Fyrstu kaup auðveldust á Íslandi

Fréttir

Fyrstu kaup auðveldust á Íslandi

Eftir Jón G. Hauksson

Auðvitað er mikill munur á hverfum innan borganna en til að yfirstíga þröskuldinn má ætla að ungt fólk leiti frekar í ódýrari hverfin við fyrstu kaup fremur en þau dýrstu.

 

Athyglisverð úttekt á norræna fasteignamarkaðnum í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar 

Fyrstu kaup á íbúð eru auðveldari í Reykjavík en í stórborgum nágrannaþjóða okkar annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er niðurstaða athugunar Frjálsrar verslunar á norræna fasteignamarkaðnum sem Gísli Kristjánsson, fréttamaður í Osló, gerði. Það er lægra verð íbúða hérlendis sem ræður úrslitum – því vextir eru hærri hérlendis og raunlaun lægri. 

Fréttaskýring: Gísli Kristjánsson

Þrátt fyrir miklar umræður um hve erfitt er fyrir ungt fólk á Íslandi að fara út á fasteignamarkaðinn og eignast sína fyrstu íbúð sýnir lausleg úttekt Frjálsrar verslunar að fyrstu kaup á íbúð eru auðveldari í Reykjavík en í stórborgum hinna Norðurlandaþjóðanna. Auðvitað er mikill munur á hverfum innan borganna en ætla má að ungt fólk leiti frekar í ódýrari hverfin við fyrstu kaup sín fremur en þau allra dýrstu til að geta yfirstigið þröskuldinn. Ungt fólk á Íslandi flytur því ekki út til höfuðborga Norðurlandanna og eignast þar góðar íbúðir á auðveldari hátt en hér heima. 

Þessi lauslega úttekt Frjálsrar verslunar er hugsuð sem almenn vísbending og innlegg í umræðuna um fyrstu kaup ungs fólks á fasteignum.

Visslega er íbúðarverð lægra úti á landsbyggðinni, bæði hérlendis og annars staðar á Norðurlöndunum, en samanburður Frjálsrar verslunar gengur út á höfuðborgirnar og stærstu borgir Norðurlandanna.

Í úttekt Frjálsrar verslunar eru þrjár breytur skoðaðar:

1. Verð íbúða í fjölbýlishúsum. 

2. Vextir og greiðslubyrði.

3. Laun og rauntekjur.

Verð íbúðanna vegur þyngst í þessum samanburði og ræður niðurstöðunni. Verðið í Reykjavík er næstum helmingi lægra en í Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Gautaborg og Árósum. Verðmunurinn vegur þyngra en ókostirnir við hinar tvær breyturnar; þ.e. að vextir íbúðalánanna eru hærri hérlendis – og raunlaunin um 20% lægri hér á landi, þ.e. laun að teknu tilliti til verðlags í löndunum og skattgreiðslna.

Möguleikinn á að koma þaki yfir höfuðið ræðst af húsnæðisverði, vöxtum, eiginfé kaupenda og tekjum. Flesta þessa þætti er hægt að bera saman milli landa: Fasteignaverð og vextir á lánum eru þekktar stærðir.

Húsnæðisverðið er stærsti einstaki þátturinn. Verð fasteigna ræður mestu um hvort fólk kemst yfir eign. Vinsælt er að segja að verðið ráðist af þremur þáttum: Staðsetningu, staðsetningu og staðsetningu.

Í öllum löndum er mikill munur á verði húsnæðis í stórborgum og úti á landsbyggðinni. Í Svíþjóð er fermetraverð þrefalt hærra í miðborg Stokkhólms en meðalverð á fermetra í landinu öllu. Mikill munur er líka eftir hverfum í hverri stórborg. Íbúð í Stokkhólmi er ekki sama og íbúð í Stokkhólmi.

Tryggið ykkur eintak og lesið fréttaskýringuna í heild sinni. Frjáls verslun fæst á næsta blaðsölustað.