Leiðarinn í Frjálsri verslun

Fréttir

Leiðarinn í Frjálsri verslun

Kröfuhafar Kaupþings og Íslandsbanka eignuðust bankana eftir hrun þrátt fyrir allt tal um þjóðnýtingu. Íslenska ríkið hefði aldrei getað eignast Arion banka og Íslandsbanka nema til kæmi greiðsla til kröfuhafa.

 

AÐ KAUPA EIGIN BANKA!

Auðvitað vekur það ótal spurningar og tortryggni þegar fjármálafyrirtæki kaupa stóran hlut í banka af sjálfum sér, eins og í tilviki Arion banka. Hvað þá í landi þar sem bankakerfið hrundi, þrír stærstu bankarnir lágu í valnum, tugir stjórnenda og sérfræðinga hafa verið ákærðir og settir á sakamannabekk – og stór hluti landsmanna trúir kenningum um að bankarnir hafi verið tæmdir innan frá í því alþjóðlega fjármálafárviðri sem geisaði haustið 2008. Í ofanálag bætist svo við stórfurðulegt Borgunarmál sem dregið hefur stórlega úr trú almennings á að vönduð vinnubrögð gagnsæis á bankamarkaði við sölu eigna séu viðhöfð. Umræður á Alþingi um kaup kröfuhafanna fjögurra í Arion banka hafa heldur ekki orðið til að lægja öldurnar – og verður forvitnilegt að sjá hvort salan á eftir að reynast ríkisstjórninni erfið. Erfitt er þó að sjá hvernig ríkisstjórnin hefði getað blandað sér inn í þennan gjörning og skipt sér af honum ef hann stenst kröfur Fjármálaeftirlitsins. Kaupin áttu sér stað viku eftir að ríkisstjórnin kynnti að fjármagnshöftunum væri loksins að fullu aflétt.

Það jákvæða við söluna er að baklandið í Arion banka hefur skýrst og allt útlit er fyrir að bankinn verði skráður í kauphallirnar í Reykjavík og Stokkhólmi. En er ástæða til að tortryggja þessi umtöluðu kaup kröfuhafanna á 29,2 prósenta hlut í bankanum og fenginn kauprétt á um 21,9 prósentum til viðbótar áður en hann fer á markað? Það er nú það – þeir veðja að minnsta kosti á bankann og að hann hækki í verði á markaði þótt auðvitað megi spyrja sig um kaupverð og samningaviðræður þegar sömu menn sitja beggja vegna borðsins. Markaðsvirði bankans í þessum viðskiptum er 167 milljarðar króna á meðan eigið fé hans er um 211 milljarðar króna. Gengið er því um 0,8 af eiginfénu. Kaupendurnir fjórir áttu fyrir um 60 prósent í bankanum – en að vísu óbeint, þ.e. í gegnum dótturfélag Kaupþings ehf., Kaupskil, en hlutur þeirra í Kaupskilum er 69%, samkvæmt Fréttablaðinu.

Ekki verður annað séð en þetta hafi verið lögleg viðskipti þótt ýmsum spurningum um framhaldið sé ósvarað, eins og hvort kaupendur standist gæðakröfur Fjármálaeftirlitsins um kjölfestufjárfesta eftir að þeir nýta sér forkaupsréttinn.

Íslensku lífeyrissjóðirnir höfðu bankað upp á hjá kröfuhöfum um kaup á kjölfestuhlut í bankanum áður en hann yrði skráður á markað og verðmiðinn hækkaði. Fréttir voru sagðar af því að þær viðræður gengju vel. Ekki verður annað skilið af yfirlýsingum en að stórfelld kaup kröfuhafanna hafi komið lífeyrissjóðunum algerlega í opna skjöldu. Eðlilega má spyrja sig hversu mikil alvara hafi verið í viðræðunum við lífeyrissjóðina þegar kröfuhafarnir gerðu sig sjálfir svo óvænt gildandi sem beinir hluthafar í bankanum.

