Bjargaði ryksugunni en rifbeinsbrotnaði

Fréttir

Bjargaði ryksugunni en rifbeinsbrotnaði

Stórskemmtileg nærmynd er af Eyjólfi Árna Rafnssyni, nýjum formanni Samtaka atvinnulífsins, í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Sagt um Eyjólf Árna:

Séra Sigurjón Einarsson:  „Elstu strákar þeirra voru upplitsdjarfari og ræðnari en sveitakrakkar almennt voru á þessum árum, báðir greindir og hefur vegnað vel í veraldarvolkinu.“

Finnur Ingólfsson: „Þar var Árni staðráðinn í að standa á dekki og sjá ljósin bæði í Afríku og Evrópu samtímis.“

Guðrún Hafsteinsdóttir: „Hann hefur gott lundarfar og ég hef aldrei séð hann skipta skapi.“

Sigurður St. Arnalds: „Hann býr yfir mjög sterkri réttlætiskennd og þolir ekki óréttlæti.“

Finnur Ingólfsson:  „Hann bjargaði ryksugunni en rifbeinsbrotnaði sjálfur.“

 

Eyjólfur Árni Rafnsson, nýr formaður Samtaka atvinnulífsins er arftaki Björgólfs Jóhannssonar í því embætti. Hann segist ekki byltingamaður. Fólk sem þekkir Eyjólf vel lýsir honum sem afar liprum manni, sanngjörnum, opinskáum og félagslyndum.

Nærmynd: Gísli Kristjánsson

Samtök atvinnulífsins hafa fengið nýjan formann, mann sem ekki hefur haft fasta vinnu í meira en ár eða frá því hann hætti sem forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits. Tuttugu ár voru nóg við að stýra stærstu fyrirtækjum landsins í verkfræðinni. Hann átti mestan þátt í að móta Mannvit og hefur fengið mikið lof fyrir vinnu sína þar; var meðal annars kjörinn Maður ársins hjá Frjálsri verslun árið 2011.

Fáir hefðu raunar spáð því um Eyjólf Árna í æsku að hann yrði um sextugt orðinn formaður félags atvinnurekenda á Íslandi. Hann er upprunninn austur á Síðu og á ekki til ríkra að telja, sleit barnsskónum á afskekktu heiðarbýli.

Hann fór líka þá braut sem vænta mátti um unga sveitadrengi „milli sanda, eftir eld“ á árunum upp úr 1970. Hann hélt austur yfir Mýrdalssand og lagði fyrir sig nám í húsasmíði í Vík í Mýrdal.

Foreldrar hans eru Rafn Valgarðsson og Halldóra Árnadóttir, sem nú búa í ellinni í Grundarfirði hjá Önnu, yngstu systur Eyjólfs Árna.

„Upplitsdjarfur og ræðinn“

Eyjólfur Árni fæddist 21. apríl 1957 og ólst í fyrstu upp í Heiðarseli, einu af býlunum á heiðinni ofan við Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Það var síðasta byggða ból áður en haldið var inn í Laka. Þetta var fátækt heiðarbýli og nú í eyði. Móðurfólk Eyjólfs Árna átti kotið. Fjölskyldan fór þaðan árið 1970 og flutti á betri bújörð í Holti II á Síðu.

Séra Sigurjón Einarsson, lengi prestur sóknarinnar, kom þarna meðan foreldrar Eyjólfs Árna bjuggu enn í Heiðarseli. Sigurjón sagði svo frá síðar að jörðin hefði verið lítil og lífsbaráttan hörð hjá hjónunum Rafni og Halldóru.

En: „Elstu strákar þeirra voru upplitsdjarfari og ræðnari en sveitakrakkar almennt voru á þessum árum, báðir greindir og hefur vegnað vel í veraldarvolkinu.“

Við höfum þá vitnisburð prestsins um að það er greind en ekki ríkidæmi sem hefur fleytt Eyjólfi Árna áfram. Hinn strákurinn sem þarna er nefndur er Jón tónlistarmaður. Næstu systkini eru síðan Sigrún, Björn Ingi og yngst er Anna.

„Ríkidæmið í æsku fólst í endalausri hvatningu til að fylgja eftir draumum sínum,“ segir Eyjólfur Árni.

Námsmaður með afbrigðum

Smíðanáminu lauk en trésmíði varð þó ekki lifibrauð Eyjólfs Árna. Á yngri árum var hann reyndar alltaf kallaður Árni og er enn af þeim sem best þekkja hann. Fyrra nafnið – Eyjólfur – komst ekki í notkun fyrr en leiðin lá í Tækniskóla Íslands til framhaldsnáms.

