Mætt á stóra sviðið

Fréttir

Mætt á stóra sviðið

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankas, á sviðinu á aðalfundi bankans í Hörpu aðeins viku eftir að hún tók formlega til starfa. Hún kynnti afkomu og rekstur bankans á síðasta ári. Sem bankastjóri Landsbankans er Lilja Björk mætt á stóra sviðið í íslensku atvinnulífi.

 

MÆTT Á STÓRA SVIÐIÐ

Lilja Björk Einarsdóttir er mætt á stóra sviðið í atvinnulífinu sem nýr bankastjóri Landsbankans. Hún á að baki langan feril í fjármálum, ekki síst við að koma eignum gamla Landsbankans í verð svo hægt væri að greiða Icesave-skuldina.

Texti: Gísli Kristjánsson og Jón G. Hauksson

Myndir: Geir Ólafsson

LILJA BJÖRK EINARSDÓTTIR, 43 ára fjármálaverkfræðingur, er mætt á stóra sviðið í atvinnulífinu sem nýr bankastjóri Landsbankans. Fyrsti starfsdagur hennar í bankanum var miðvikudagurinn 15. mars. Hún var ráðin bankastjóri í janúar og á þeim tíma kynnt til sögunnar innan bankans. Það var Capacent sem annaðist ráðninguna en alls sóttu 43 um stöðuna eftir að hún var auglýst 10. desember síðastliðinn.

LILJA BJÖRK er ekki alveg ókunn Landsbankanum. Hún starfaði við bankann í London á árunum 2005 til 2008. Og eftir hrun bankanna, á ár­un­um 2008 til 2016, stýrði hún starf­semi, eignaum­sýslu og end­ur­heimt eigna gamla Landsbanka Íslands, LBI ehf., í London: Það er að koma eignum bankans ytra í verð svo hægt væri að greiða Icesave-skuldina.

„ÉG MUN BYGGJA Á ÞVÍ GÓÐA STARFI sem hefur verið unnið síðustu ár. Ég lít framtíð Landsbankans björtum augum og ég mun leggja mitt af mörkum til að bankinn geti áfram veitt viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu á hagkvæman hátt,“ er haft eftir Lilju Björk á vef Landsbankans í janúar þegar sagt var frá ráðningu hennar í starf bankastjóra bankans.

AÐEINS VIKU eftir að Lilja Björk tók formlega til starfa sem bankastjóri Landsbankans steig hún á sviðið á aðalfundi bankans í Hörpu miðvikudaginn 22. mars sl. og kynnti afkomu hans á síðasta ári. Hagnaður Landsbankans á síðasta ári eftir skatta var 16,6 milljarðar en skattar bankans nema um 8,5 milljörðum króna.

EIGINFJÁRHLUTFALL bankans um síðustu áramót var um 30,2%. Bankinn er með stærstu hlutdeild allra banka á markaði einstaklinga eða um 37,1%. Arðsemi eiginfjár bankans minnkaði á síðasta ári, úr 14,8% niður í 6,6%.

AF ÞESSU SÉST að Lilja tekur við góðu búi og á tímum mikillar umræðu um framtíðareignarhald á ríkisbönkunum tveimur, Landsbanka og Íslandsbanka. Sú umræða er og verður heit á hinu pólitíska sviði á komandi mánuðum – og sennilega árum.

Á AÐALFUNDINUM ákvað eigandinn, ríkið, að greiða sér arð sem nemur 24,8 milljörðum króna. Greiðslan fer fram í tvennu lagi. Alls 13 milljarðar verða greiddir út í lok mars og 11,8 milljarðar í september í formi „sérstakrar arðgreiðslu“. Því má skjóta hér inn í að ríkið hefur ákveðið að greiða sér 10 milljarða í arð frá Íslandsbanka þannig að ríkisbankanir tveir greiða 34,8 milljarða króna í arð til ríkisins á þessu ári. Það má venjast því þegar kemur að fjárlögum.

MEÐ KOMU LILJU BJARKAR í stól bankastjóra Landsbankans eru tveir af þremur stóru bönkum landsins komnir í hendur kvenna. Birna Einarsdóttir stýrir sem fyrr Íslandsbanka. Þá er framkvæmdastjórn Landsbanka einnig að meirihluta í höndum kvenna; fjórar konur á móti þremur körlum.

