Launatekjur Halldórs G. Ólafssonar rangar í Tekjublaðinu

Fréttir

Launatekjur Halldórs G. Ólafssonar rangar í Tekjublaðinu

Launatekjur Halldórs G. Ólafssonar, framkvæmdastjóra sjávarlíftæknisetursins Biopol á Skagaströnd, eru rangar í Tekjublaði Frjálsarar verslunar. Frjáls verslun biður Halldór innilegrar afsökunar á þessum mistökum. Launatekjur Halldórs eru 703 þús. krónur á mánuði en ekki 8,7 milljónir króna á mánuði, eins og fram kemur í Tekjublaðinu, og skiluðu honum þar í 7. sæti listans yfir forstjóra í fyrirtækjum. Villan er til komin vegna mistaka í innslætti við vinnslu blaðsins.

Frjáls verslun hefur áður leiðrétt rangfærslur vegna launatekna  Stefáns Loga Haraldssonar, framkvæmastjóra Límtrés-Vírnets, og Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns í Tekjublaði Frjálsrar verslunar.

En Stefán Logi er með 1,6 milljónir króna á mánuði en ekki 16,4 milljónir á mánuði, eins og fram kemur í Tekjublaðinu. Sigurður G. Guðjónsson er með 3 milljónir á mánuði en ekki 28,8 milljónir króna eins og segir í blaðinu. Þessar villur voru sömuleiðis til komnar vegna mistaka í innslætti. Frjáls verslun er með innbyggt villumeldingarkerfi þegar tölum er slegið inn en það kerfi þarf augljóslega að bæta enn frekar.

Frjáls verslun biður þá Halldór G. Ólafsson, Stefán Loga Haraldsson og Sigurð G. Guðjónsson afsökunar á þessum leiðu mistökum.

Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar