Vestmannaeyjar eru draumasveitarfélagið

Fréttir

Vestmannaeyjar eru draumasveitarfélagið

Mynd: Páll Stefánsson

Ársreikningar sveitarfélaganna fyrir árið 2015 benda til þess að rekstur þeirra sé að þyngjast eftir talsverðan bata eftir hrun. Í árslok 2013 voru skuldir flestra á niðurleið og þau sýndu aðhald í rekstri. Miklar launahækkanir hafa reynst þungar í skauti og styrking krónunnar dregur úr tekjum sjómanna, sem aftur lækkar útsvarstekjur, þó að þau áhrif komi einkum fram árið 2016.

Mörg sveitarfélög komu illa út úr hruninu. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga setti sumum þeirra úrslitakosti þannig að þau urðu að takast á við vandann. Nú heyrist aftur að sveitarfélögin verði að fá meiri tekjur. Samningar við kennara virðast hafa verið umfram greiðslugetu sveitarfélaganna. Þau fá ekki beinar tekjur af heimsóknum ferðamanna sem auðvitað reyna á innviði þeirra.

Afkoma margra sveitarfélaga var neikvæð árið 2015. Einkunnir þeirra í mati Vísbendingar fara heldur lækkandi, þó ekki muni miklu að meðaltali. Á árinu jukust skuldir sveitarfélaganna í heild að raunvirði um 3%. 

Draumasveitarfélagið

Í umfjöllun sinni um sveitarfélög hefur Vísbending útnefnt draumasveitarfélag­ið, en það er það sveitarfélag sem er best statt fjárhagslega samkvæmt nokkrum mælikvörðum.

Einkunnagjöfin endurspeglar erfitt árferði. Einkunnir þeirra hæstu eru lægri en verið hefur. Nýtt sveitarfélag nær á toppinn, Vestmannaeyjar með einkunnina 8,2. Vestmannaeyjar hafa verið að borga niður skuldir og hafa lækkað útsvarsprósentuna. Grindavík er í öðru sæti með 8,1 og Fjallabyggð í því þriðja með 7,5. Þau sveitarfélög sem lengst af hafa verið á toppnum, Garðabær (7,3) og Seltjarnarnes (7,1) eru nú í 4. og 8. sæti.

Vestmannaeyjar eru  því draumasveitarfélagið í ár. Seltjarnarnes hefur verið draumasveitarfélagið undanfarin tvö ár og Garðabær var draumasveitarfélagið fjögur ár í röð, 2010-2013. Hornafjörður, Snæfellsbær og Bláskógabyggð með 7,5. Þessi fjögur sveitarfélög voru líka í efstu fjórum sæt­unum í fyrra. Nokkur sveitarfélög fá yfir 7,0. Þau eru Hornafjörður,  Snæfellsbær og Bláskógabyggð. Í töflu 1 má sjá einkunnagjöfina undanfarin þrjú ár. Einstaka óvenjuleg útgjöld eða tímabundin staða geta ruglað einkunna­gjöfina, en ólíklegt er að það standi lengi. Meðaleinkunn þriggja ára jafnar slíkt út.

Á botninum eru Reykjanesbær (2,8), Fljótsdalshérað (2,7), Bolungarvík (2,6) og Skagafjörður (2,4). Staða allra þessara sveitarfélaga er mjög þröng. 

Tags

More News