Reynir á límið í ríkisstjórninni

Fréttir

Reynir á límið í ríkisstjórninni

Dr. Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við HÍ og fastur pistlahöfundur í Frjálsri verslun um árabil, metur framhald ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að hveitibrauðsdagarnir séu að baki. Ríkisstjórnin tók við völdum 11. janúar og hefur því setið sína fyrstu 100 daga og mánuði betur. Stefanía segir í pistlinum að erfitt sé að segja fyrir um framhald ríkisstjórnarinnar og nefnir nokkur mál sem getur steytt á.

Hér kemur pistillinn:

„Með eins manns meirihluta standa líkur til þess að ríkisstjórnin muni gera heldur færra en fleira. Hver stjórnarþingmaður hefur í raun vald til að fella mál ríkisstjórnarinnar. Sú staða kallar á mjög mikið samráð við bæði stjórnarþingmenn og hagsmunaaðila.

Ríkisstjórnin hefur þó þegar stigið eitt mikilvægt skref, sem er afnám gjaldeyrishafta.

Fróðlegt verður að sjá hvaða afgreiðslu fjármálaáætlunin til næstu fimm ára fær. Samkvæmt henni verður ónógu fjármagni varið til reksturs háskóla, framhaldsskóla og Landspítalans, m.a. vegna metnaðarfulls markmiðs um að greiða hratt niður skuldir ríkisins. Að óbreyttu þarf því að skera niður á þessum sviðum, sem mun verða afar sársaukafullt og kalla á átök og auk þess dýrt til framtíðar. Viðbúið er að það muni því reyna á límið í stjórnarliðinu.

Einnig má nefna ágreining um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, ólíka afstöðu til hugmynda um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, jafnlaunavottorð og framtíð krónunnar.

Ljóst er að sjálfstæðismönnum líkar illa tal viðreisnarmanna um tengingu krónunnar við evru og draum þeirra um aukið samstarf við ESB. Sæki Viðreisn of hart fram í þeim efnum aukast líkur á stjórnarslitum.

Ófyrirséðir atburðir, s.s. óvænt efnahagsleg áföll eða staðfestur trúnaðarbrestur á milli ráðherra og kjósenda, reyna líka ætíð á stjórnarsamstarf. Þó er ekki við því að búast að þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, flokka sem hafa haft lítið fylgi frá því að ríkisstjórnin tók við, séu spenntir fyrir nýjum kosningum né að söðla um og leita samstarfs til vinstri.“