leita

ELDRI PISTLAR

Í síðastliðinni viku varð ég fyrir eftirminnilegri lífsreynslu. Á ferðalagi í Vilníusi í Litháen fór ég í gamalt fangelsi KGB sem breytt hefur verið í safn til þess að minnast voðaverka þeirra sem þar voru unnin. Í kjallara á gömlu húsi skammt frá þinghúsinu eru einangrunarklefar, hópklefar, pyntingarklefar, spennitreyja og

Það væru mikil mistök að hætta við að setja Icesave í þjóðaratkvæði, eins og mér sýnist stjórn og stjórnar- andstaða vera að ræða um. Það er sterkt vopn í baráttunni að fá afgerandi NEI frá þjóðinni. Þjóðin þarf á samhljómi að halda eftir allt sem á undan er gengið.

Ekki hafa foringjarnir ástæðu til að stökkva hæð sína í fullum herklæðum yfir nýrri könnum um traust til forystufólks í stjórnmálum. Traust almennings á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hrinur. Steingrímur J. Sigfússon nýtur mesta trausts. Þó getur það varla talist mikið, rétt rúmur þriðjungur, 38%, segist bera mikið traust til


PISTLAR

31/03/2003 | 00:00

Regla eða ringlureið (BJ)

Undanfarna viku hefur pistlahöfundur eytt meiri tíma í að hlusta en flestar aðrar vikur ársins. Og það er að mörgu leyti ágæt tilbreyting. Þriðjudag og miðvikudag hélt Moshe Rubinstein námskeið um það hvernig menn reyna að sjá framtíðina fyrir. Og frá fimmtudegi til sunnudags voru Sjálfstæðismenn að marka sér framtíðarstefnu.

Það er merkilegt hve margir góðir fyrirlesarar koma frá Ameríku. Rubinstein er að vísu upprunninn í Ísrael, en hann er engu að síður í hópi margra stórskemmtilegra fyrirlesara frá Bandaríkjunum. Það er yfirleitt eftir því tekið hve létt Bandaríkjamönnum er að flytja mál sitt skörulega og skýrt og er enginn vafi á því að þar á markviss þjálfun í skólum stærstan þátt. Hér á landi hefur minna farið fyrir slíkri þjálfun en skyldi og sá þess mjög stað í ræðuhöldum á Landsfundi Sjálfsstæðismanna. Að vísu stóðu samtökin Junior Chamber fyrir ræðukeppni hér á landi um árabil og gera kannski enn, en í þeirra keppni var mest lagt upp úr skrípalátum af ýmsu tagi, handaútböðunum og öðrum hundakúnstum sem Íslendingum eru lítt tamar. Rökfimi og fagurt mál voru sett skör neðar. Enn má sjá nokkrar stjórnmálamenn sem aldir eru upp í þessum ræðumennskuskóla, einkum í Samfylkingunni.

Rubinstein er fyrrum prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um lausn vandamála (e:Problem Solving). Nú hefur hann hins vegar söðlað um og einbeitir sér að fyrirbyggjandi aðgerðum, menn reyni að sjá framtíðina fyrir og komast þannig hjá vandanum. Hann nefndi mörg dæmi um ágæti slíkrar skipulagningar. Meðal annars lyfjafyrirtæki sem stytti mjög ferilinn frá fyrstu lyfjarannsóknum að nothæfu lyfi. Þeir fengu ekki bara líf- og lyfjafræðinga og aðra vísindamenn til þess að fylgja ferlinum frá upphafi heldur líka lögfræðinga sem hugsuðu fyrir einkaleyfum og öðrum lögfræðilegum efnum og eftirlitsstofnanir, sem voru ráðgefandi frá fyrsta degi. Þannig tókst þeim að stytta þróunarferilinn um 2 til 3 ár, úr 14 árum í 11.

