Hinn hljóðláti stjórnandi

Fréttir

Hinn hljóðláti stjórnandi

Eftir Jón G. Hauksson

Það er almennt viðhorf að stjórnendur eigi að vera opnir, hrífandi, ákveðnir í tali, með mikla útgeislun, miðpunktur athyglinnar og gefa skipanir. Að slíkir stjórnendur nái bestum árangri. En er það svo? Margt bendir til að það henti betur starfsmönnum sem eiga að vera framsæknir og sjálfstæðir að hafa hægláta stjórnendur sem hlusta og gefa rými fyrir frumkvæði.

 

Við birtum hér upphafið á grein Guðríðar Sigurðardóttur, ráðgjafa hjá Attentus, í Frjálsri verslun um hinn HLJÓÐLÁTA STJÓRNANDA.

Hinn margrómaði hrífandi, úthverfi stjórnandi, sem lætur til sín taka með áberandi og ákveðnum hætti, hefur oft verið álitinn betri stjórnandi en sá hæglátari og innhverfari. En er kominn tími til að endurskoða þetta viðhorf? Það hefur í gegnum tíðina þótt „stjórnendaleg“ hegðun að sýna sjálfsöryggi, vera ákveðinn í tali, gefa skipanir, gera viðamiklar áætlanir og kunna að vera miðpunktur athyglinnar. Þannig stjórnendum hefur verið stillt upp sem táknmynd stjórnanda og sú mynd gjarnan höfð til hliðsjónar við val á stjórnendum innan fyrirtækja.

Nýleg rannsókn sem Francesca Gino í Harvard-háskóla og David Hoffman í Norður-Karólínuháskóla gerðu snýst um leiðtogahæfni sem þörf er á hverju sinni og hentar best persónuleika og þekkingu starfsmannahópsins.

Að sögn Gino og Hoffmans þarf úthverfur stjórnandi að vera miðdepill athyglinnar. Hann er frakkur, á auðvelt með að tjá sig, leggur skýrar línur og sýnir skýrt hver það er sem ræður. Þegar slíkur stjórnandi á að stjórna hópi sem þarf að sýna frumkvæði og sjálfstæði getur það leitt til átaka. Ef hins vegar hæglátari stjórnandi er settur í það hlutverk að leiða hóp slíkan hóp er hægt að sýna fram á mun árangursríkara samstarf.

Rannsóknin sýndi að þegar um er að ræða hóp starfsmanna sem á að vera framsækinn og sjálfstæður getur hæglátur stjórnandi náð meiri árangri og framlegð út úr verkefnum. Þar sem starfsmaður á ekki að sýna mikið frumkvæði eða sjálfstæði í starfi gæti hins vegar úthverfur stjórnandi náð meiri árangri.

Engu að síður er það ennþá almennt þannig að úthverfi stjórnandinn með miklu persónutöfrana er sá sem fyrst kemur upp í huga fólks þegar talað er um stjórnanda. Talið er að 50% mannkyns séu úthverf en 96% stjórnenda sýna úthverfa hegðun og því hærra sem farið er upp í skipuriti fyrirtækis þeim mun líklegra er að finna einstaklinga sem eru opnir og með mikla útgeislun.

Vinnustaðir eru í auknum mæli mannaðir starfsfólki með mikla þekkingu sem gert er ráð fyrir að sé sjálfstætt, sýni frumkvæði og vinni í teymum sem stjórna sér að miklu leyti sjálf. Stjórnandi sem er líklegur til að ná árangri í þekkingarumhverfi skapar sýn og tilgang, hefur getu til að hlusta og veita endurgjöf, sýnir yfirvegun, fer fram með góðu fordæmi, hefur hæfni til að leysa vandamál og vinna með öðrum – og leiða breytingar.

Rannsóknir dr. Davids Rocks hjá Neuro Leadership Institute hafa sýnt fram á að með því að nálgast starfsmannahópinn á þennan hátt vekur stjórnandinn síður varnarviðbrögð hjá starfsmönnum sínum og nær að halda uppi andrúmi lausna þar sem lítið er um svonefnd „hafna eða hörfa“-viðbrögð. Hann fær þá til að vilja fylgja sér og meira en það; hann fær þá til að sýna frumkvæði og fara enn lengra því starfsfólkið er að vinna af innri hvötum en ekki af því að það er búið að segja því hvað það á að gera og hvernig.

Rannsóknir Rocks sýna fram á að fólk sem upplifir jákvæðar tilfinningar í vinnu kemur auga á fleiri lausnir, m.a. vegna meira dópamínmagns í heila. Það á auðveldara með að leysa vandamál sem krefjast innsæis.