Bílaþáttur Frjálsrar verslunar

Fréttir

Bílaþáttur Frjálsrar verslunar

Eftir Jón G. Hauksson

„Það var með nokkurri eftirsjá sem ég skilaði lyklunum.“

 

Bílaþáttur Frjálsrar verslunar í umsjón Geirs Ólafssonar ljósmyndara hefur vakið talsverða athygli að undanförnu. Í nýjasta tölublaði Frjálsrar versluna reynsluekur hann Benz E220d. Hann segir að bíllinn hafi komið sér nokkuð á óvart, bæði að utan sem innan, og hann sé vandaður miðað við verð. Grunnverð bílsins er tæplega 7,5 milljónir króna.

--------

„Það var með talsverðri tilhlökkun sem ég reynsluók Benz E220d og hann stóð undir væntingum. Benz er greinilega alltaf Benz. Bíllinn er ágætlega kraftmikill og sparneytinn. Ég lýsi honum sem klassískum ljúflingi,“ segir Geir Ólafsson ljósmyndari um Benz E220d sem hann reynsluók á dögunum.

„Benz E220d er með tæplega tveggja lítra vél, 194 hestöfl og 400 nm tog og níu gíra sjálfskiptingu. Þokkalega snöggur upp í hundraðið eða 7,3 sekúndur. Eftir sólarhring í innanbæjarsnatti sýndi eyðslumælirinn 6,3 lítra á hundraðið. Það finnst mér vel sloppið í svona reynsluakstri. Þessi bíll vann sinn flokk í sparaksturskeppni Atlantsolíu í sumar. Þar eyddi hann 3,9 lítrum á hundraðið frá Reykjavík til Akureyrar.

Þegar sest er inn í hann vekur athygli að mælaborðið er einungis tveir stórir skjáir. Þeir eru stórir og auðvelt að fylgjast með öllum aðgerðum í stýri og stýripinna, en hann er á milli sætanna.“

Geir segir að á skjánum sé hægt að stjórna allri uppsetningu á bílnum, eins og til dæmis fjöðrun og svörun á stýri – sem og auðvitað stillingu hljómflutningsgræja og leiðsögukerfis.

„Þrátt fyrir nútímaskjái er gaman að sjá fágaða gamaldags klukku í mælaborðinu. Inni í bílnum er led-lýsing sem inniheldur 64 mismunandi liti eftir vali ökumanns. Leðurklædd sætin eru rafstillanleg og með góðum hliðarstuðningi.“

Að sögn Geirs eru miklar upplýsingar á skjánum og „sannast sagna þurfti ég að einbeita mér að akstrinum til að byrja með því auðvelt var að missa sig við að fylgjast með fjölbreyttum upplýsingunum á skjánum“.

Bíllinn er ágætlega krafmikill, að sögn Geirs, en samt engin spyrnukerra; 7,3 sekúndur í hundraðið. „Kominn á ferð er hann snöggur og lipur; eiginleikar sem eru nauðsynlegir og koma sér vel, t.d. við framúrakstur.“

Fjöðrunin er skemmtilegri í sportplús-stillingu við innanbæjarakstur, að mati Geirs, en utan borgarmarkanna var bíllinn ljúfur í þæginda-stillingu („comfort-stillingu“) og leið áfram þannig að hraðastýringin („cruise-controlið“) kom sér vel.

„Þetta er stór „lítill“ bíll. Það er rúmt um farþega og farangursrýmið er býsna stórt, eða 540 lítrar, og aðgengið gott. Hann hefur augljóslega fengið mikið af tækni og útliti frá stóra bróður, S-Class.“

Geir segir að bíllinn hafi unnið verulega á eftir því sem leið á reynsluaksturinn. „Það var með nokkurri eftirsjá sem ég skilaði lyklunum.“