Vivaldi er óskavafri sjóaðra

Fréttir

Vivaldi er óskavafri sjóaðra

Frumkvöðullinn Jón von Tetzchner segir að hópurinn sem noti Vivaldi-vafrann sé mjög sjóaður. „Við vinnum stöðugt að endurbótum og leit að nýjum möguleikum, eitthvað nýtt á sex vikna fresti.“

Ný útgáfa af netvafranum Vivaldi kynnt til sögunnar:

Óskavafri sjóaðra

Frumkvöðullinn Jón von Tetzchner kennir nýjungar sínar við tónlist. Hann segir að vafrinn Vivaldi sé fyrir nördana, þá sjóuðu í netnotkun. Þetta eru ekki Óskalög sjómanna heldur Óskavafri sjóaðra.

Viðtal: Gísli Kristjánsson

Núna eru liðin allmörg ár frá því helstu kostir vinsælla vafra voru komnir fram. Google Chrome ræður markaðnum með annan hvern notanda og Safari og Firefox koma næst en langt á eftir. Og enn aftar vafrar eins og til dæmis Opera, sem nú er í eigu Kínverja og hefur lagað sig að risunum á markaðnum.

Svo eru líka til vafrar sem ekki leita á hefðbundnar slóðir og reyna að þróa þetta vinsæla verkfæri og ná til hópa sem vilja annað og meira en bara venjulega vafra – meira en það sem allir hinir eru með.

Þarna kemur Vivaldi til sögunnar. Hann er nú kominn í útgáfu 1.8 og hefur verið rúmt ár á netinu í almennri útgáfu. Frumkvöðullinn Jón von Tetzchner segir að Vivaldi hafi fljótlega náð um 350.000 notendum og nú á ársafmælinu kaus að jafnaði nær milljón manns Vivaldi fremur en hefðbundin verkfæri.

Ári eftir að fyrsta opinbera útgáfa kom fram var ný útgáfa kynnt á vormánuðum og notendum fjölgar jafnt og þétt.

„Ekkert liggur á. Þetta þarf ekki að gerast hratt,“ segir Jón. Þó segir hann að fyrirtækið verði ekki komið í plús fyrr en notendur eru orðnir þrjár til fimm milljónir. Jón festir fé til langs tíma, það er fé sem hann fékk við sölu á hlut sínum í Operu.

„Við vinnum stöðugt að endurbótum og leit að nýjum möguleikum, eitthvað nýtt á sex vikna fresti,“ segir Jón.

Sagan á skjánum

Nýja útgáfan á ársafmælinu er kynnt með nýjum kostum eins og að sjá eigin sögu á netinu. Þetta er tæpast mikilvægur kostur fyrir þá sem skoða bara fréttir, veður og eigin tölvupóst. Notkun annarra er verulega flóknari og útilokað að muna hvar menn voru í gær eða fyrradag. Netverjar sem eru meira á netinu en í rúminu spyrja gjarnan: Hvar fann ég þetta og hvar var ég þá? Í nýjustu útgáfu Vivaldi er netsaga notandans aðgengileg.

Sjóaður hópur

„Vivaldi er bæði fyrir atvinnumenn, það er fólk sem beinlínis vinnur við netið, og svo alla hina sem eru mikið á netinu og vilja meira en bara það sem einföldustu vafrar bjóða upp á. Hópurinn sem notar Vivaldi er mjög sjóaður,“ segir Jón.

Óverulegt fé er notað í kynningu á Vivaldi. Þar er treyst á gott orðspor. Kostir þessa vafra spyrjast út meðal „nördanna“ og Vivaldi hefur fengið góða dóma í tölvublöðum. Þar er skrifað um nýjungar og því fær mikla Vivaldi athygli. Þannig sögðu tugir fjölmiðla um allan heim frá nýjustu útgáfunni af honum í vor.

Þetta á ekki bara við um tímaritin sem nördarnir lesa heldur og víðlesin dagblöð eins og Boston Globe og The Guardian. Viðskiptaritið Forbes hefur líka lagt síður undir Vivaldi og gefið Jóni orðið.

Vinnur jafnt og þétt á

Breska veftækniblaðið The Register taldi til dæmis í fyrstu litla von um að starfsmenn Vivaldi gætu endurbætt verkfæri sem þegar virtist fullþróað. Þar stóð:

„Sum okkar verja meiri tíma á netinu en í rúminu. En það er eins með rúm og vafra: Ekki eru allar nýjungar til bóta.“

Þetta var þegar fyrsta tilraunaútgáfan kom út fyrir tveimur árum. Síðan hefur brúnin hækkað á blaðamönnum Register og síðasta útgáfa vafrans fékk umsögina „I‘m sold!“ Þannig hefur Vivaldi unnið jafnt og þétt á.

Sérstaða

En lendir Jón ekki í því að aðrir reyni að stela nýjum hugmyndum og lausnum sem koma fram hjá Vivaldi? Fyrirtækið er þrátt fyrir allt bara með teymi upp á 35 manns – þar af 10 á Seltjarnarnesi – og það er mjög lítill hópur miðað við stórveldi eins og Google.

Hann segir þetta ekki áberandi. „Útgefendur annarra vafra reyna að vera sem líkastir. Þeir fylgja meginlínunni og forðast að valda notendum óþægindum. Við hjá Vivaldi hikum hins vegar ekki við að ögra fólki enda er vafrinn hugsaður fyrir þá sem vilja annað og meira en bara þetta venjulega,“ segir Jón.

Um leið er það „þröskuldur að fara yfir“ að skipta út vafra: Hætta að nota Chrome og taka Vivaldi í staðinn. Flestir forðast nýjungar nema kostir þeirra komi fljótt í ljós. Þolinmæðin er ekki mikil. Notendur Vivaldi eru hins vegar áhrifamiklir stórnotendur.

Eða eins og Jón segir: „Góðir hlutir gerast hægt.“