Launatekjur efstu 200 forstjóranna um 2,6 mkr. á mánuði

Fréttir

Launatekjur efstu 200 forstjóranna um 2,6 mkr. á mánuði

Fróðlegt er að skoða útreikninga um launaþróun á milli ára. Stjórnendur í atvinnulífiinu eru á svipuðu róli og í síðasta blaði.

​Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Launatekjur stjórnenda eru á svipuð róli og í fyrra en læknar hækka eins og við var að búast eftir samninga við þá. Launavísitalan hækkaði um 9,7% í fyrra. Alls eru birtar launatekjur 3.725 einstaklinga í blaðinu að þessu sinni og koma fjármagnstekjur ekki við sögu.

Vegna þess hve efstu tíu einstaklingarnir í flokki forstjóra, starfsmanna fjármálafyrirtækja og næstráðenda skekkja myndina, m.a. vegna augljósra kaupauka og eingreiðslna í formi bónusa, voru tíu efstu einstaklingar teknir út úr úrtakinu þegar reiknuð voru meðaltöl 200 efstu í þessum flokkum.

Launatekjur 200 efstu forstjóranna eru 2,6 milljónir króna og hækkuð um 8,3% á milli ára og reynast innan við hækkun launavísitölunnar. Fjöldi forstjóra með yfir 3 milljónir kr. á mánuði jókst frá í fyrra og er núna 62 borið saman við 48 í fyrra.  Alls 23 stjórnendur fjármálafyrirtækja eru yfir 3 milljónir króna á mánuði og 24 næstráðendur.

Launatekjur 200 efstu næstráðenda voru 2,2 milljónir króna á mánuði eða þær sömu og í Tekjublaðinu í fyrra. Sama er að segja um starfsmenn fjármálafyrirtækja; launatekjur 200 efstu í þeim flokki voru 1,9 milljónir kr. á mánuði eða þær sömu og í fyrra.

Næstráðendur í fyrirtækjum eins og Íslenskri erfðagreiningu, Össuri, Marel, Alcoa-Fjarðaáli eru áberandi í efstu sætum í flokki næstráðenda. Miðað við hækkun launavísitölu upp á 9,7% í fyrra hafa næstráðendur, yfirleitt framkvæmdastjórar einstakra sviða, ekki haldið í við vísitöluna. En geta samt vel við unað; með að jafnaði 2,2 milljónir króna á launatekjur á mánuði.

Sigurður Ingi  Jóhannsson forsætisráðherra var með 1.303 þús. kr. á mánuði í fyrra. Alls eru 1.665 í blaðinu með hærri launatekjur en hann.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var með 2.296 þús. kr. á mánuði í fyrra.

Þess skal getið að  í Tekjublaðinu er rangt farið með launatekjur Sigurðar G. Guðjónssonar hæstréttarlögmanns. Hann er sagður vera með 28,8 mkr. á mánuði en rétt fjárhæð er 3 milljónir kr. á mánuði. Um er að ræða alvarlega innsláttarvillu.

Tekjublað                                               2015                   2016

Launatekjur 200 efstu í hverjum flokki.

Leiðrétt úrtak v. efstu tíu 

í þremur flokkum.*

Forstjórar*                                      2,4 mkr.            2,6 mkr.

Næstráðendur (millistj.)*                  2,2 mkr.            2,2 mkr.

Starfsm. fjármálaf.*                        1,9 mkr.            1,9 mkr.

Sjómenn                                          2,1 mkr.            2,3 mkr.

Læknar                                            1,7 mkr.            2,1 mkr.

Hjúkrunarfr. (50 efstu)                  811 þús. kr.       908 þús. kr.

Skólamenn (100 efstu)                    1,2 mkr.            1,3 mkr.