viðtal: Anna Kristine Magnúsdóttir

​Friðbjarnarhús norður á Akureyri lætur ekki mikið yfir sér, en innan dyra opnast heill heimur ævintýra. Friðbjarnarhús stendur í Innbænum, elsta hluta Akureyrar, og talið er að það hafi verið byggt árið 1856. Húsið er kennt við Friðbjörn Steinsson, bókbindara, bóksala og bæjarstjórnarmann til fjölda ára, og á heimili hans var Góðtemplarareglan á Íslandi stofnuð. Fundarherbergi Góðtemplarareglunnar er á efri hæð hússins en til að komast þangað upp þarf hávaxið fólk að beygja sig, sem og þegar gengið er inn um sumar dyr hússins, sem sýnir að ekki var verið að bruðla með rými í gamla daga. Afar sjarmerandi hús og ennþá meira sjarmerandi að skoða þá fjársjóði sem þar er að finna.

Þar veitir myndlistarkonan Guðbjörg Ringsted forstöðu Leikfangasafni á Akureyri og það fyrsta sem blasir við þegar gengið er inn í húsið eru herbergi full af leikföngum af ýmsum stærðum og gerðum.

Heillaðist af leikfangasafni í Finnlandi

„Áhugi minn á að opna safn sem þetta kviknaði þegar ég var stödd á Leikfangasafni í Borgå í Finnlandi árið 1992 og sá þar mörg falleg leikföng,“ segir Guðbjörg.„Nokkur af þeim voru kunnugleg, þarna var meðal annars bíll eins og bróðir minn hafði átt og dúkkur svipaðar mínum úr minni æsku.“ Leikföngin eru ýmist í skápum eða ofan á hirslum; líka á gólfi og í gluggum.

„Ég var alveg heilluð þegar ég sá leikfangasafnið í Finnlandi,“ segir Guðbjörg glaðlega. „Það var líka í litlu, gömlu timburhúsi og húsið var fullt af leikföngum. Ég var örugglega mjög lengi að skoða, þetta voru svo falleg og skemmtileg leikföng frá ýmsum tímum – ég hafði bara aldrei upplifað annað eins! Síðan þá hef ég reynt að finna leikfangasöfn í öllum þeim löndum og bæjum sem ég heimsæki. Ég hef til dæmis farið tvisvar á Museum of Childhood í Edinborg, heimsótt Leikfangasafn í Kaupmannahöfn og Holstebro í Danmörku, dúkkusafn á Mallorca og leikfangasafn í Vesterås í Svíþjóð. Þau eru flest stærri og með meira af eldri leikföngum heldur en mitt, en nokkrir gestir hafa nefnt við mig að þetta safn standist samanburð við söfn sem þeir hafa skoðað í útlöndum og hefur safnið í Iowa í Bandaríkjunum verið nefnt í því samhengi. Ég er að vonum glöð að heyra það. Það er eðlilegt að þau söfn séu stærri en þetta hér á Akureyri, enda er mitt miklu yngra safn.“

 

Þrjár manneskjur hringdu…

Varstu svo heilluð eftir að þú sást fyrsta leikfangaafnið að þú réðst strax í að láta drauminn rætast?

„Já, það má segja það. Ég setti auglýsingu í Moggann í september 1992 þar sem ég óskaði eftir gömlum leikföngum sem fólk vildi sjá á safni frekar en að henda í ruslið. Ég fékk ekkert rífandi viðbrögð, þrjár manneskjur hringdu, en aðeins ein þeirra sendi mér leikföng; stóran kassa á stærð við þvottavél og það var byrjunin! Síðan fór þetta að spyrjast út og nokkrar af vinkonum mínum fóru að gauka að mér dóti, aðallega dúkkum og ýmislegt þeim tengt. Árið 2003 var mér boðið að sýna á Minjasafninu á Akureyri öll þau leikföng sem ég átti þá og var sú sýning til þess að nú fóru að berast til mín fleiri leikföng. Síðan auglýsti Akureyrarbær árið 2010 eftir starfsemi í Friðbjarnarhús sem stúkumenn höfðu gefið bænum árið áður. Það er skemmst frá að segja að ég fékk þar inni með leikfangasafnið mitt og opnaði með pompi og pragt á íslenska safnadaginn þann 11. júlí 2010 og safnið varð því fimm ára í sumar.“

Guðbjörg er eini starfsmaður Leikfangasafnsins og unir því vel.

„Ég sé alveg um safnið en Akureyrarstofa hefur lagt til húsnæðið alla tíð. Annars væri þetta ekki hægt. Enda er barnamenning í hávegum höfð á Akureyri og ég tek stolt þátt í því. Minjasafnið á Akureyri hefur líka verið mér hjálplegt á ýmsan hátt, sem ber að þakka.“

Hvaða leikföng er hægt að skoða í Leikfangasafninu?

„Það er nú allt of langt mál að telja það upp! Ég held að þeir sem eru búnir að koma og skoða séu sammála mér um það. En svona til að nefna eitthvað þá eru hér nærri hundrað ára gamlir tindátar, steyptir í Reykjavík úr setjarastöfum sem hætt var að nota, yfir hundrað ára gamlar brúður, bangsar, Barbie, Meccano, Reykjalundarleikföng, tréleikföng frá Leikfangagerð Akureyrar, He-man og félagar, bílar, dúkkulísur og svo mætti lengi telja.“

Dúkkan veitti vernd gegn myrkfælni

Yfir hversu langt tímabil spannar sýningin?

