leita

ELDRI PISTLAR

12. september | Bale borgar sig (JGH)
Ekki veit ég hversu margar fréttir voru sagðar í sumar af sölu Gareth Bale frá Tottenham til Real Madrid fyrir metfé. Eftir mikið þref gengu kaup Madridar loksins upp á síðustu metrunum og þurfti félagið að borga fyrir hann 16 milljarða króna og greiða honum 1,6 milljarða í árslaun,

11. febrúar | Óregla og óreiða (BJ)
Ég hef ekki lesið bókina sem fékk bókmenntaverðlaunin. Á ekki von á að lesa hana því að ég á erfitt með að fá mig til að lesa bók sem heitir Illska . Reyndar las ég hina bókina um Nonna eins og ég hef vikið að áður. Í þetta sinn

Viðar Guðjohnsen var svo vinsamlegur að bjóða mér að gera síðu sem hann hefur sett upp að ánægjuefni. Á síðunni er eftirfarandi kynning á Viðari: Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður, skrifar um heilbrigðismál og önnur þjóðmál. Æviágrip: Stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund 2004. BS-próf í lyfjafræði frá Háskóla Íslands 2008.


PISTLAR

13/11/2009 | 17:32

Byssurnar snúa öfugt (JGH)

Þess var minnst í vikunni að tuttugu ár væru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Þegar múrinn var reistur í ágúst 1961 varð Austur-Þjóðverjum fljótt ljóst að byssurnar sneru öfugt; þeim var beint í öfuga átt; ekki að „andstæðingnum“ í Vestur Berlín heldur að þeim sjálfum, svo þeir gætu ekki flúið yfir til vesturhlutans. Ég hef það á tilfinningunni að byssurnar snúi orðið öfugt innan Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er búið að reisa múr utan um þetta stjórnarsamstarf og þeir sem hafa efasemdir í trúnni og vilja flýja yfir múrinn eru teknir á beinið.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í sjónvarpsviðtali nýlega eftir að hún gaf það út að hún styddi ekki Icesave: „Nú verð ég tekin af lífi.“ Og hún var ekki að ræða um andstæðinga sína, nei, samherja og vini innan flokksins. Byssurnar snúa öfugt. Hún vissi hvað hún söng því hún segir í viðtali að sterkur hópur fólks í grasrót Vinstri grænna hafi í kjölfar yfirlýsingar sinnar óskað eftir því að hún segði af sér þingmennsku. Lilja hefur ekki gefið upp hvort hún ætli að greiða atkvæði gegn Icesave þótt hún styðji ekki þetta heilaga mál stjórnarinnar.

Ögmundur Jónasson sagði af sér sem ráðherra í ríkisstjórninni vegna Icesave og var þegar settur á bekk með líklegum flóttamönnum innan Vinstri grænna. Þar sat hann ásamt Liljunum tveimur, Mósesdóttur og Guðfríði Lilju, Atla Gíslasyni og Jóni Bjarnasyni. Núna ætlar Ögmundur að styðja Icesave og Guðfríður Lilja er komin í barneignafrí og það vill svo vel til að varamaðurinn, Ólafur Gunnarsson, öldrunarlæknir í Kópavogi, er mikill fylgismaður Icesave. Jón Bjarnason situr sem fastast í stjórninni og það virðist búið að snúa upp á hann eins og Ögmund. Þeir segja fátt.

Þegar byssunum er snúið öfugt þá er óvinurinn ekki stjórnarandstaðan heldur samflokksmenn; þ.e. þeir sem eru líklegir til að flýja. Það þarf að ógna þeim einhvern veginn og hlera hvað þeir segja. Líf annarra. Vinirnir í pólitíkinni hlusta vel í samtölum og hringja í foringjann og flokksmaskínuna ef grunur leikur á efasemdum og líklegum flótta yfir múr stjórnarinnar þótt Vinstri grænir séu búnir að svíkja eigin flokksmenn varðandi Icesave og inngöngu í Evrópusambandið. Foringinn sér til þess að varamenn standi tilbúnir á hliðarlínunni. Þeir eru rétttrúaðir.

