Gleðin er kjarninn í Nova

Fréttir

Gleðin er kjarninn í Nova

Eftir Jón G. Hauksson

Í ræðu sinni fyrir hönd dómnefndar lagði Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, talsvert upp úr leikgleðinni við rekstur fyrirtækja.

 

Hér kemur ræða sem Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, flutti fyrir hönd dómnefndar við útnefningu Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, sem manns ársins í atvinnulífinu 2016. Margmenni var í veislunni. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra afhenti Liv verðlaunin. Benedikt Jóhannesson, útgefandi Frjálsrar verslunar, setti athöfnina og stýrði veislunni. Þóra Einarsdóttir óperusöngkona söng fyrir gesti. Veislan var á Radisson Blu Sögu, 2. hæð, Kötlusal, og var afskaplega vel heppnuð.

Maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2016, Liv Bergþórsdóttir,

forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson,

starfsmenn Nova,

góðir gestir.

 

Gleðin er kjarninn í lífinu.

Marteinn Lúther sagði fyrir fimm hundruð árum að gleði og ánægja væri jafn nauðsynleg og matur og drykkur!

Sagt er að bjartsýnum manni skjátlist eins oft og bölsýnum - en honum líði ólíkt betur!

Maður ársins í íslensku atvinnulífi árið 2016 hefur sýnt og sannað sem leiðtogi að gleðin er nauðsynleg til að byggja upp liðsheild og ná árangri í rekstri fyrirtækja.

Veislugestir góðir!

Það er með mikilli ánægju sem Frjáls verslun útnefnir Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, mann ársins í atvinnulífinu á Íslandi árið 2016.

Margir voru kallaðir – enda árar vel í íslensku atvinnulífi um þessar mundir og margir hafa náð feikigóðum árangri með fyrirtæki sín. Í lokin stóð valið að venju á milli fjögurra til fimm framúrskarandi einstaklinga.

En það var með mikilli sannfæringu sem dómnefnd Frjálsrar verslunar valdi Liv Bergþórsdóttur sem mann ársins. Hún er dugnaðarforkur, nákvæm, með góða ímynd og leiðtogi sem nær árangri.

MAT DÓMNEFNDAR

Hún hlýtur þennan heiður fyrir stórhug, uppbyggingu á stórfyrirtæki frá grunni, útsjónarsemi, áræði við að brjóta upp fákeppni og framúrskarandi hæfileika í stjórnun sem kristallast í liðsheild, gleði og samhug starfsmanna og hafa gert Nova að verðmætu og eftirsóknarverðu fyrirtæki meðal fjárfesta.

Þetta er í 29. sinn sem Frjáls verslun stendur að þessari útnefningu og eru þetta elstu verðlaun í viðskiptalífinu á Íslandi.

Í dómnefnd Frjálsrar verslunar sitja auk mín: Benedikt Jóhannesson, útgefandi Frjálsrar verslunar, en hann er formaður nefndarinnar, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcans á Íslandi, Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group og dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður nýsköpunar og frumkvöðlakennslu í MBA-námi Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn.

Gleðin er kjarninn í lífinu og hjá Liv í Nova!

Í gleðinni felst orka – í depurð felst áhugaleysi.

Liv segir í yfirgripsmiklu viðtali í Frjálsri verslun að gleðin sé notuð sem drifkraftur og sé grunnurinn í fyrirtækjamenningu Nova. Hún sé stjórntæki sem fylgst sé með reglulega – og beitt sem samkeppnisvopni. Minnki leikgleðin dragi úr hraðanum og taktinum.

Góðir gestir!

Í stjórnunarfræðum er rætt um mátt leikgleðinnar. Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur og fyrrum landsliðsþjálfari í handbolta, hefur meðal annars fjallað um leikgleði innan íþróttaliða og innan fyrirtækja – þ.e. hugarfar afreksmanna og starfsmanna sem vilja ná árangri.

„Afreksmenn hafa áttað sig á því að þeir geta valið hugarástand sitt,“ segir Jóhann Ingi og bætir við: „Því þótt skapgerð okkar sé að vissu leyti arfbundin, þá er hægt að vinna með viðhorfin. Afreksmenn skilja að þeir eiga val; til dæmis á milli þess hvort þeir eru jákvæðir eða neikvæðir.“

STRAUMLÍNULAGAÐUR REKSTUR NOVA

Liv trúir á mátt straumlínulagaðrar stjórnunar, - þar sem pýramídinn er pressaður niður og flestar ákvarðanir teknar á gólfinu. Og hjá Liv er þetta ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Hjá Nova eru engar starfsmannahandbækur heldur eru starfsmenn þjálfaðir í sjálfstæði og frumkvæði við að klára málin.

