Það er tíska í nánast öllu

Fréttir

Það er tíska í nánast öllu

Eftir Jón G. Hauksson

„Árið í ár er það besta frá kreppu; langbesta árið frá hruni eins og hjá mörgum. Þetta er allt að koma til og við finnum fyrir kaupmáttaraukningu. Erlendir ferðamenn eru fleiri og það er miklu meiri bjartsýni í fólki.“

 

„Tíska er síbreytileg og túlkun á ástandi - og birtist á svo mörgum sviðum. Það er tíska í nánast öllu,“ segir Svava Johansen meðal annars í forsíðuviðtali Frjálsrar verslunar. 

Tískuverslanaveldi hennar, NTC, spannar sautján verslanir og fagnar fjörutíu ára afmæli um þessar mundir. En það var einmitt í október árið 1976 sem tískuverslunin 17 var opnuð í um 70 fermetra húsnæði við Laugaveg 46. NTC rekur í dag níu verslanir í Kringlunni, fjórar í Smáralind og þrjár í miðbænum auk FATÓ-markaðar.

Svava rekur NTC ásamt manni sínum ásamt Birni Sveinbjörnssyni. Hún byrjaði sautján ára í Sautján árið 1981 og hefur horft á fyrirtækið sigla lygnan sjó sem og í gegnum brotsjói. 

Svava kemur víða við í viðtalinu í Frjálsri verslun og nefnir meðal annars hvernig fyrirtækið gekk í gegnum kreppuna árið 1992 til 1994, niðursveifluna eftir netbóluna 2001 og svo auðvitað bankahrunið haustið 2008. Gefum Svövu orðið: „Það var erfitt efnahagsástand árið 1992 og mikið atvinnuleysi og svo aftur eftir .com-tímabilið 2001/2002. Það var rosalega erfitt tímabil. Það eru alltaf sveiflur í efnahagnum og það er bara spurning hversu lengi og hversu djúpar kreppurnar verða.“ 

​„Kreppan eftir bankahrunið 2008  var skelfileg. Við vorum eftir á að hyggja kannski heppin en meðan á öllu þessu stóð vissum við í rauninni ekki neitt. Við vorum með erlend lán og þau náttúrlega stigbreyttust og stigmögnðust um 2,5, sem er skelfilegt, en rúlluðu svo nokkrum árum seinna til baka. Maður var í miklu stressi en við stöppuðum stálinu í fólk; ég man eftir fundum í október 2008 með starfsfólkinu okkar. Það var erfitt að horfa í augun á því, svo mikill kvíði og óvissa. Þar lögðum við áherslu á við fólkið að við ætluðum að halda áfram. NTC myndi ekki segja upp fólki en það þyrfti kannski að samþykkja að fara að vinna 80-85% vinnu þannig að við gætum reynt að halda í alla. Það varð aldrei hópuppsögn. Við vissum að það yrði ekki hagnaður af fyrirtækinu heldur skipti máli að láta það lifa. Það var bara að láta það lifa. Þannig var það í nokkur ár. Og það tókst.

Margir bentu mér á að það væri einfaldast að skipta um kennitölu, sem þýðir bara kennitöluflakk. Ég hef það kannski frá foreldrum mínum en ég er alin upp við að svona geri maður ekki. Ég hefði örugglega hætt með reksturinn ef ég hefði skipt um kennitölu. Það var ekki inni í myndinni. Ég samdi við bankann okkar, Landsbankann, og fann þar fullt traust þannig að þetta small saman.“

Reksturinn gekk erfiðlega í um þrjú ár eftir hrunið. „Það var erfitt að vita ekki neitt í þrjú ár; ég hugsaði oft hvort ég ætti fyrirtækið eða ekki. Ég hafði hins vegar alltaf trú á því að þetta myndi blessast. Ég hafði alltaf trú á því,“ segir Svava með áherslu. „Það var rosalega góð tilfinning.“

Til að halda sjó í kreppunni þurftu Svava og Björn að semja við alla birgja um betri samninga. „Við þurftum að fara margar ferðir út og kaupa inn ódýrari vörur í um þrjú ár. Við létum aðila sem við höfðum keypt af dýrari vörur vita að við myndum kaupa lítið af þeim næstu árin en kæmum örugglega til baka, sem við höfum gert. Flestir birgjarnir okkar, sem telja á annað hundrað sem við höfðum átt viðskipti við í langan tíma, sýndu okkur mikinn skilning.

Síðan hafa allir lagst á árar með að hagræða og halda rétt á spilunum og árið í ár er það besta frá kreppu; langbesta árið frá hruni eins og hjá mörgum. Þetta er allt að koma til og við finnum fyrir kaupmáttaraukningu. Erlendir ferðamenn eru fleiri og það er miklu meiri bjartsýni í fólki. Það er enginn að tala um kreppu og samdrátt og við horfum miklu meira fram á við og það höfum við gert í tvö ár.“

Lesið viðtalið í heild sinni. Frjáls verslun fæst á næsta blaðsölustað.