Costco keppir við Golíat!

Fréttir

Costco keppir við Golíat!

Bandaríska stórverslunin Costco verður opnuð í næstu viku. Búist er við metfjölda við opnuna. Teikn­ing/​KRADS & THG arki­tekt­ar

 

Það voru biðraðir þegar Bauhaus og Dunkin Donuts voru opnuð. Eflaust verður það sama upp á teningnum þegar Costco verð­ur opnað í Garðabæ í þessum mánuði. Margir telja að þetta bandaríska stórfyrirtæki eigi eftir að breyta íslenskri verslunarsögu og stórlækka verð á smásölumarkaði. Costco, sem er bandarískur smásölurisi, verður stór á Íslandi en ekki mikið meira. Golíat er fyrir á markaðnum. Áhrifin verða talsverð en ekkert í líkingu við opnun Bónuss, Kringlunnar og Smáralindar. Þeir viðburðir eru vörður í íslenskri verslunarsögu. Costco verður með sextán bensíndælur og lofar lægsta verði á bensíni. Það er góð kaupmennska og mun laða fólk að. Fyrirtækið mun örugglega gera sig gildandi í sölu á dekkjum, heimilistækjum og raftækjum; stærri og dýrari vörum. Verðið á lítranum af bensíni þarf hins vegar að vera verulega lægra en hjá þeim sem fyrir eru til að menn geri sér ferð suður í Garðabæ. Spennandi verður að sjá þjónustuna og verðið á matvælum. Til að geta skipt við Costco þarf að vera félagsmaður. Frjáls verslun býður Costco að sjálfsögðu velkomið til Íslands og óskar því velfarnaðar. Samkeppnin mun væntanlega harðna – neytendum til heilla.

Samkeppni á smásölumarkaði gengur út á meira en verð. Afgreiðslutími, vöruval, vörumerki, gæði, fjöldi verslana, staðarval og viðmót starfsfólks eru stórar breytur í formúlunni. Þótt það sé frjáls aðgangur að markaði er ekki þar með sagt að auðvelt sé að finna holuna – og ná í viðskiptavini af þeim sem fyrir eru á markaðnum. Ekkert fyrirtæki verður stórt af sjálfu sér – viðskiptavinirnir gera þau stór. Miklar sögur fóru af komu Bauhaus inn á markað byggingarvara fyrir nokkrum árum og væntingarnar voru miklar. Það er hins vegar mjög auðvelt að fá bílastæði fyrir utan Bauhaus. Costco telur að ónóg samkeppni ríki á íslenskum smásölumarkaði og hægt sé að lækka verðið og hagnast á sama tíma.

Smásölumarkaðurinn á Íslandi veltir um 400 milljörðum króna. Haft var eftir Jóni Björnssyni, forstjóra Festar, í Morgunblaðinu nýlega að menn oftúlkuðu komu Costco til landsins. Hann sagði að bestu verslanir Costco veltu 10 til 12 milljörðum króna á ári. Skoðum dæmið. Gerum ráð fyrir að velta Costco verði á þeim nótum. Sú velta yrði aðeins tíundi hluti af tekjum Haga eftir kaup þeirra á Olís – en þær verða nálægt 120 milljörðum króna á ári, samkvæmt 300 stærstu Frjálsrar verslunar. Hagar, sem reka Bónus, Hagkaup og Aðföng, verða eftir Olís-kaupin þriðja til fjórða stærsta fyrirtæki landsins og Golíat á smásölumarkaði. Festi, sem rekur meðal annars Krónuna, Nóatún, Elkó, Intersport og vöruhótelið Bakka, er 22. stærsta fyrirtæki landsins og veltir um 40 milljörðum króna. Samanlögð velta Haga og Festar er því um 160 milljarðar króna á 400 milljarða markaði. Það er markaðsaflið sem bandaríski risinn Costco þarf að takast á við.

Á Íslandi hefur lengi ríkt fákeppni í atvinnulífinu. Á flestum mörkuðum eru tvö til þrjú stór fyrirtæki og nokkur smærri. Fámennið gerir það að verkum að við njótum ekki hagkvæmni stærðarinnar og er ástæðan fyrir því að mörgum þekktum erlendum fyrirtækjum finnst ekki taka því að hefja rekstur á Íslandi. Eða hvers vegna hefur enginn erlendur banki séð ástæðu til þess að opna útibú á Íslandi í landi þar sem vextir eru háir, vaxtamunur mikill og bankakerfið of stórt og dýrt?

Íslenskir neytendur eru fremur trúir sínum fyrirtækjum; sérstaklega þegar bankar og fjármálafyrirtæki eru annars vegar. Ýmislegt bendir þó til þess að komin sé fram ný kynslóð sem hikar ekki við að stökkva á milli keppinauta og eltast við besta verðið. Þetta birtist til dæmis í minni tryggð við tryggingafélög en áður eftir að reglum var breytt um að hægt væri að segja upp tryggingum og skipta um félag með litlum fyrirvara. Bónus, Krónan og Hagkaup hafa skorað hátt í árlegri könnun Frjálsrar verslunar um vinsælustu fyrirtækin – þær vinsældir þarf Costco að takast á við. Spennandi keppni og árangurinn verður forvitnilegur.

                                                                                                                           Jón G. Hauksson