Eiga þingmenn að hafa há laun?

Fréttir

Eiga þingmenn að hafa há laun?

Eftir Jón G. Hauksson

Alþingi Íslendinga nýtur lítils trausts á meðal almennings. Línan er nánast flöt frá hruni. Þingmenn eru heppnir að kjararáð skuli ekki hafa tekið mið af þeirri línu við launaákvarðanir.

 

Hér kemur leiðari Jóns G. Haukssonar í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Hann ber yfirskriftina: Eiga þingmenn að hafa há laun?

Þegar kjararáð hækkaði laun þingmanna nýlega um rúm fjörutíu prósent frá hækkuninni í júní í sumar blöskraði flestum og varð nánast bylt við! Margir höfðu á orði að þótt þingmenn ættu eflaust að hafa góð laun væri algerlega út úr kortinu að hækka laun þeirra svo mikið í einni svipan. Það væri hvorki klókt né jafnvel í takt við þá starfsreglu kjararáðs að taka yrði mið af almennum hækkunum á vinnumarkaði. En eiga þingmenn að hafa há laun? Á því eru skiptar skoðanir.

Þau sjónarmið eru upp í hagfræðinni að þingmennska og starf borgarfulltrúa eigi ekki að vera hálaunastörf heldur samfélagsstörf sem menn bjóða sig fram til að sinna – en sækjast ekki eftir vegna launanna. Gagnstætt sjónarmið er að kjörnir þingmenn verði að geta haft ofan í sig og á og framfleytt sér á launum frá Alþingi og helst gott betur vegna vinnuálags. Þingmennska sé augljóslega ekki níu-til-fimm-vinna og lág laun hafi í för með sér að aðeins þeir efnameiri hafi ráð á starfinu. Þekktur þingmaður og ráðherra svaraði eitt sinn spurningunni um hvort þingmenn ættu að hafa há laun að svo ætti alls ekki að vera ef tekið væri mið af markaðslögmálum og hinu mikla framboði fólks sem vildi á þing. Þá eru sömuleiðis skiptar skoðanir um það hvort kjararáð eigi yfir höfuð að ákvarða laun þingmanna eða þeir sjálfir með lögum. Margir telja að kjararáð sé betur til þess fallið þótt því hafi tekist illa upp að þessu sinni.

Kjararáð ákvað að hækka laun þingmanna frá lokum október úr 763 þúsund krónum í 1,1 milljón króna á mánuði eftir að hafa hækkað laun þeirra síðast í júní. Þá hækkuðu laun ráðherra í rúmar 1,8 milljónir á mánuði og forsætisráðherra úr 1,5 milljónum í rúmar tvær milljónir, eða um hálfa milljón á mánuði. Það er býsna vel í lagt. Laun forseta Íslands voru jafnframt hækkuð úr 2,5 milljónum í 3,0 milljónir á mánuði. Kjararáð tilkynnti þessar launahækkanir eftir alþingiskosningarnar – sem í sjálfu sér var ágætt því þessi hækkun hefði tekið kosningabaráttuna yfir. Ofan á þessi laun fá þingmenn fastan starfskostnað upp á 91 þúsund krónur á mánuði; ferðakostnað í kjördæmi upp á 84 þúsund á mánuði og útlagðan viðbótarferðakostnað við lengri ferðalög innanlands. Þá fá þingmenn landsbyggðarinnar húsnæðis- og dvalarkostnað upp á 134 þúsund krónur á mánuði – og 53 þúsund aukalega ef þeir reka tvö heimili.

Kjararáð mátti vita að laun þingmanna væru púðurtunna. Sú tunna sprakk að þessu sinni og svo kröftuglega að þingmenn og ráðherrar voru allt að því sviptir málfrelsi um laun á almennum vinnumarkaði. Það er slæmt því ríkið er oftar en ekki beðið að koma að samningum á hinum frjálsa vinnumarkaði. Kennarar eru með lausa samninga og nokkrum dögum eftir tilkynningu kjararáðs um launahækkun þingmanna og ráðherra birtist frétt um að fyrsti kennarinn hefði sagt upp. Síðan hefur uppsögnum þeirra fjölgað verulega; sérstaklega hjá ungum kennurum sem sjá enga framtíð í þessu starfi lengur. Þeim er fúlasta alvara og leita sér að annarri vinnu hjá ráðningarstofum. Byrjunarlaun grunnskólakennara með fimm ára háskólanám að baki eru 418 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt fréttatilkynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, eða talsvert lægri en nemur hækkun forsætisráðherra og forseta Íslands. Grunnskólakennarar eiga yfirleitt ekki kost á yfirvinnu. Meðallaun allra grunnskólakennara á landinu eru 480 þúsund krónur á mánuði.

HVERSU MIKILL MUNUR Á AÐ VERA Á LAUNUM FORSTJÓRA OG ÞEIRRA LÆGST LAUNUÐU?

Launamunur einstakra stétta á vinnumarkaði er eilíft umræðuefni. Ekki einungis hvernig eigi að skipta kökunni á móti fjármagninu heldur líka innbyrðis milli stétta. Framboð og eftirspurn ráða launum á almennum vinnumarkaði. Með aukinni tækni og sérhæfingu hefur launamunur aukist á milli stétta. En hvað á launamunurinn að vera mikill? Eigendur fyrirtækja ráða því! Það þykir eflaust lítið í mörgum löndum ef hæst launaði starfsmaðurinn, forstjórinn, fær ekki meira en fimmföld laun þess lægst launaða. Árið 1965 voru meðallaun forstjóra í Bandaríkjunum um 44 sinnum hærri en meðallaun lægst launuðu starfsmannanna í framleiðslu, en árið 1996 var þessi munur orðinn meira en 200 sinnum meiri. Í Þýskalandi 33-faldur og Japan 16-faldur. Inni í launum forstjóranna voru föst laun, bónusar til skamms og langs tíma og kaupaukar í hlutabréfum.

Tekjur 200 efstu forstjóranna á Íslandi, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar í sumar, voru 2,6 milljónir á mánuði. Það eru hátt í sjöföld laun þess sem er með 400 þúsund á mánuði. Margoft hefur verið bent á það á þessum vettvangi að forstjórar eru sterkar fyrirmyndir og gefa tóninn. Laun þeirra heyra allt að því frekar undir siðareglur og samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna en launanefndir. Það hljómar öfugsnúið þegar forstjóri með þrjár milljónir á mánuði segist ekki geta hækkað mánaðarlaun þess lægst launaða um 30 til 40 þúsund. Það er þetta með samband launa og frammistöðu á almennum markaði. Það getur verið erfitt að finna samband á milli virðisaukans og frammistöðu – hvað þá þegar kemur að bónusgreiðslum.

Alþingi Íslendinga nýtur lítils trausts á meðal almennings. Línan er nánast flöt frá hruni. Þingmenn eru heppnir að kjararáð skuli ekki hafa tekið mið af þeirri línu við launaákvarðanir.

Jón G. Hauksson

Alþingi Íslendinga nýtur lítils trausts á meðal almennings. Línan er ​nánast flöt frá hruni. Þingmenn eru heppnir að kjararáð skuli ekki hafa tekið mið af þeirri línu við launaákvarðanir.