Veganesti fyrrverandi yfirmanna

Fréttir

Veganesti fyrrverandi yfirmanna

Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri FranklinCovey, er fastur pistlahöfundur í Frjálsri verslun um árangur og forystu. Guðrún er einn helsti ráðgjafi landsins í stjórnun og vinnur með mörgum toppstjórnendum bæði hér heima og erlendis. Hún fjallar um vegnanesti fyrrverandi yfirmanna í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar - og færir nokkrum þeirra örlítinn virðingarvott með hliðsjón af því sem hún hefur lært af þeim á lífsleiðinni.

Hér kemur pistillinn hennar:

„Eitt af fyrstu alvörustörfunum mínum var á stóru sjúkrahúsi í Bandaríkjunum, UNC Hospitals í Chapel Hill, þar sem ég starfaði með framkvæmdastjóranum Mary Beck. Hún bar ábyrgð á gríðarlegum fjármunum og öllum tækjakaupum og allri þróunarvinnu fyrir sjúkrahúsið. Það sem er mér svo eftirminnilegt þegar við gengum eftir sjúkrahúsgöngunum er að þá var henni ekki síður umhugað um smáatriðin og tók t.d. ávallt upp tau eða rusl sem hafði dottið af vögnum á göngunum og gekk sjálf frá. Það er mikilvæg jafnvægiskúnst að horfa í smáatriðin sem og að hafa yfirsýn yfir stóru málaflokkana.

Svo var það einstakur yfirmaður minn á Borgarspítalanum, Sigurlín Gunnarsdóttir, sem var hjúkrunarforstjóri. Mér verður oft hugsað til forgöngu hennar og hef alltaf kunnað að meta hvað hún var óhrædd við að leita til mín þótt ég væri á táningsaldri og óbreyttur fulltrúi á skrifstofu hjúkrunarforstjóra. Hún bað mig oft að hlusta á ræður eða gefa endurgjöf á skýrslur sem hún var að skrifa. Bara það að hún skyldi sýna mér þetta traust og efla þannig sjálfstraust mitt og sýna auðmýkt er nokkuð sem ég gleymi aldrei.

Davíð Á. Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, bauð mér að starfa á spítalanum þegar ég var enn í meistaranámi og þar starfaði ég í sjö ár við að byggja upp nýja einingu tileinkaða gæðastjórnun, fræðslu- og þróunarmálum sem var þá óþekkt. Það að hann skyldi treysta mér til þess að vinna að þessu mikilvæga verkefni, sem hafði litla formlega forsögu, og líka gefa mér tækifæri til þess að vinna að ástríðu minni fyrir umbótum með framúrskarandi fagfólki er nokkuð sem ég hef alltaf kunnað að meta við hann.“

Bjarni Hólm, sem var forsjóri VSÓ ráðgjafar sem síðar varð Deloitte ráðgjöf, er fjórði yfirmaðurinn sem er Guðrúnu minnisstæður. „Ég kunni svo vel að meta það viðhorf hans að árangur í sölu og rekstri byggist fyrst og fremst á orðspori og fagmennsku. Viðvarandi rekstrarárangur sérþekkingarfyrirtækja verður ekki skapaður með markaðsmaskínu eða snilld í almannatengslum, heldur okkar verkum.

Ég get ekki sleppt því að tala um Svöfu Grönfeldt sem rektor HR og núna framkvæmdastjóra hjá Alvogen. Hún er alltaf óhrædd við að stíga af fullum þunga inn í flókin verkefni. Hún gerir þetta líka alltaf af gleði og virðingu. Þó svo að hún sé sjálf einstaklega skapandi og klár leitar hún ávallt eftir samtali við hópinn og virkjar ólíkt fólk í kringum sig til þess að ná betri mynd og niðurstöðu.

Að lokum er það Henry Rawett, samstarfsmaður minn í Svíþjóð og meðeigandi FranklinCovey Nordic. Hann er einstaklega laginn í að hlusta og skilja og beitir ótrúlegri færni í samningum. Hann er alltaf óhræddur við að sjá aðrar leiðir og les og virðir ólíka menningarheima og fjölbreytileika fólks.“