„Sýningin spannar yfir eina öld má segja, elstu leikföngin eru tvær brúður frá 1890 og þær yngstu eru frá 1990. Aðra af eldri brúðunum fékk ég frá gamalli konu á Dalvík sem hafði farið mjög vel með brúðuna sína, enda ekki algengt að stelpur ættu postulínsbrúður hér áður fyrr og þá kannski brýnt fyrir þeim að fara vel með þær. Hina færði mér fullorðinn maður daginn sem ég opnaði eða þann 11. júlí 2010. Hann sagðist hafa sofið með dúkkuna hjá sér fram undir fermingu því hann var svo myrkfælinn. – En þessar brúður frá 1890 eru sem sagt elstar, ásamt þrívíddarkíki úr tré sem var áður í eigu konu sem var stuepige á kaupmannsheimili á Akureyri. Yngstu leikföngin eru brúður sem eru hetjur og strákar leika sér aðallega með. Það eru til að mynda Turtles-kallar, Rambó, Action man, Tarzan, Superman, Transformers og fleiri þekktir kappar.“

Finnst fólki ekkert „sárt“ að skilja leikföngin við sig?

„Nei,ég verð allavega ekki vör við það. Fólk er einmitt mjög þakklátt að þarna sé vettvangur fyrir leikföngin þeirra sem það þarf af einhverjum ástæðum að losa sig við. En ég heyri líka hjá sumum gestum að þeir gætu aldrei gefið frá sér einhver leikföng sem eru þeim kær. Og ég skil það mjög vel.“

Maðurinn sem kveikti í módelunum sínum

Færðu skemmtilegar og/eða fallegar frásagnir þegar fólk gefur leikföngin sín?

„Já, ég fæ ótal skemmtilegar og fróðlegar sögur sem fylgja leikföngunum og skrái það allt niður. Einnig segja gestir frá einhverju sem þeir áttu og hvernig þeir til dæmis bjuggu til leikföng þegar lítið var að fá hér á landi. Það skrái ég líka niður. - Ég er með meira af stelpuleikföngum vegna þess að það eru miklu fleiri konur en karlar sem hafa gefið leikföng. Ef til vill eigum við konurnar frekar leikföngin okkar meðan strákaleikföngin urðu kannski ónýt af ýmiss konar tilraunastarfsemi. Það var hér til dæmis maður að skoða módel og nefndi þá að hann hefði átt og sett saman mörg módel, flugvélar, bíla og skip, en alltaf kveikt í þeim í lokin!“ En það hafa margir karlmenn gefið leikföngin sín hingað á safnið. Ég var einhvern tíma í viðtali við einhvern fjölmiðilinn og var spurð hvort það vantaði eitthvað sérstakt í safnið. Ég svaraði að það vantaði kannski strákaleikföng til að jafna hlutföllin og það hefur skilað árangri.“

Guðbjörg segir að yfir sumartímann sé það einkum fjölskyldufólk sem heimsækir Leikfangasafnið:

„Þetta er oft fjölskyldufólk á ferðalagi og þá kannski þrjár kynslóðir saman. Bæjarbúar koma helst á eyfirskum safnadegi, en þá taka söfnin á Eyjafjarðarsvæðinu sig saman og bjóða gestum að koma og kynna sér starfsemi safnanna í Eyjafirði og þá er frítt inn. Síðan koma leikskólabörn á vorin – þau sem eru að útskrifast og alltaf eitthvað um skólahópa bæði vor og haust, meira að segja alla leið frá Grænlandi. Svo er alltaf eitthvað um safnara, íslenska og útlenda.

Eftirlætið er rauði trédúkkuvagninn frá Reykjalundi

Eru einhver leikföng sem þig sjálfa myndi langa til að eiga?

„Ég er með eitthvað af mínum gömlu leikföngum og í mestu uppáhaldi er rauði tré-dúkkuvagninn minn frá Reykjalundi með gömlu dúkkunni minni í.“

Nú hafa verið gerðar bíómyndir um dúkkur og leikföng sem lifna við á nóttunni og tala saman! Heldurðu að þín leikföng geri það?!

„Það eru þó nokkrir gestir sem spyrja einmitt þessarar spurningar – en já, hver veit?!“

En talar þú við leikföngin eins og sumir tala við blómin sín, býður þeim góðan dag?

„Nei, það geri ég ekki. Ekki upphátt allavega, kannski svona í huganum ef eitthvað hefur komið fyrir, haus dottið af og þess háttar …“

Hefurðu gefið einhverju leikfanganna nafn?

„Nei, ekki nema þeim sem eru úr minni æsku eins og hún Júdí mín, dúkka fyllt hálmi sem heitir eftir fyrsta kennaranum mínum, henni Júdit Jónbjörnsdóttur. Dúkkurnar koma oft með nafni og ég er ekkert að hrófla við því.“

Leikfangasafnið er opið yfir sumartímann frá klukkan 13-17 eða á öðrum tímum eftir samkomulagi:

„Það er alveg sjálfsagt að hringja í mig ef fólk vill koma utan almenns opnunartíma og það er þó nokkuð gert af því. Það eru þá til dæmis. skólar, vinnustaðahópar í óvissuferðum, saumaklúbbar og einstaklingar. Þar sem ég er líka myndlistarkona og sit við að mála á vinnustofunni á veturna er það lítið mál að þurrka af penslinum og stökkva inn í Friðbjarnarhús til að opna fyrir gestum. Það er bara gaman og brýtur upp daginn því það getur verið svolítið einmanalegt að sitja einn og mála allan daginn.“

Birtist í 5. tbl. Skýja 2015

Tags