Ógnar hann afkomu WOW og Icelandair?

Fréttir

Ógnar hann afkomu WOW og Icelandair?

Hann er ekki Bjössi á mjólkurbílnum. Hann er Björn Kjos og hefur á 15 árum unnið sig upp úr að standa verkefnalaus á flugbrautinni árið 2002 í að bjóða yfir 30 milljón manns sæti.

 

Norwegian tekur flugið yfir Atlantshaf

Hann er ekki Bjössi á mjólkurbílnum. Hann er Björn Kjos, eigandi Norwegian, og tekur núna Atlantshafsflugið með félag sitt, NAI, Norwegian Air International - og þakkar það komu Donalds Trumps í Hvíta húsið. Vöxtur Norwegian er mikill og Björn er í baráttuhug með fullt flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum og sparneytnar stórþotur.

Fréttaskýring: Gísli Kristjánsson

Nærtækasta dæmið um breytingarnar í fluginu er að flugfélagið NAI hefur fengið fullt flugrekstrarleyfi í Bandaríkjunum og þegar bæst í hóp keppinauta í Atlantshafsfluginu. Flugfélagið NAI – hvað er nú það? Það er írskt eins og Ryanair og hefur höfuðstöðvar í Dublin. Fullu nafni heitir það Norwegian Air International. Þetta er með öðrum orðum dótturfélag norska lággjaldarisans Norwegian og býður nú ódýrustu beinu flugferðir milli borga í Evrópu og Ameríku. Engin millilending og einfaldur miði kostar jafnvel innan við 10.000 íslenskar krónur.

Það er verulega lægra en það sem Icelandair býður best með millilendingu í Keflavík. Millilending fælir farþega almennt frá kaupum nema verðið sé þeim mun lægra eða fólk hyggist nýta stoppið til einhvers. Flestir vilja fara beint frá A til B á sem lægstu verði. Velgengni lággjaldaflugfélaga síðasta áratuginn sýnir það.

Þakkar Trump greiðann

Björn Kjos, eigandi Norwegian, fékk í byrjun febrúar boð frá Bandaríkjunum um að hann mætti stunda þetta flug með írsku flugfélagi. Hann þakkaði komu Donalds Trumps í Hvíta húsið að þar með lauk áralöngu stríði við bandarísk stéttarfélög um að félagið yrði að vera bandarískt með bandarísku starfsfólki. Núna lofar Björn að helmingur starfsfólks verði ráðinn á bandarískum kjörum, hitt eru verktakar skráðir í láglaunalöndum. Og hann lofar að nota aðeins Boeing-þotur, sem ku hafa verið eitt af skilyrðum Trumps. Bjorn ætlaði hvort eð var að nota Boeing af ýmsum stærðum eingöngu.

Í Atlantshafsflugið ætlar Björn að nota Boeing 737 MAX og koma fyrstu vélarnar af þeirri gerð í flotann nú í vor. Alls er pöntunin upp á 108 vélar. Björn er reyndar kunnur fyrir að vera stórtækur í innkaupum.

Hann vakti heimsathygli árið 2012 fyrir að panta 222 vélar hjá Boeing. Það var stærsta pöntun sögunnar og er enn til afgreiðslu. Tíu árum áður hafði Norwegian byrjað með sjö þotur.

Bretlandseyjar – Bandaríkin

Nú í vor bætast við flugleiðir frá Providence við Boston, Stewart norðan New York og Bradley í Connecticut til Belfast á Norður-Írlandi, Edinborgar í Skotlandi og Dublin, Cork og Shannon á Írlandi. Þetta eru nýjar beinar flugleiðir milli Bretlandseyja og Bandaríkjanna.

Björn Kjos byggir velgengni sína að mestu á fyrirmynd írska keppinautarins Ryanair. Aðeins eru seldir strípaðir miðar og oft flogið til minni flugvalla nærri stórborgum. Þannig flýgur Norwegian ekki frá Frankfurt heldur frá Düsseldorf, Hannover, Köln og München.

Ekkert innifalið, engin þjónusta. Starfsfólk er í vaxandi mæli ráðið í dótturfélögum í lággjaldalöndum. Þjónustan er síðan keypt af dótturfélögunum. Æ færri Norðmenn vinna hjá Norwegian. Allt er selt á netinu og starfsmannahald í lágmarki.

Lítill tilkostnaður kemur vissulega niður á þjónustunni, t.d. þegar flug fellur niður eða tafir verða. Einhver hluti farþega heitir því að fljúga aldrei aftur með þessu skítafélagi en farþegum fjölgar samt ár frá ári – miðarnir eru svo ódýrir! Önnur lággjaldafélög eiga líka í sama ímyndarvanda.

Ekki Bjössi á mjólkurbílnum

Björn er þar að auki ekki „Bjössi á mjólkurbílnum“. Hann fer ekki á milli brúsapalla og tekur upp fólk og farangur. Allt flug verður að vera beint á milli staða. Það þýðir að hann verður að fljúga frá mjög mörgum stöðum – öllum borgum sem eru það stórar að vélarnar fyllast.