Einn þeirra sem þekkja Eyjólf Árna allt frá árunum í Vík í Mýrdal – og kalla hann Árna – er Finnur Ingólfsson. Finnur segir að þeir talist við nær daglega enda eru eiginkonur þeirra æskuvinkonur og náið samband á milli fjölskyldnanna. Eiginkona Eyjólfs Árna er Egilína S. Guðgeirsdóttir og synir þeirra eru fjórir: Rúnar Þór, Rafn, Reynir Ingi og Róbert.

„Þetta var mjög eðlileg og sjálfsögð ákvörðun hjá Árna að fara í húsasmíði,“ segir Finnur. „Hugsunin var að vinna fyrir sér og áhrifin frá umhverfinu þau að ungir menn ættu að læra hagnýt störf til að sjá sér og sínum farborða í framtíðinni. Í framhaldi af smíðanáminu fer hann í Tækniskólann og stendur sig með afbrigðum vel þar. Hann er sterkur námsmaður, eins og menn vissu reyndar fyrir, og þetta leiðir til vinnu við mannvirkjagerð og til náms í Bandaríkjunum þar sem hann lýkur doktorsprófi í verkfræði. Ég segi alltaf að hann sé doktor í „drullufræði“ því sérgrein hans er þétting jarðefna við stíflugerð. Hann kann það fag.“

Langur ferill við stjórnun

Að loknu B.Sc.-prófi í byggingartæknifræði frá Tækniskóla Íslands árið 1984 réðst Eyjólfur Árni til starfa hjá Hönnun hf. verkfræðistofu og varð forstjóri hennar árið 2003. Við sameiningu Hönnunar hf. og VGK hf. varð hann síðan forstjóri sameinaðs fyrirtækis árið 2007 og forstjóri Mannvits hf. eftir sameiningu við Rafhönnun hf. frá 2008 til 2015 er hann lét af störfum sem forstjóri.

Eyjólfur Árni var eigandi í ofangreindum fyrirtækjum frá 1995 til ársbyrjunar 2016 en hefur nú selt allt.

Framan af þessum tíma var vinnan mest að sumrinu því samhliða vinnu lagði Eyjólfur Árni stund á verkfræði í Bandaríkjunum. Hann lauk M.Sc.-prófi í byggingarverkfræði, með stíflugerð sem sérgrein, frá University of Missouri Rolla árið 1988 og síðan doktorsprófi í þessari sérgrein verkfræðinnar frá sama skóla árið 1991. Þarna kom sem sagt til sögunnar sérhæfingin í því sem Finnur Ingólfsson kallar drullufræði – það eru fræði tengd jarðtækni og umhverfismálum en einnig verkefnastjórnun.

Velst alltaf til að stjórna

Finnur segir einnig að Árni veljist alltaf til forystu. „Hann hefur varla unnið mikið síðustu árin sem verkfræðingur í hefðbundnum skilningi. Honum er alltaf falin stjórnin,“ segir Finnur og segir að þetta byggist á persónulegum eiginleikum mannsins:

„Hann er ákveðinn, sanngjarn, útsjónarsamur og hefur góða nærveru sem vekur traust. Þessi góða nærvera skýrir margt um það traust sem menn fá strax á honum. Og þetta eru allt eiginleikar sem Árni býr yfir og eiga eftir að nýtast honum vel í starfi formanns SA,“ segir Finnur.

„Hann er traustvekjandi maður en um leið léttur í skapi og sanngjarn. Þetta hefur leitt til þess að á hann hlaðast alltaf trúnaðarstörf,“ segir Finnur. „Hann velst til að stjórna vegna þess að hann er ákveðinn en líka sveigjanlegur.“

Uppgangur hjá Mannviti

Við biðjum Eyjólf Árna að lýsa þessum störfum fyrir Mannvit. Það er í raun lífsstarf hans til þessa:

„Þetta var formennska í framkvæmdastjórn og allt sem því fylgdi,“ segir hann. Það eru samskipti við viðskiptavini fyrirtækisins, stýring á áætlanagerð og frágangi stærri verksamninga og ábyrgð á stefnumótun og seta í stjórnum dóttur- og hlutdeildarfélaga eftir ákvörðun stjórnar.

Hann leggur líka áherslu á að fyrirtækið hafi á þessum árum farið í gegnum miklar breytingar auk þess sem tvisvar var ráðist í miklar sameiningar.

„Þetta leiddi af sér verulega fjölgun starfsmanna og umsvif í mörgum löndum,“ segir Eyjólfur Árni. Hann segir að á árinu 1997 hafi starfsmenn Hönnunar hf. verið um 35 talsins, VGK um 25 og Rafhönnunar um 25. Við sameiningu VGK og Hönnunar í ársbyrjun 2007 var fjöldi starfsmanna þess fyrrnefnda orðinn um 70 og þess síðarnefnda um 170. Við sameiningu VGK-Hönnunar og Rafhönnunar urðu starfsmenn þess fyrrnefnda um 280 og þess síðarnefnda um 70.

