Vaknaðu, maður!

Fréttir

Vaknaðu, maður!

Thomas Möller, framkvæmdastjóri Rýmis og fastur álitsgjafi í Frjálsri verslun, fjallar stuttlega um bókina Wake up! eftir Chris Baréz-Brown í nýjasta tölublaðinu. Höfundurinn fullyrðir að um 80% þess tíma, sem fólk er vakandi, sé varið á „sjálfstýringunni“ og það berist áfram fast í viðjum vanans hálfmeðvitundarlaust.

Thomas segir að öflugasta birtingarmynd „sjálfstýringarinnar“ sé þegar fólk leggst í sófann með fjarstýringu í hendi og horfir á sjónvarp.

Hér kemur pistill Thomasar:

Vaknaðu, maður!

Í bókinni „Wake up!“ eftir Chris Baréz-Brown fullyrðir höfundurinn að um 80% þess tíma sem við erum vakandi sé varið á sjálfstýringu eða „autopilot“. „Hann segir meðal annars frá þeirri tilfinningu sem við fáum flest eftir langan akstur að við munum eiginlega ekkert eftir ferðinni, hvorki fjöllunum né húsunum sem við fórum framhjá á leiðinni. Sama gerist oft í lok vinnudags; við munum varla hverju við komum í verk þann daginn.“

Thomas Möller segir að ekki sé bara um að ræða sjálfstýringu í akstri og vinnu. „Þetta gerist hjá okkur öllum, í leik og starfi, heima og að heiman … sem sagt á meðan við lifum lífinu.

En viljum við þetta; eigum við að sætta okkur við að lifa lífinu meðvitundarlaus, undir stjórn undirmeðvitundarinnar … á sjálfstýringu?

Chris segir í ofangreindri bók frá mörgum skemmtilegum æfingum sem hafa það að markmiði að taka meiri stjórn á lífi okkar og tíma og upplifa fleiri stundir með aukinni meðvitund. Með þessum daglegu æfingum eða venjum getum við lifað lífinu betur í núinu, notið hverrar stundar betur og látið hvern dag skipta meira máli. Sem dæmi nefnir hann öndunaræfingu þar sem við teljum upp að sex við djúpa innöndun, teljum upp að sjö um leið og við grípum andann á lofti … og síðan upp að átta með rólegri fráöndun. Þannig náum við djúpri öndun, sem eykur núvitund okkar.“

Thomas segir að öflugasta birtingarmynd sjálfstýringar sé þegar fólk leggst í sófann með fjarstýringu í hendi og horfir á sjónvarp. „Fólk er hálfmeðvitundarlaust í um fjóra tíma á dag eins og Íslendingar að meðaltali. Chris hvetur okkur til að hafa fréttalausa daga og sjónvarpslausar vikur og nýta tímann sem losnar í eitthvað sem gagnast okkur betur.

Hann hvetur okkur einnig til þess að rifja upp að loknum hverjum degi hvaða þrjú atriði við megum þakka fyrir þann daginn og að morgni hvaða þremur atriðum eða verkefnum við erum spenntust fyrir þann daginn. Hver dagur í lífi okkar er einstakur. Gerum hvern dag eftirminnilegan, segir Chris. Meðalævi okkar Íslendinga er um 30 þúsund dagar: Njótum hvers dags.“