Þetta þýðir að þotur félagsins og allra dótturfélaganna koma á um 160 flugvelli – þó kannski bara einu sinni í viku á suma. En það er flogið milli landa frá níu flugvöllum í Svíþjóð, átta í Finnlandi og sjö á Ítalíu. Margar af þessum flugleiðum eru á milli staða í Evrópu.

Kjos býður beint flug til Ameríku frá norskum bæjum eins og Björgvin og Þrándheimi. Ameríkuflugið kostar það sama og innanlandsflugið til Óslóar og það er engin millilending í Keflavík eins og ef flug með Icelandair eða WOW air hefði orðið fyrir valinu.

Loksins gróði

Sætanýting skiptir miklu og einnig hvað hægt er að selja farþegum á leiðinni milli staða. Reynsla síðustu ára sýnir að flugið sjálft er rekið á núlli en hagnaðurinn fæst með sölu um borð. Þó fór svo á síðasta ári að Kjos græddi í raun og veru fé á rekstrinum og átti eftir einn milljarð norskra króna – meira en 10 milljarða íslenskra – þegar reikningar voru gerðir upp við áramót.

Vöxturinn í veltu hefur verið ör. Tekjurnar árið 2011 voru 10 milljarðar norskra króna  en í fyrra nær 19 milljarðar eða um 247 milljarðar króna. Fjölgun farþega hefur verið mest síðustu ár og aldrei meiri en einmitt núna. Í lok síðasta árs hafði farþegum fjölgað um 12%.

Áætlanir þessa ársins gera ráð fyrir 34 milljónum farþega. Björn Kjos hefur á 15 árum unnið sig upp úr að standa verkefnalaus á flugbrautinni árið 2002 í að fljúga með um 30 milljónir farþega á síðasta ári.

Fram að því hafði reksturinn oftast staðið í járnum eða með lítilsháttar hagnaði. En vöxturinn hefur líka verið ör. Þetta er dæmigert fyrir frumkvöðla. Þeir þurfa engan gróða til að standa undir einkaneyslu því allur tíminn fer í vinnuna og eina áhugamálið er vöxtur og viðgangur fyrirtækisins. Fjölskyldan á allt hlutaféð. Gróði skiptir hins vegar máli ef selja á hlutabréf.

En fyrirtækið vex enn. Það er nú orðið þriðja stærsta lággjaldaflugfélag í heimi. Flugflotinn taldi 173 vélar þegar síðast var talið en pöntunarlistinn er langur og stöðugt bætist við. Samkeppnin fer líka harðnandi. Núna hefur British Airways stofnað eigið lággjaldafélag, Level.

Hættur að hugsa um SAS

Upphaflega var SAS keppinauturinn og óvinurinn. Björn Kjos neyddist til að fara út í samkeppni við SAS árið 2002 þegar SAS sagði upp leigusamingi á sex Fokkervélum í innanlandsflugi í Noregi. Vélarnar voru eign Kjos, allur flugfloti hans, og hann nú verkefnalaus. Hann seldi því flotann, keypti nokkrar notaðar Boeing 737 og hóf beina samkeppni.

Nú er Norwegian orðið stærra en SAS í Noregi en Kjos leggur orðið megináherslu á að ná stærri hluta af heimsmarkaðnum, þar á meðal Atlantshafsfluginu og flugi til Austurlanda fjær. SAS er ekki lengur áhugaverður keppinautur. Keppinautarnir eru félög sem til þessa hafa boðið besta verðið á langleiðum eins og milli Evrópu og Ameríku.

---------------------

HVERNIG MÆTA ÞEIR AUKINNI KEPPNI FRÁ BIRNI KJOS?

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Stóra spurningin núna er hvort og hvaða áhrif Ameríkuflug Norwegian hafi á Icelandair og WOW air. Og er mannmergðin í Leifsstöð orðin slík að hún fæli frá og ýti undir beint flug Norwegian yfir hafið. Spáð er að farþegum um Leifsstöð fjölgi úr 6,7 milljónum í 8,8 milljónir á þessu ári – eða um 2,1 milljón farþega.

ÁRIР2016

*Velta Norwegian: 19 milljarðar nkr.  247 milljarðar kr.

*Velta Icelandair Group: 143 milljarðar kr.

*Velta WOW air: 38 milljarðar kr.

*Fjöldi farþega-Norwegian:  30 milljónir.

*Fjöldi farþega-Icelandair:  3,7 milljónir.

*Fjöldi farþega-WOW air: 1,7 milljónir.

1.

AMERÍKUFLUG Norwegian kostar það sama og innanlandsflugið til Óslóar og það er engin millilending í Keflavík eins og ef flug með Icelandair eða WOW air hefði orðið fyrir valinu.

2.

BJÖRN KJOS hefur á 15 árum unnið sig upp úr að standa verkefnalaus á flugbrautinni árið 2002 í að bjóða yfir 30 milljón manns sæti.

3.

SAMKEPPNIN fer harðnandi. Núna hefur British Airways stofnað eigið lággjaldafélag, Level.