Stjórnarflokkarnir reisa ekki aðeins múra utan um sjálfa sig heldur þjóðina líka. Í Icesave er óvinurinn ekki Bretar og Hollendingar; þangað er byssunum ekki beint. Þjóðin skal borga Icesave og taka á sig 40 milljarða vaxtabyrði næstu árin að óþörfu. Mér finnst það gott sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir í samtali við Sölva á Skjá einum að henni finnist sem við Íslendingar höfum gengið til samninga eins og sakamaður.

Ríkisstjórnin boðar stórfelldar skattahækkanir á launamenn og nefnir það framsækið skattkerfi sem eigi að bæta fyrir skemmdarverk „nýfrjálshyggjunnar“. Þar snúa byssurnar líka öfugt; að einstaklingum og atvinnulífinu sem eru uppspretta hagvaxtar. Eða eins og Steingrímur orðar það svo hreinskilnislega: „Það stendur ekki til að toppa Svíþjóð eða Danmörku. En við ætlum að fara í framsækið skattkerfi, það er alveg á hreinu. Við ætlum að gera hvað við getum til að bæta fyrir skemmdarverk nýfrjálshyggjunnar í skattamálum.“

Stjórnin verður að finna aðrar leiðir til að stoppa upp í fjárlagagatið en að dengja sköttum á fólk og fyrirtæki þannig að þau liggi eftir í valnum; máttvana og viljalaus. Hún verður að byrja á því að taka til heima hjá sér. Hún verður að lækka útgjöld með því að lækka laun opinberra starfsmanna svo ekki þurfi að koma til hópuppsagna þeirra. Draga þar með úr eftirlaunum og lífeyrisgreiðslum. Hækka persónuafslátt um nokkur prósent. Draga úr bótum til almannatrygginga. Þrýsta niður raunvöxtum en ríkið er stærsti skuldari landsins. Frysta vísitöluna og kippa verðtryggingunni úr sambandi svo verðtryggðar skuldir haldi ekki áfram að hækka út af skattahækkunum. Stjórnin er að drepa niður allt frumkvæði hjá fólki og fyrirtækjum og lengja kreppuna um mörg ár.

Gamli góði Íslendingurinn mun í kreppunni finna nýjar leiðir til að greiða ekki þá skatta sem eru boðaðir. Svört vinna mun aukast og í þeim efnum munu launþegar ekki hika við að flýja yfir múrinn. Við munum sjá alls kyns skiptivinnu og vöruskipti því bæði launþegar og fyrirtæki hafa hag af því að laga sig að nýjum skattþrepum og draga úr tryggingagjaldi og launatengdum gjöldum.

Ég sá á netinu að maður að nafni Jón Ottesen segir að Nýja Ísland líti svona út:
1. Norrænir kommaskattar.
2. Verðtrygging.
3. Hæstu vextir í heimi.
4. Verðbólga yfir 10%.
5. Verðlaus gjaldmiðill.
6. Gjaldeyrishöft.
7. Fyrirtæki á hausnum.
8. Mikið atvinnuleysi.
9. Engin leiðrétting á lánum almennings.
10. Stórglæpamenn ganga lausir.
11. Spilltir og vanhæfir stjórnmálamenn.

Ég hef engu við þetta að bæta. Byssunum er beint í öfuga átt. Það er byrjað að hlaða múrinn utan um þetta Nýja Ísland þótt það sé eyríki. Og sannið þið til að Steingrímur og Indriði koma með meðul sem gera fólki erfiðara fyrir að flytjast til útlanda. Stjórnin vill hafa Íslendinga innan múrsins, hún þarf á þeim að halda til að greiða skatta.

Múrinn utan um stjórnarsamstarfið er ekki 50 km langur úr steinsteypu og gaddavír. Múr engu að síður og það hár. Það sér vart til sólar lengur. Lilja Mósesdóttir hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði: „Nú verð ég tekin af lífi.“ Byssurnar snúa öfugt.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is