30 heitustu græjur ársins

Fréttir

30 heitustu græjur ársins

Eftir Jón G. Hauksson

Frjáls verslun birtir í nýútkomnu tölublaði lista yfir 30 bestu græjur ársins. Sem fyrr er það Kristinn Jón Arnarson sem heldur utan um þetta efni. Hér kemur álit hans:

Heilt yfir er ekki hægt að segja að sérstakar byltingar hafi átt sér stað á árinu – sennilegast verður 2016 minnst sem eins þeirra ára sem framþróun tækninnar fór fram í nokkuð jöfnum og tiltölulega smáum skrefum. Slík ár koma alltaf öðru hverju, en þá segir sig sjálft að það styttist í næsta stóra skref, hvað sem það nú verður.

Kannski mætti segja að stærsta skref ársins hafi verið stigið af tölvuleikjafyrirtækinu Niantic sem gaf út snjallsímaleikinn Pokémon Go. Hann fékk milljónir manna um allan heim til að arka um stræti og torg í leit að stafrænum smádýrum og vakti gríðarlega athygli fyrir vikið, enda er það ekki á hverjum degi sem tölvuleikir fá fólk til að hreyfa sig meira en ekki minna.

Í þessari yfirferð fyrir ári nefndum við sérstaklega sýndarveruleikagleraugu sem nýja tækni sem myndi koma fram á árinu og gæti valdið straumhvörfum. Tækin komu vissulega á markað og þykja nokkuð vel heppnuð, en þau hafa þó ekki náð almennri útbreiðslu að neinu ráði enn sem komið er.

Þeir sem til þekkja örvænta þó ekki og benda á að þar sem þetta séu í raun tiltölulega dýr jaðartæki sé ekki hægt að búast við að þau seljist á við snjallsíma eða spjaldtölvur. Sennilega verðum við að láta 2017 líða áður en við getum sagt með einhverri vissu hversu vel sýndarveruleikagleraugum tekst að komast inn á hinn almenna markað.

Eins og öll önnur ár komu út nýjar útgáfur tækja frá helstu framleiðendum tæknivara sem keppast við að gera alltaf aðeins betur en síðast. Þótt enginn þeirra hafi náð að koma fram með byltingarkenndar nýjungar, hvort sem það var í snjallsímum, spjaldtölvum, fartölvum eða öðrum græjum, er framþróunin þó greinileg. Skjáirnir verða skarpari, rafhlöðurnar endast lengur, aflið eykst örlítið og svo mætti lengi telja.

 En nóg um það – hverjar voru áhugaverðustu græjur ársins 2016? Hér koma þær.