Afdalabarn

Fréttir

Bókardómar

Afdalabarn

Guðrún frá Lundi: Afdalabarn, Sæmundur 2014.

 

Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi (1887-1975) líkist í ýmsu sjónvarpsþáttunum um fólkið í Downton Abbey, með íslenskum formerkjum auðvitað. Á sýslumannssetrinu í þorpinu býr sýslumaðurinn góði, faðir afdalabarnsins, en á heimilinu ríkir sýslumannsekkja, móðir sýslumanns, sem hefur stíað honum frá ástkonunni myndarlegu en valið honum konu sem notar falskar tennur og stússast í kvenfélagsmálum. Sú gamla leggur almennt línurnar í siðferðismálum og menningu og ef einhverju munar er hún heldur meinlegri í tilsvörum en ekkjufrúin Lady Grantham. Það er ekki hægt annað en vera sammála Hallgrími Helgasyni þegar hann segir í eftirmála bókarinnar að frásagnir Guðrúnar frá Lundi muni steinliggja á kvikmyndaformi.

Afi og amma afdaladrengsins eiga bágt með að annast hann, dótturson sinn móðurlausan, en allt bjargast um leið og þau ráða til sín úrvalsstúlku sem tekur miklu ástfóstri við hvítvoðunginn og annast hann þar til hún giftist sjálf og eignast börn. Auðvitað er fátt um mannaferðir í afdalnum en kósí að flestu leyti nema hvað barnadauði hefur verið þar mikill.

Ýmis smáatriði njóta sín vel í sögunni, stólar á sýslumannssetrinu eru t.d. stoppaðir andstætt hörðum rúmum og bekkjum almúgans. Sýslumaðurinn, faðir afdaladrengsins, kaupir handa honum gúmmístígvél og rósótt bollastell handa ömmu í afdalnum. Mitt í öllu fíneríinu á sýslumannssetrinu geisa samt berklar og fyrir vágestinum falla þeir sem síst skyldu.

Fólk í Afdalabarni er aðra stundina þreytt og lúið og lasið en hina er mikil drift og dugnaður í gangi og ferðalög farin á sjó og landi. Góðvilji og manngæska vegast á við stífar meiningar og hreina illgirni. Sorg og gleði, skin og skúrir blasa við og nóg er af hástemmdum tilfinningum.

Auðvitað er hér dregin upp einhvers konar mynd af tíðarandanum en harðræði, skortur, óþrifnaður og allsleysi er þó víðs fjarri. Rómantíkin, dramatíkin, harmarnir og gleðin ríkja ofar hverri kröfu.

Afdalabarn er skemmti- og afþreyingarlestur og léttur gangur í sögunni. Afdalabarn varð enn metsölubók 64 árum eftir að hún kom út í fyrsta sinn. Bókin er enn eitt dæmi um sérstæðan rithöfundarferil Guðrúnar frá Lundi sem gaf út sína fyrstu og frægustu bók, Dalalíf, þegar hún var 59 ára gömul árið 1946 og reyndist síðan einn afkastamesti og ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar.

Birtist í Skýjum 2015

Tags

More News