Tekjur Nova verða um 8,4 milljarðar króna á árinu og hafa næstum sjöfaldast frá 2008. Hagnaður þessa árs er á annan milljarð – en félagið hefur notið samfellds hagnaðar sex ár í röð.

Nova hefur 15% markaðshlutdeild á fjarskiptamarkaði en um 35% hlut á farsímamarkaði. Viðskiptavinir Nova eru yfir 150 þúsund.

Nova hefur til þessa aðeins starfað á farsímamarkaði en tekur núna skrefið inn á netmarkaðinn með ljósleiðaraþjónustu. Félagið tók þátt í snjallvæðingu farsímans á Íslandi með því að leiða uppbyggingu 3G- og 4G-þjónustu.

Núna er stefna Nova sett á að snjallvæða heimilin en því er spáð af öllum tæknigúrúum að sífellt fleiri tæki á heimilum verði nettengd í framtíðinni.

Ég játa það hér og nú - að ég er hvorki konungur fjarstýringanna né tæknigúrú og mun lenda í verulegum vandræðum ef ekki verður hægt að opna ísskápinn og kveikja á kaffikönnunni nema með einhverju appi og á netinu.

Ágætu gestir!

Á Liv hafa hlaðist verðlaun á undanförnum árum. Hún hefur verið valin markaðsmaður ársins, fengið FKA-viðurkenninguna, viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og núna bætist stóra rósin í hnappagatið; maður ársins í atvinnulífinu á Íslandi hjá Frjálsri verslun.

Að auki hefur Nova mælst með ánægðustu viðskiptavinina á farsímamarkaði sjö ár í röð, samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni, og Nova hefur tvisvar verið valið markaðsfyrirtæki ársins. Þá má geta þess að Liv er stjórnarformaður WOW air.

Það var mikil viðurkenning fyrir Liv og starfsmenn Nova þegar bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors keypti hlut Novator í Nova í október fyrir um 16 milljarða króna. Það skal áréttað að salan er ekki að fullu gengin í gegn.

SAGT UM LIV

Einn nánasti samstarfsmaður Liv við uppbyggingu Nova – og sá sem hóf reksturinn með henni í upphafi árið 2006; Jóakim Reynisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Nova, lýsir Liv þannig að hún sé einstaklega fær í að sjá stóru myndina.

Beðinn að lýsa Liv í sex orðum segir hann: „Skemmtileg, hugmyndarík, kappsfull, lausnamiðuð, vinnusöm og mjög félagslynd.“

Góðir gestir!

Liv er af athafnafólki komin. Foreldrar hennar eru Bergþór Konráðsson, viðskiptafræðingur og forstjóri SindraStáls um árabil, og Hildur Björg Halldórsdóttir meinatæknir. Afi Liv og amma í föðurætt voru Konráð Axelsson heildsali og Dóra Bergþórsdóttir húsmóðir. Afi hennar og amma í móðurætt voru Halldór Halldórsson, bankastjóri Útvegsbankans á Ísafirði, og Liv Ellingsen húsmóðir. Liv er skírð í höfuðið á henni – en um norskt nafn er að ræða.

MEÐ HJARTAGALLA Í ÆSKU  - OG LESBLINDU

Foreldrar Liv hafa stutt hana mikið alla tíð. Í nánu og yfirgripsmiklu viðtali Frjálsrar verslunar kemur fram að hún fæddist með hjartagalla og var fyrstu tvö árin mikið á spítala. Tveggja ára fór hún í hjartauppskurð í London. Þá átti hún við lestrarörðugleika að glíma í æsku – en síðar kom í ljós að um lesblindu væri að ræða.

Okkar manneskja hér í dag hefur því haft fyrir hlutunum til að ná árangri.

Eiginmaður Liv er Sverrir Viðar Hauksson, framkvæmdastjóri hjá Lýsingu, og eru börn þeirra fjögur.

Ég vil óska eiginmanninum, Sverri Viðari Haukssyni, fjölskyldunni, foreldrum, 137 starfsmönnum og yfir 150 þúsund viðskiptavinum Nova til hamingju með daginn.

Ég vil þakka Baldri Arnarsyni blaðamanni fyrir hans yfirgripsmikla viðtal við Liv í Frjálsri verslun – sem og Geir Ólafssyni ljósmyndara fyrir góðar myndir.

Ágætu gestir: Lyftum glösum.

Gleðin er kjarninn í lífinu og hjá Liv í Nova!

Liv Bergþórsdóttir, þína skál.