Á fjórða tug nærmynda um áhrifakonur

Fréttir

Á fjórða tug nærmynda um áhrifakonur

Á fjórða tug þekktra karlmanna skrifa um konur á listanum yfir 100 áhrifamestu konurnar.

Stórglæsilegt blað Frjálsrar verslunar með 100 áhrifamestu konunum er komið út. Meðal kvenna á listanum má nefna Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, formann Viðskiptaráðs, Ásdísi Kristjánsdóttur forstöðumanna efnahagssviðs SA, Björk Guðmundsdóttur, tónlistarkonu, Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra markaða í Landsbankanum og Lilju Dóru Halldórsdóttur, forstjóra Lýsingar, svo fáar séu nefndar.

Að þessu sinni skrifa á fjórða tug karlmanna stuttar nærmyndir af konum á listanum. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, skrifar um Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra ÍSAM: „Hún er huguð; hikar ekki við að takast á við verkefni þótt brekkan sýnist löng og brött eða girðingin há. Hún hefur mikið skap, en kann um leið vel með það að fara. Lausnamiðuð í öllum verkum, hvort sem er í vinnu eða leik.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir um Unni Þorsteinsdóttur, rannsóknastjóra deCode: „Hún er fyrst og fremst fallega þenkjandi og góð manneskja sem hefur síðan áhrif á allt sem hún gerir og segir. Hún er þess utan nægilega ákveðin til þess að halda frekju eins og mér í skefjum þegar það á við.“

Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður Veritas Capital, fjallar um Hund Rudolfsdóttur, forstjóra Veritas: „Hún hefur gott innsæi fyrir rekstri, allt frá fjármálum til mannauðsmála. Hún er traust, réttsýn og sanngjörn, sem eru allt góðir kostir í fari leiðtoga.“

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, talar um Helgu Björk Eiríksdóttur, formann bankaráðs Landsbankans: „Henni fer ekkert betur en að leiða teymisvinnu. Það fer ekkert milli mála til hvers er ætlast af hverjum og hún fær fólkið með sér.“

Pétur Björnsson, stjórnarformaður Ísfells, skrifar um Margréti Kristmannsdóttur, framkvæmdastjóra Pfaff: „Hún er óhrædd við að segja sína skoðun og hefur oft tekið annan pól í hæðina en margir kollegar hennar þegar kemur að pólitík. Hún er allsendis óhrædd við að fylgja sannfæringu sinni og fara þá á móti straumnum.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir frá kynnum sínum af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra: „Enginn pyttur er svo djúpur að hún leggi ekki í að fara yfir hann, aldrei er vindurinn svo hraustlegur að hún gangi ekki þvert upp í hann og ekkert verkefni svo stórt að hún hyggist ekki leysa það.“

Blaðið er 228 síður og afar efnismikið og fjölbreytt.