Stærsta einokunarfyrirtækið

Fréttir

Stærsta einokunarfyrirtækið

Eftir Jón G. Hauksson

Stundum er varan seld á verði langt yfir samkeppnisverði – t.d. eldsneyti, tóbak, áfengi og ef þurfa þykir raforka og flugvallaþjónusta – og hagnaðurinn notaður í hugðarefni hins opinbera.

 

EFNAHAGSMÁL - SKOÐUN

RAGNAR ÁRNASON prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands er fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun. Að þessu sinni fjallar hann um ríkið og segir það stærsta einokunarfyrirtækið. 

„Margir stjórnmálamenn hafa áhyggjur af þeim samfélagslega kostnaði sem einokun og fákeppni geta valdið. Lagabálkar hafa verið settir til að koma í veg fyrir að fyrirtæki nýti sér fákeppnisstöðu á markaði til að hækka verð eða minnka þjónustu. Sérstakri stofnun, Samkeppnisstofnun, hefur verið falið að líta eftir því að þeim lögum sé fylgt og tryggja að fyrirtækin hegði sér í samræmi við lögmál fullkominnar samkeppni. Meint einokun og misnotkun fyrirtækja á markaðsstöðu er iðulega til umræðu og fordæmd hástöfum í fjölmiðlum.“

Ragnar Árnason segir að það virðist hafa gleymst að langstærsta fyrirtækið í framleiðslu vöru og þjónustu á Íslandi sé hið opinbera.

„Hið opinbera ráðstafar sem kunnugt er liðlega 40% af allri landsframleiðslunni. Það sér landsmönnum fyrir næstum allri heilbrigðisþjónustunni, þorra menntunarinnar, næstum öllu samgöngukerfinu, miklum hluta of orkuframleiðslunni, rekur dóms- og löggæslukerfið og stóran hluta fjármálakerfisins og er meira að segja umsvifamikið í fjölmiðla- og menningarstarfsemi. Á öllum þessum sviðum er hið opinbera með meiri eða minni einokunarstöðu. Iðulega er hún jafnvel lögbundin.

Því miður er því ekki að heilsa að hið opinbera fari varlega með þessa einokunarstöðu. Öðru nær. Það notar hana kerfisbundið til að ákvarða magn, gæði og verð án nokkurs sjáanlegs tillits til þess sem samkeppnismarkaðir myndu gera. Stundum er varan afhent nær ókeypis – menntun – eða seld á lágu verði – heilbrigðisþjónusta – en kostnaðurinn greiddur með því að skattleggja fólk. Stundum er varan seld á verði langt yfir samkeppnisverði – t.d. eldsneyti, tóbak, áfengi og ef þurfa þykir raforka og flugvallaþjónusta – og hagnaðurinn notaður í hugðarefni hins opinbera. Ofan á allt þetta möndlar ríkið með verð á mörgum öðrum vörum sem einkaaðilar fá að selja með tollum, sérgjöldum og ýmsum sérráðstöfunum. Í stuttu máli: Í sínum miklu umsvifum notar hið opinbera einokunarstöðu sína ósleitilega.“

Ragnar segir að sé ástæða til að óttast að einkafyrirtæki valdi samfélaginu efnahagslegu tjóni með einokunartilburðum blasi við að það sé margföld ástæða til að óttast það tjón sem einokun hins opinbera veldur.

 „Flest af því sem hið opinbera gerir í sinni víðtæku framleiðslustarfsemi og beinum verðafskiptum brýtur í bága við lögmál frjáls markaðar og veldur því efnahagslegu tjóni. Miðað við umfang hins opinbera og hin miklu frávik þess frá því sem frjáls samkeppnismarkaður myndi gera er engum blöðum um það að fletta að þetta tjón er mjög mikið.“