Úrvals fyrirlesarar hafa þau áhrif að menn byrja að hugsa með sér: Hvernig get ég notað þennan fróðleik í því sem ég er að gera frá degi til dags? Sumt af því sem Rubinstein sagði virkar þvert á það sem manni finnst rökrétt. Hann sýndi fram á hve miklu betra getur verið að hafa ringulreið en reglu. En allt hefur þó sinn stað um tíma. Ringulreið fyrst, regla í lokin. Ástæðan er sú að eftir því sem menn leyfa meiri óreiðu, þeim mun líklegra er að menn fari upp úr hjólförunum og leyfi sér frjórri hugsun en ella. En í lokin leiðast menn inn að bestu lausn.

Annað áhersluatriði Rubinsteins er sambönd. Þeim mun betur sem menn eru tengdir, því betra. Hér á hann ekki við gamaldags tengingar til þess að fá lán eða starfsframa. Heldur að menn geti leitað til margra ólíkra aðila til þess að fá ráð þegar þeir eru í vanda. Þeir, sem koma utan að, hafa oft ferska sýn á vandamálið og getur dottið eitthvað svo „vitlaust“ í hug sem þeir sem fást við hlutina frá degi til dags láta sér aldrei koma til hugar. Hann nefndi mörg dæmi um það að misskilningur hefði leyst vandamál. Hugmynd Rubinsteins er að sérhvert fyrirtæki komi sér upp hópi utanaðkomandi ráðgjafa sem vita sem minnst um reksturinn og leggi fyrir þá vandamálin sem upp koma í rekstri. Þannig fái menn ferska sýn.

Ekki var margt líkt með Rubinstein og Landsfundi Sjálfstæðisflokksins nema öðru hvoru fannst manni óreiðan hið ríkjandi form á umræðum. En á endanum komust menn að niðurstöðu, sem oftast jaðraði við að vera vitræn. Mér finnst eins og færri fulltrúar hafi verið á þessum Landsfundi en oft áður og líklegast hefur mest verið fækkað um Framsóknarmenn. Á laugardaginn varð ég að fara heim lasinn, en þá var samþykkt ályktun um sjávarútvegsmál sem enginn var ánægður með, skilst mér.

Á sunnudag var hins vegar mestum tíma eytt í tvær tillögur. Önnur fjallaði um það að ÁTVR yrði lögð niður, en nokkrir einstaklingar töldu að við það ykist drykkjuskapur til muna. Eftir eins og hálfs tíma umræðu kom í ljós að þetta töldu engir nema þessir örfáu aðilar sem allir virtust hafa tekið til máls.

Hin tillagan var um að landbúnaðarskólar skyldu heyra undir menntamálaráðuneytið en ekki ráðuneyti landbúnaðar eins og nú er. Egill Jónsson frá Seljavöllum sagði okkur frá því af hverju þetta væri hættulegt, en ekki man ég hvers vegna það var. Alltaf öðru hvoru, milli þess sem Egill talaði, kom upp kona sem sagði okkur hve merkileg menntun og starf leikskólakennara væru, en ekki veit ég af hverju. Á endanum var tillaga Egils um frávísun borin undir atkvæði. Eftir handauppréttingu þar sem mun fleiri virtust á móti en með úrskurðaði fundarstjóri að tillagan væri samþykkt. Þegar kurr fór um salinn, sagði hann: „Tillagan er felld, það er að segja samþykkt að fella hana.“ Þessu var hið besta tekið.

 Sumir kynnu að spyrja hvort svona fundir skiptu einhverju máli. Ekki skyldi neinn vanmeta þann styrk sem felst í því að rúmlega þúsund manns komi saman, hvort sem það er til þess að móta stefnuna, hlýða á félagana eða efla tengslin við vini og kunningja. Davíð kom sterkur út úr fundinum og ef hann heldur sínu striki sem ábyrgur forsætisráðherra með tólf ára farsælan feril eru mestar líkur á því að Sjálfstæðismenn fái 38-40% atkvæða í vor eins og í fyrri kosningum undir hans forystu. Enda annað óhugsandi ef landsmenn beita aðferð Rubinsteins við að sjá hvað vandamál við eigum ella við í framtíðinni.

Benedikt Jóhannesson


 

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is