Hvað er stjórnarkreppa?

Fréttir

Hvað er stjórnarkreppa?

​Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræðideild HÍ og fastur dálkahöfundur í Frjálsri verslun, skrifar um stjórnarkreppu í áramótablaði FV. Hér kemur greinin:

Stjórnarkreppa

„Stjórnarkreppa er það kallað þegar afar erfiðlega gengur að koma saman þingmeirihluta sem styður ríkisstjórn. Þingmeirihluti er nauðsynlegur fyrir ríkisstjórnir í þingræðisríkjum því samkvæmt þingræðisreglunni verða ríkisstjórnir að njóta stuðnings meirihluta þingsins. Þingflokkar koma sér saman um hver fer með framkvæmdavaldið í nafni þingsins (e. parliamentary government). Í þingræðisríkjum er það líka oftast venjan að þeir sem fara með framkvæmdavaldið, í nafni kjósenda, eru einnig í forystu innan þingsins. Það þýðir m.ö.o. að ráðherrar koma úr röðum þingmanna og sitja á þingi samhliða ráðherrastörfum.

Forsetaræði er annars konar fyrirkomulag. Þar sem það er við lýði, eins og t.d. í Bandaríkjunum, er leiðtogi framkvæmdavaldsins kjörinn beint af kjósendum og ráðherrar sitja í umboði hans. Þingflokkar í forsetaræði gegna því engu hlutverki í því að koma á ríkisstjórn og bera hvorki ábyrgð á henni né ráðherrunum.

Á meðan ekki tekst að koma saman þingmeirihluta í þingræðisríki er stjórnkerfið án pólitískrar forystu. Það er m.ö.o. ýmist stefnulaust eða á sjálfstýringu sem er leidd af embættismönnum. Á árunum 1991-2016 gekk alltaf greiðlega að mynda nýjan stjórnarmeirihluta. Reyndin var önnur á árunum 1942-1950 og frá 1971-1988. Á þeim árum var iðulega erfitt að mynda ríkisstjórn þótt það tækist að lokum. Verst gekk stjórnarmyndunin eftir haustkosningar 1942. Þá tók um tuttugu mánuði að koma saman starfhæfum þingmeirihluta. Á meðan leiddu fimm utanþingsráðherrar framkvæmdavaldið í umboði Sveins Björnssonar, ríkisstjóra og síðar forseta.“