Rándýrt léttlestakerfi

Fréttir

Rándýrt léttlestakerfi

Árni Þór Árnason, stjórnarformaður Ormsson ehf. og fastur dálkahöfundur í Frjálsri verslun, skrifar í áramótablaðið um léttlestakerfi og kostnaðinn við það. Hér kemur pistill hans:

Þurfum við léttlestakerfi á Reykjavíkursvæðinu?

„Þar sem ég er mikill áhugamaður um góðan rekstur almennt og sérstaklega í Reykjavík brá mér í brún þegar ég kom nýlega til Edinborgar. Til að komast að hótelinu mínu þurfti leigubílstjórinn að keyra fram og til baka því flókið hindranakerfi er komið fyrir einkabíla. Princes Street, sem var til skamms tíma með fjórar akreinar, er bara með tvær sem eingöngu strætó og leigubílar nota en „léttlestir“ eru með hinar tvær. Þeir lögðu niður sporvagna 1956 en í nafni umhverfisstefnu og andúðar á bílum er borgarstjórnin búin að koma upp nýju kerfi. Þegar menn voru að kynna sér svona rekstur í ýmsum borgum Evrópu og Bandaríkjanna hefði mátt hafa í huga að þessir eru næst okkur. Það kostar ekki nema 21 þúsund að fljúga fram og til baka á milli Keflavíkur og Edinborgar og nóg af ódýrum hótelum.

Verkefnið átti að kosta 400 milljónir punda en er búið að kosta um 800 milljónir punda með vöxtum. Á íslensku eru þetta 112 milljarðar króna og deilt í 14 km kostar kílómetrinn 8 milljarðar í krónum talið. Athugið að ég nota nýja gengið, 140 kr., og þetta eru Skotar sem eru taldir allra sparsamastir.

Stórfelldar seinkanir á framkvæmdum eins og uppgröftur á helstu umferðaræðum fór langt fram úr tíma en þetta komst loks í gang eftir fimm ár og búið að vera í gangi í tvö ár. Heilir 14 km, 27 vagnar, 32 vagnstjórar og 52 eftirlitsmenn. Tapið var ekki nema 450.000 pund eða 63 milljónir á síðasta ári og allir sem að þessu koma svaka ánægðir því gert var ráð fyrir meira tapi. Reyndar hefur skoska ríkisstjórnin óskað eftir rannsókn á öllu bullinu og er hún í gangi.“

Árni Þór segir að þar sem rekinn hefur verið töluverður áróður fyrir þessu af hagsmunaaðilum og draumóramönnum væri kannski rétt í lokin að minnast á viðtal RÚV við Guðmund Frey Úlfarsson, samgönguverkfræðing við HÍ. „Hann telur réttara að við bætum einfaldlega strætókerfið. Við verðum aldrei stórborg.“