Spurðu þig þessara spurninga

Fréttir

Spurðu þig þessara spurninga

 

Herdís Pála Pálsdóttir, stjórnunarráðgjafi sem skrifar reglulega pistla í Frjálsa verslun, telur gott að stjórnendur spyrji sig fjölda spurninga í upphafi árs og fer hún yfir þessar spurningar í mjög áhugaverðu áramótablaði Frjálsrar verslunar. 

Hér kemur grein Herdísar:

Nýtt upphaf – ný tækifæri

Spurðu þig þessara spurninga

Áramót eru stærstu tímamót hvers árs. Þá er eðlilegt að líta um öxl og meta árið sem er að líða og horfa til komandi árs og hvaða hugmyndir maður hefur um það ár. Gott getur verið við svona endurskoðun að horfa til nokkurra þátta og spyrja sig nokkurra spurninga fyrir hvern þeirra.

Starfið

Hvað gerði ég sérstaklega vel á árinu? Hvað get ég gert til að halda áfram að ná góðum árangri? Hvað get ég gert til að hjálpa vinnustaðnum og vinnufélögunum að ná enn meiri árangri? Mundi ég eftir að fagna þegar vel gekk, hjá mér, vinnustaðnum og samstarfsfélögum? Ef ekki þá er full ástæða til að nýta slík tækifæri betur. Hvaða lærdóm get ég dregið af þeim mistökum sem ég gerði á árinu (það gera allir mistök einhvern tíma …)?

Hvað lærði ég nýtt á árinu? Með lestri bóka eða greina, af námskeiðum eða ráðstefnum eða í starfinu af vinnufélögunum? Stend ég mig nógu vel í að fylgjast með nýjungum og þróast með verkefnum mínum og starfsumhverfi?

Samfélagið

Hversu miklum tíma varði ég til að gefa af mér til samfélagsins? Tók ég þátt í sjálfboðaliðastörfum eða gaf af mér á annan hátt? Hvað ætla ég að setja mikinn tíma í það á næsta ári? Var ég góð fyrirmynd fyrir aðra? Leiðbeindi ég öðrum og var til staðar fyrir þá sem vildu læra af minni þekkingu og reynslu? Hvernig get ég staðið mig betur í því?

Hversu oft mætti ég á fundi og viðburði hjá þeim félagasamtökum sem ég tilheyri? Gaf ég jafn mikið af mér og ég vil fá út úr slíkum samtökum? Hvað get ég gert betur hér á næsta ári?

Umhverfið

Hvernig sinnti ég umhverfi mínu, bæði umhverfinu í stærra samhengi og svo nærumhverfi mínu? Hvað ætla ég að gera á næsta ári til að minnka sóun, endurnýta hlutina betur og endurvinna það sem til fellur? Get ég gert betur í að velja umhverfisvænar lausnir þegar þær eru í boði?

Geng ég vel um vinnuaðstöðu mína? Er ég með skipulag á hlutunum? Hvað þarf ég að gera til þess að hafa vinnuaðstöðuna mína þannig að ég geti skilað af mér sem bestu dagsverki á hverjum tíma? Hvað get ég gert með umhverfið heima fyrir, þannig að ég geti lesið, slakað á, hlustað á tónlist, íhugað og almennt átt þar gæðastundir?

Fjármálin

Er ég með góða yfirsýn yfir öll fjármál hjá mér? Veit ég nákvæmlega hvað ég á, og hvað ég skulda? Stend ég í skilum með allar fjárhagslegar skuldbindingar? Passa ég að lifa ekki um efni fram? Legg ég reglulega til hliðar í varasjóð, ferðasjóð eða til að fjárfesta í eigin persónulegu og faglegu þróun? Er ég með allar eigur mínar nægjanlega tryggðar? Skoða ég vaxtakjör innlána og útlána, tækifæri til fjárfestinga og annað sem skiptir máli við stýringu eigin fjármála? Hugsa ég jafn mikið um ávöxtun og áhættu þegar ég skoða fjárfestingartækifæri?

Fjárfesti ég reglulega í mér? Í minni heilsu? Í minni persónulegu og faglegu framþróun? Til að búa til ómetanlegar minningar? Hversu stórt hlutfall af mánaðarlaunum mínum ætla ég að nota á næsta ári til að fjárfesta í mér?

Heilsan

Hversu vel sinni ég líkamlegri heilsu minni? Hvernig get ég tryggt að það sé í forgangi hjá mér að fá bæði nægjanlega mikinn og ekki síður góðan svefn? Hvað þarf ég að gera til að passa að ég næri mig vel og hreyfi mig reglulega? Hversu vel sinni ég andlegri heilsu minni? Hversu vel næri ég mig andlega? Hvernig get ég tryggt að ég taki mér reglulega tíma til að slaka á? Lesa góða bók eða hlusta á tónlist? Stunda hugleiðslu eða annað það sem hjálpar mér með andlega heilsu?

Hversu vel sinni ég félagslegri heilsu minni? Hvað þarf ég að gera til að hafa það í forgangi að eiga góðar stundir með mínum nánustu? Hlæja og hafa gaman. Hitta fyrrverandi vinnufélaga, vini eða gamla skólafélaga og viðhalda góðum tengslum?

Sambönd og samskipti

Hversu vel hef ég staðið mig í samböndum og samskiptum við annað fólk? Við vinnufélaga, fjölskyldu, vini, nágranna o.s.frv.

Er ég hvetjandi og styðjandi? Man ég eftir að hrósa? Leiðbeini ég þegar tilefni er til? Sýni ég fólki einlægan áhuga? Hvernig get ég staðið mig betur í því á næsta ári? Er ég vinnufélaginn, ættinginn eða vinurinn sem fólk gleðst yfir að mæti til vinnu eða á samkomur – eða sem fólk gleðst yfir að mæti ekki?

Ofangreindir þættir eru nokkurs konar 360° sýn á líf flestra einstaklinga og mikilvægt að sinna öllum þessum þáttum vel og ekki síður að hafa þá í jafnvægi. Ef þú vilt setja þér áramótaheit þá gæti það til dæmis verið að láta ekki velgengni á einu sviði lífs þíns vera á kostnað velgengni á öðrum sviðum þess.

Munum samt líka að við erum alltaf með ný tímamót, nýtt upphaf sem nýta má til nýrra tækifæra. Hvort sem það er nýr mánuður, ný vika eða nýr dagur. Á hverjum tíma er gott að nýta reynslu liðins tíma til að gera enn betur á komandi tímum. Það er engin ástæða til að bíða áramóta til að gera betur, hvort sem er í einkalífi eða starfi.