Tilhugalífið eftir kosningar

Fréttir

Tilhugalífið eftir kosningar

Eftir Jón G. Hauksson

Foringjar á hlaupum, foringjar að tala. Er það stjórn frá vinstri til miðju eða frá hægri til miðju? Eða frá vinstri til hægri, eins og þegar venjulegur texti er lesinn? Hvað er miðja og hvað er frjálslynd miðja? Svo er það vinstri, hægri, tja-tja-tja. Eða eru kannski hægri og vinstri ekki lengur til?

 

Í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar er skemmtileg myndasyrpa Geirs Ólafssonar ljósmyndara af stjórnarmyndunarviðræðum foringjanna eftir kosningarnar. Enn sér ekki til lands í þeim viðræðum.

Tími tilhugalífs tekur ævinlega við eftir kosningar. Sú varð líka raunin eftir alþingiskosningarnar laugardaginn 29. október. Hver ætlar að vinna með hverjum og hver ætlar að tala við hvern? Hver fær blessað umboðið frá forsetanum og hver fær það ekki? Yfirleitt liggur það í augum uppi – en ekki víst alltaf, ef vísað er í orð núverandi forseta. Forsetinn þarf fyrst að meta og kanna og kalla á alla; heim til Bessastaða. Það er hans að hefja leikinn þótt þingið ráði för.

Foringjar á hlaupum, foringjar að tala, formlega og óformlega. Er það stjórn frá vinstri til miðju eða frá hægri til miðju? Eða frá vinstri til hægri, eins og þegar venjulegur texti er lesinn? Hvað er miðja og hvað er frjálslynd miðja? Svo er það vinstri, hægri, tja-tja-tja. Eða eru hægri og vinstri kannski ekki lengur til í pólitík?

Þetta er mikil leikjafræði. Allir tala við alla og enginn útilokar neinn; samt er svo margt útilokað.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk fyrstur umboðið og hóf formlegar viðræður við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, Benedikt Jóhannesson og Óttar Proppé. Þeim viðræðum var slitið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, var næst kölluð til bóndans á Bessastöðum og hélt til baka með umboðið margumrædda. Hún sagðist ætla að tala við alla en fyrsti kostur væri fjölflokkastjórn; fimmflokkastjórn. Eftir það hófust viðræður Vinstri-grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar undir hennar stjórn. Ekki gekk sá dans upp.

Áfram heldur dansinn; þetta er tilhugalíf og fiðringur á gólfinu. Lokadansinn er vangadans.