Enginn kröfuhafanna fjögurra keypti meira en 9,99% hlut en sá sem vill eignast 10% eða meira í íslenskum banka þarf fyrst að fara í gegnum formlegt ferli hjá Fjármálaeftirlitinu sem metur hvort fjárfestirinn sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut í banka. Uppi eru áhöld um hvort allir kaupendurnir stæðust prófið hjá Fjármálaeftirlitinu um að eiga virkan hlut. Í Viðskiptablaðinu kom fram að kröfuhafarnir fjórir hefðu keypt kröfurnar í bankann eftir árið 2012.

Bent hefur verið á að ríkisstjórnin hefði átt að vera búin að setja almennan ramma um framtíð bankakerfisins og hvernig hún vilji sjá það þróast á næstu árum – ekki síst þegar kemur að eignarhaldinu á bönkunum og eiginfjárhlutfalli. Ríkið sjálft á núna tvo banka, Landsbankann og Íslandsbanka, og 13 prósent í Arion banka. Fróðlegt verður að sjá hvort og hverjum ríkið ætlar að selja Landsbankann og Íslandsbanka á næstu árum. Það verður ekki hávaðalaus umræða! Ætli umræðan um samfélagsbanka ríkisins skjóti ekki fljótt upp kollinum. Best væri ef ríkisstjórnin skráði báða bankana sem fyrst á markað, bæði hér heima og erlendis, samhliða því að efna til almenns útboðs í þeim.

Takið eftir því að ríkið tekur 34 milljarða út úr Landsbankanum og Íslandsbanka á þessu ári í formi arðgreiðslna. Slíkum fjárhæðum má venjast! Mun ríkisstjórnin falla í þá freistni að bíða með að einkavæða bankana tvo til að ná sér í arðgreiðslur úr þeim á næstu árum? Að vísu kemur það svo sem út á eitt; markaðsvirði bankanna lækkar eftir því sem gengið er á eiginféð og minna fæst fyrir þá síðar. Íslensku bankarnir eru með mjög hátt eiginfjárhlutfall og langt umfram það sem þekkist erlendis.

Angi af tortryggni almennings varðandi söluna í Arion banka er umræðan um að þáverandi ríkisstjórn hafi í skjóli nætur gefið bankana til kröfuhafa árið 2009 en þeir voru þjóðnýttir með neyðarlögunum haustið 2008. Hitinn í þeirri umræðu snýst um að bankarnir hafi verið reknir á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins árin 2008 til 2012 en ágóðinn runnið til kröfuhafanna. Stóra málið er hins vegar að þegar fyrirtæki verða gjaldþrota eignast kröfuhafarnir, sem lánuðu viðkomandi fyrirtæki, fyrirtækið. Sá réttur verður aldrei af þeim tekinn. Kröfuhafar Kaupþings og Íslandsbanka eignuðust bankana eftir hrun þrátt fyrir allt tal um þjóðnýtingu. Íslenska ríkið hefði aldrei getað eignast Arion banka og Íslandsbanka nema til kæmi greiðsla til kröfuhafa. Engu að síður er sjálfsagt að spyrja sig hvort ríkið hefði ekki átt að krefjast tuga milljarða í þóknun fyrir að veita ábyrgð á rekstri bankanna árin 2009 til 2012 þegar þeir voru formlega komnir í eigu kröfuhafa.

Tortryggni vegna sölunnar á hlutnum í Arion banka er svo sem skiljanleg í ljósi sögunnar. Það jákvæða er að skriður er kominn á skráningu bankans á markað hér heima og erlendis – og þar með gagnsætt eignarhald á honum. Eftir stendur hvað þingmenn ætla sér með ríkisbankana.

Jón G. Hauksson

Það jákvæða er að skriður er kominn á skráningu bankans á markað hér heima og erlendis – eftir stendur hvað þingmenn ætla sér með ríkisbankana.