Vinna vestanhafs og austan

LILJA BJÖRK út­skrifaðist sem véla- og iðnaðar­verk­fræðing­ur frá Há­skóla Íslands árið 1998 og lauk meist­ara­prófi í fjár­mála­verk­fræði frá Michigan-há­skóla í Ann Ar­bor í Banda­ríkj­un­um árið 2003.

AÐ LOKNU PRÓFI vann Lilja Björk hjá ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­inu Marsh & McLenn­an frá 2003 til 2005 og vann m.a. verk­efni fyr­ir Ford-bíla­fram­leiðand­ann, sem sér­fræðing­ur í gerð áætl­ana og áhættu­lík­ana fyr­ir vá­trygg­ing­ar­svið og fjár­stýr­ingu.

EFTIR veruna í Bandaríkjunum var hún á ár­un­um 2005 til 2008 sér­fræðing­ur og síðar fram­kvæmda­stjóri hjá Lands­banka Íslands hf. í London og bar m.a. ábyrgð á dag­leg­um rekstri og upp­bygg­ingu stoðdeilda. Þetta var þegar hinir nafnkunnu Icesave-reikningar urðu til. Starfið í London á þessum viðkvæma tíma hefur orðið til að tengja nafn Lilju Bjarkar við reikningana, sem kynntir voru sem tær snilld og enduðu sem þjóðarmartröð. Lilja Björk hefur neitað, m.a. í viðtali við Viðskiptablaðið, að eiga þar hlut að máli.

HINS VEGAR kom hún að eftirleiknum, eftir hrun bankanna, því á ár­un­um 2008 til 2016 stýrði Lilja starf­semi, eignaum­sýslu og end­ur­heimt eigna gamla Lands­banka Íslands, LBI ehf., í London: Það er að koma eignum bankans ytra í verð svo hægt væri að greiða Icesave-skuldina.

UM ÞETTA SAGÐI LILJA í viðtali við Viðskiptablaðið 27. janúar: „Eftir hrun stýrði ég endurheimt eigna fyrir bankann í London og ég dreg ekkert úr því að ég er gríðarlega stolt af þeim árangri sem þar náðist. Þær eignir voru notaðar til að greiða upp Icesave-skuldina og þetta tókst vonum framar og mun betur en leit út fyrir í upphafi.“

EFTIR að vinnunni við uppgjör Icesave lauk árið 2016 hefur Lilja verið sjálf­stætt starf­andi ráðgjafi og stjórn­ar­maður í fyr­ir­tækj­um.

„Leiðtogi sem við treystum“

Á AÐALFUNDI Landsbankans í Hörpu 22. mars sl. var Helga Björk Eiríksdóttir kjörin formaður bankaráðs áfram. En hún hafði einmitt þetta að segja á vef bankans þegar bakaráðið réð Lilju Björk í janúar: „Við teljum að reynsla og þekking hennar muni nýtast bankanum afar vel. Staða Landsbankans er traust og hann hefur á að skipa öflugu starfsfólki. Miklar áskoranir eru í rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja um þessar mundir og samkeppnin er hörð. Lilja er öflugur leiðtogi sem við treystum til að stýra Landsbankanum af festu og bæta enn frekar rekstur hans og afkomu. Stefna bankans er skýr. Landsbankinn er samherji viðskiptavina sinna, hann starfar í sátt við samfélagið og vill vera til fyrirmyndar.“

LILJA BJÖRK tók við viðurkenningu fyrir hönd Landsbankans á ráðstefnu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti en bankinn er einn nokkurra fyrirtækja sem fengu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Hún er gift dr. Júlíusi Atlasyni verkfræðingi og þau eiga þrjú börn.

​------------------------------------

Með komu Lilju Bjarkar í stól bankastjóra Landsbankans eru tveir af þremur stóru bönkum landsins komnir í hendur kvenna. Birna Einarsdóttir stýrir sem fyrr Íslandsbanka.

-----------------------------------

„Eftir hrun stýrði ég endurheimt eigna fyrir bankann í London og ég dreg ekkert úr því að ég er gríðarlega stolt af þeim árangri sem þar náðist.“ – Lilja Björk í Viðskiptablaðinu 27. janúar.

-----------------------------------

„Við teljum að reynsla og þekking hennar muni nýtast bankanum afar vel. Staða Landsbankans er traust og hann hefur á að skipa öflugu starfsfólki. Miklar áskoranir eru í rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja um þessar mundir og samkeppnin er hörð.“Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans.