Kröfur á ríkið eru kröfur á nágrannann

Fréttir

Kröfur á ríkið eru kröfur á nágrannann

Eftir Jón G. Hauksson

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, er einn fjórtán fastra álitsgjafa í Frjálsri verslun.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði er einn fastra álitsgjafa í Frjálsri verslun. Að þessu sinni fjallar hann um kröfur fólks á ríkið og segir þær vera kröfur á nágrannann. 

Sjá nánar hér:

RAGNAR ÁRNASON, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands

Kröfur á ríkið eru kröfur á nágrannann

„Á síðari tímum hefur aukist mjög að fara fram á að ríkið leysi flestan vanda sem menn koma auga á. Á meðal slíkra vandamála má nefna óhollt mataræði, lyfjafíkn og afleiðingar hennar, stöðu félagshópa sem telja sig afskipta, vandkvæði útlendinga á vergangi, verðlag á leiguhúsnæði, fjárhagserfiðleika illa rekinna fyrirtækja, aðstöðu ferðafólks og þróun búsetu í landinu að ógleymdum stóru málunum fátækt og veikindum. Fjölmiðlar, ekki síst ríkisfjölmiðillinn, virðast telja það sérstakt hlutverk sitt að básúna kröfur af þessum toga.“

Ragnar Árnason segir að þegar svona kröfur á ríkið eru settar fram sé nánast undantekningarlaust látið eins og ríkið sé ótæmandi uppspretta fjár og því gangi það mannvonsku næst að verða ekki við hinum „sanngjörnu“ kröfum.

„Margir fjölmiðlar og ýmsir stjórnmálamenn haga málflutningi sínum á þennan veg. Sannleikurinn er hins vegar sá að flest af því sem um er beðið kostar fé og sumt mjög mikið fé. Því er ekki unnt að verða við þessum kröfum án þess að annaðhvort minnka útgjöld ríkisins – sem sum hver fara til þarfra málefna – eða hækka skatta. Hvort tveggja felur það í sér að það eru einhverjir aðrir sem verða að borga brúsann. Því er það að kröfur á ríkið eru í rauninni kröfur á annað fólk, samborgarana. Þegar aðilar, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn eða annað hagsmunagæslufólk, fara fram á að ríkið leggi fram fé til að bæta hag tiltekinna hópa eru þeir í raun og veru að fara fram á að hagur einhverra annarra sé skertur að sama skapi. Þessir aðrir sem á endanum þurfa að borga brúsann geta hæglega verið eins eða meira þurfandi en þeir sem verið er að berjast fyrir.“

Ragnar segir að það sé lofsvert að vilja hjálpa öðrum. „Það er ekki eins lofsvert að láta aðra borga kostnaðinn. Eðlilegur farvegur fyrir þá sem vilja hjálpa öðru fólki er að gera það á eigin kostnað. Það er sönn góðgerðarstarfsemi. Það að freista þess að neyða aðra, sem ekki eru sama sinnis, til að borga reikninginn af góðmennskunni verður seint talið gott siðferði.“