„Fjöldi starfsmanna Mannvits var því í upphafi um 350 en fór mest í um 420,“ segir Eyjólfur Árni. Í dag starfa hjá Mannviti og dóttur- og hlutdeildarfélögum þess um 350 manns á átta stöðum innanlands auk skrifstofu í Bretlandi, Ungverjalandi, Noregi og tveggja skrifstofa í Þýskalandi. Á Íslandi starfa um 300 manns og um 50 utan Íslands.

Hann rekur verkefni sem hann hefur komið að á undanförnum árum. Þar má nefna álver Norðuráls á Grundartanga, álver Reyðaráls og síðar Fjarðaáls á Reyðarfirði, kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík, undirbúning álvers í Helguvík, stækkun Kvíslaveitna fyrir Landsvirkjun, hönnun og undirbúning Vatnsfellsvirkjunar og undirbúning Kárahnjúkavirkjunar og Búðarhálsvirkjunar.

Hætti þegar hann hætti

Eyjólfur Árni er því stoltur af þeim árangri sem náðist meðan hann var forstjóri Mannvits – en svo var kominn tími til að söðla um.

„Ég var búinn að vera í þessu í 20 ár og fannst komið nóg. Ég ákvað að hætta og hætta þá alveg. Ekki hanga yfir nýjum stjórnendum. Ég ber auðvitað hlýjar tilfinningar til fyrirtækisins, ég hef lagt mikla vinnu í það og er sáttur, en þegar ég hætti þá hætti ég alveg og sný mér að öðru,“ segir Eyjólfur Árni.

Við þessi störf í verkfræðinni bætist svo stjórnarseta á ýmsum stöðum eins og hjá Landmælingum Íslands, Orkustofnun, Viðskiptaráði Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Fasteignafélaginu Eik. Hann var einnig nefndarmaður og formaður skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar um árabil. Hann hefur einnig verið varaformaður í stjórn Samtaka iðnaðarins síðustu tvö ár.

Svarar engum illu

Guðrún Hafsteinsdóttir, oftast kennd við Kjörís, hefur verið formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins á tíma Eyjólfs Árna þar í stjórninni.

„Ég vissi áður vel hver hann var, en við kynntumst ekki fyrr en fyrir þremur árum þegar við settumst saman í stjórn og höfum unnið mikið saman síðan því hann hefur verið varaformaður síðustu tvö árin,“ segir Guðrún.

„Ég tel mig heppna að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessum manni,“ heldur hún áfram. „Fyrst og fremst er hann mjög skemmtilegur. Hann nær að sjá spaugilegu hliðarnar á öllum málum þótt þau séu annars alvarleg. Hann hefur gott lundarfar og ég hef aldrei séð hann skipta skapi. Hann er aldrei dónalegur og svarar engum illu, aldrei. Og svo er hann einstaklega vel kvæntur.“

Guðrún hefur líka tekið eftir að hann þekkir óskaplega marga, hálfa þjóðina telur hún, og er mjög fjölhæfur.

„Þegar ég hringi í hann er hann kannski að vasast í hrossum eða leita að vatni eða leggja parket. Um leið er hann mjög traustur við að leysa þau úrlausnarefni sem liggja fyrir í stjórn. Hann vinnur alltaf vel. Og við munum sem betur fer vinna áfram saman því Samtök iðnaðarins eru stærstu aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins. Störf okkar skarast,“ segir Guðrún.

Glaðbeittur og hress

Sigurður St. Arnalds verkfræðingur hefur unnið með Eyjólfi Árna um árabil, fyrst hjá Hönnun og svo Mannviti. Þar hafa þeir verið við framkvæmdastjórn og stjórnarformennsku og Eyjólfur svo forstjóri Mannvits þar til hann hætti á síðasta ári.

„Hann er mjög félagslyndur maður og opinskár. Hann á auðvelt með að umgangast annað fólk og leggur mikið upp úr góðum samskiptum. Hann nýtur hæfileika sinna í mannlegum samskiptum og nýtur þess að koma vel fyrir, kurteis en þó glaðbeittur og hress,“ segir Sigurður.

„Hann er mjög frjór og tekur frumkvæðið og bíður ekki eftir að einhver banki á dyrnar. Hann vílar ekki fyrir sér að takast á við ný verkefni og nýjar áskoranir. Það er alveg í samræmi við karakterinn að sækjast eftir nýjum ábyrgðarstöðum,“ segir Sigurður.

