Bókin 300 stærstu er óvenju glæsileg

Fréttir

Bókin 300 stærstu er óvenju glæsileg

Eftir Jón G. Hauksson

Icelandair Group er stærsta fyrirtæki landsins, samkvæmt nýjum lista Frjálsrar verslunar sem birtur er í bókinni 300 stærstu sem komin er út. Fyrirtækið velti um 150 milljörðum króna á síðasta ári og hagnaðist um 18,5 milljarða fyrir skatta.

Hagnaður 300 stærstu fyrirtækja landsins eftir skatta nam 327 milljörðum króna og jókst um 67 milljarða króna frá árinu áður.

Útgerðarfyrirtækið Brim greiðir hæst laun allra fyrirtækja, samkvæmt listanum, en starfsmenn þar höfðu að jafnaði 24,5 milljónir í árstekjur.

Bók Frjálsrar verslunar er 232 bls. að stærð og hefur sjaldan verið eins glæsileg. Yfir 500 fyrirtæki, sveitarfélög, sjúkrahús, lífeyrissjóðir og stofnanir koma við sögu í bókinni. Birtir eru listar yfir stærstu fyrirtækin, stærstu vinnustaðina, þau sem greiða hæstu launin, eru með mesta eigið féð, mesta hagnað og veltuaukningu. Þá eru fyrirtækin flokkuð eftir atvinnugreinum og er slíka greiningu á atvinnulífinu hvergi að finna annars staðar á einum stað í upplýsingum um atvinnulífið.

Bókin er eitt af flaggskipum Frjálsrar verslunar og á listinn sér fjörutíu og þriggja ára sögu. Það var árið 1973 sem Frjáls verslun gaf fyrst út yfirlit yfir stærstu fyrirtæki landsins og nefndist hann þá 50 stærstu. Guðmundur Magnússon prófessor tók þann lista saman.

Margt annað efni er í bókinni. Alls þrjátíu og fimm forstjórar svara spurningum Frjálsrar verslunar um stöðuna í atvinnulífinu.

Bókin 300 stærstu er lifandi allt árið um kring og hvergi er að finna á einum stað jafnmiklar fjárhagslegar upplýsingar um fyrirtæki á Íslandi.