leita

ELDRI PISTLAR

Ekki er öll vitleysan eins. Það nýjasta er að stjórnir nýju bankanna, sem kosnar voru til bráðabirgða, tóku sjálfar ákvörðun um að kaupa öll skuldabréf í peningamarkaðsssjóðum bankanna þriggja sem fóru á höfuðið og borguðu um 200 milljarða króna fyrir bréfin til að rétta sjóðina að mestu við. Stjórnvöld

Gaman að sjá hve sterk viðbrögð Tekjublað Frjálsrar verslunar vekur. Hinn virti fræðimaður Stefán Ólafsson hefur í tveimur bloggpistlum lýst þeirri skoðun sinni að ekki séu nægilega miklar upplýsingar um tekjur í blaðinu. Hin ágæta vefsíða andriki.is hefur auglýst blaðið í fjölmiðlum, en hún telur hins vegar að í blaðinu

20. september | Allt og sumt? (JGH)
Jón Gnarr borgarstjóri tók í dag við rúmlega 69 þúsund undirskriftum þar sem því er mótmælt að Reykjavíkur- flugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýri. Rúmlega 20 þúsund Reykvíkingar skrifuðu undir áskorunina og var sagt frá því í fréttum að borgarstjóri hefði búist við fleiri undirskriftum gegn því mikla áhugamáli sínu


PISTLAR

31/10/2011 | 00:00

Þungar áhyggjur (BJ)
benedikt101Mér finnst ég standa framarlega á ýmsum sviðum þessa dagana. Nú eru heimsbúar að verða sjö milljarðar, Íslendingar eru næstfeitasta þjóð í heimi og það eru þrjú og hálft ár í að ég fá elliafslátt.
 
Hvað varðar mig um það hve margir jarðarbúar eru? Sjö milljarðar er vissulega há tala, en hver skilur hana? - 7.000.000.000 - ?
 
Ef við legðum allt þetta fólk í röð þannig að hvirfill eins næmi við iljar annars þá myndi runan ná 262,5 sinnum umhverfis hnöttinn (ég miða við að hver maður sé 150 sm á hæð, sem ekki hátt, en Japanir, dvergar og börn eru í lægri kantinum). Ef við byrjum á pólnum og leggjum fólkið niður eins og lengdarbauga væru 75 kílómetrar milli manna á miðbaug, þannig að þetta er ekkert svo þétt, þannig lagað. Að vísu væri svolítið kalt og þröngt á pólunum og það væri líka óþægilegt að liggja í vatninu, en samt sem áður gefur þetta til kynna að enn er hægt að bæta við fólki.
 
Það var semsé ekki þetta sem truflar mig. Mitt vandamál er: Á einhverri vefsíðu komst ég að því að jarðarbúar voru 2,7 milljarðar þegar ég fæddist. Mér finnst líklegt að helmingur þeirra sem þá var á lífi sé dáinn (líklega fleiri, en ég er varfærinn í útreikningum). Þá eru 1.350.000.000 eldri en ég í heiminum og einmitt þessa dagana 5.649.999.999 yngri. Rúmlega áttatíu prósent heimsbúa eru yngri en ég!
 
Á Íslandi er hlutfallið heldur lægra eða 78% Íslendinga sem hafa lifað skemur en ég. Mér datt það í hug að ef við skiptum þjóðinni í þrennt sjáum við að yngsti þriðjungurinn, æskufólkið, er fólk 22 og hálfs árs og yngra. Þar með eru öll mín börn miðaldra, sem er næsti þriðjungur sem lýkur við 46,3 ár. Þá tekur ellin við. Ég veit ekki hvort þetta er besti mælikvarði á aldur, en tölfræðilega gengur hann vel upp.
 
Tökum dæmi: Menn sögðu það að á sínum tíma hefði Ellert Schram farið nánast beint úr því að vera formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna í að verða formaður Aldraðra Samfylkingarmanna. Svo tölfræðin er ekki svo vitlaus.
 
Þess vegna hefði mér ekki átt að bregða þegar frændi minn sem var nokkrum árum á undan mér í skóla fór að hreykja sér af því að nú væri hann orðinn gamalmenni. Því til sönnunar veifaði hann passa frá Félagi eldri borgara. Út á þetta fær hann, rétt orðinn sextugur, afslátt af bakkelsi í Mosfellsbakaríi, af göngugrindum og öðrum lífsnauðsynjum. Ég á ekki nema þrjú og hálft ár eftir í að ná þessum merka áfanga. Vigdís verður á undan mér í sæluna.
 
En þó að ég sé yngstur á heimilinu er ég líka þyngstur og legg þar með mín lóð á vogarskálar næstfeitustu þjóðar í heimi. Þetta er auðvitað miklu skemmtilegra að keppa um þungavigtartitilinn en eitthvað væmið eins og hamingjusemi. Sem betur fer erum við fjarri toppnum þar núna.
 
Sjálfur fylli ég flokkinn of þungur skv. staðli Landlæknis og má léttast um þrjú kíló og slyppi þó í þann flokk. Hins vegar þarf ég að taka mig á því að mig vantar fjórtán kíló í að verða of feitur samkvæmt sama kvarða. Fólk hefur einmitt haft orð á því að ég sé mátulega feitur, en það var áður en við eygðum heimsmeistaratignina. Slagorðið er: Mátulegt er léttvægt!
 
Nú eru bara rjómapönnukökur fyrir mig fram að áramótum. Það er hinn sanni íslenski kúr. Vigdís kemst ekki einu sinni á blað í þessari keppni og sýnir ekki mikinn keppnisanda. Okkar helsta von er að hún flytji lögheimili sitt til útlanda og teljist ekki lengur með í meðaltali Íslands. Hún gæti alveg búið hér áfram og horfið bakvið sönnu Íslendingana.
 
 
Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is