„Hann býr yfir mjög sterkri réttlætiskennd og þolir ekki óréttlæti. Það sá ég oft í því hvað hann stóð þétt með starfsfólkinu hjá Mannviti,“ segir Sigurður ennfremur og bætir við:

„Hann er úr sveit og slíkir menn eru oft mjög praktískir. Hann vinnur hvaða verk sem er sjálfur og sækir líka í athvarf utanbæjar, er með hesta og aðstöðu bæði vestur á Snæfellsnesi og í Mýrdalnum. Hann er enn sveitamaður í sér.“

Töluverður hrakfallabálkur

Þegar spurt er um veikleika mannsins og lesti vefst viðmælendum tunga um tönn. Sigurði St. Arnalds kemur ekkert í hug. Guðrún Hafsteinsdóttir telur helst að honum liggi stundum of lágt rómur:

„Hann mætti tala hærra,“ segir Guðrún.

Finnur Ingólfsson þekkir hins vegar betur til Árna frá árum áður og kann margar sögur.

„Veikleikar hans lúta fyrst og fremst að manninum sjálfum: Hann er töluverður hrakfallabálkur og hefur ótal sinnum orðið að ganga með gifs á höndum eða fótum,“ segir Finnur.

„Þetta er alveg merkilegt en á tímabili tókst honum að brjóta sig við ólíklegustu tækifæri. Ég held að árin 2009 og 2010 hafi verið þau fyrstu í mörg ár sem hann var óslasaður.

Stundum má rekja þetta til skyldurækni. Einu sinni var hann að ryksuga heima og datt niður stiga með ryksuguna í fanginu. Hann bjargaði ryksugunni en rifbeinsbrotnaði sjálfur. Stundum er þetta vegna forvitni. Við erum í hestamennsku og einu sinni vorum við með fleirum að koma heyböggum í hlöðu. Böggunum var kastað niður um hlöðugat og þá þurfti Árni endilega að stúdera hlöðugatið og hvernig ástandið væri niðri. Þá fékk hann bagga í hausinn og slasaðist.“

Ekkert brotnaði nema leirtauið

Finnur rifjar upp fleiri sögur í þessum dúr og hefur gaman af :

„Við fórum einu sinni í siglingu á Miðjarðarhafinu og út um Gíbraltarsund um nótt. Þar var Árni staðráðinn í að standa á dekki og sjá ljósin bæði í Afríku og Evrópu samtímis. Það brast á með fárviðri á leið um sundið og engum datt í hug að vera á dekki nema Árna. Hann fann út að hann þyrfti að hlaupa milli borðstokka til að sjá land á báða bóga, og að hann gæti stytt sér leið í gegnum japanskan veitingastað á efsta þilfari. Í fárviðrinu hafði japanski vertinn gengið tryggilega frá öllu leirtauinu. Á hlaupum milli borðstokka í myrkrinu og óveðrinu rakst Árni auðvitað í allt inni á veitingastaðnum og flest brotnaði.

Morguninn eftir sagði skipstjórinn að þetta hefði verið versta veður sem hann hefði komist í á 40 ára sjómennskuferli. Sem betur fer hefði þó ekkert skemmst um borð annað en að leirtauið í japanska veitingastaðnum á efsta þilfari brotnaði! En ekki sá Árni ljósin í landi í sortanum og óveðrinu.“

Áhugamálin utan vinnu eru þó fyrst og fremst á þurru landi. Það er hestamennska og útivera. Hann spilar einnig á gítar í tríói með Hrólfi Jónssyni og Tryggva Pálssyni, mest að sögn þeim sjálfum til skemmtunar en hefur troðið upp á árshátíðum í Mannviti. Tónlistin er létt dægurlög.

Bara að ræða málin

Eyjólfur Árni lýsir sér ekki sem byltingamanni þegar kemur að áformum og áherslum í formennsku hjá SA.

„Ég geri ráð fyrir að halda áfram á sömu braut og mörkuð hefur verið,“ segir Eyjólfur og þar á meðal styður hann SALEK-samkomulagið, eins konar norrænt módel við gerð kjarasamninga. Hugmyndin er að ná sama stöðugleika og friði á vinnumarkaði og oftast er í norrænu ríkjunum.

Þó er vaxandi órói innan verkalýðshreyfingar á Íslandi, eins og sést best á hallarbyltingu innan VR. Það er stærsta stéttarfélag landins. Þar hefur nýr formaður, Ragnar Þór Ingólfsson, lýst andstöðu við SALEK-samkomulagið og sagt að draumar um norrænt módel eigi ekki við á íslenskum vinnumarkaði enn um sinn.

„Ég er alveg rólegur yfir þessum tíðindum. Auðvitað eru ekki allir sammála og þá er bara að ræða málin. Ný viðhorf koma með nýju fólki,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson.