leita

ELDRI PISTLAR

Það er alþekkt að vinátta manna stoppar ekki við flokkslínur. Þekktir menn í stjórnmálum eru þar engin undantekning. Lengi hefur verið talað um að Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson væru svo nánir að tala mætti um Vilfreð. Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í R-listanum sögðu oft þegar þeim var borið á

24. ágúst | Nagli Þráins (JGH)
Samfylking og Vinstri grænir ætla að funda um helgina, þó í sitt hvoru lagi. Jóhanna Sigurðardóttir stígur í pontu á fundi flokksstjórnar Samfylkingar á Hótel Natura (gamla Loftleiðahótelinu) og tilkynnir um breytta ríkisstjórn, þ.e. breytingar á ráðherraliði síns eigins flokks. Margir spyrja sig að því hvort Jóhanna

18. júlí | Ber vel í veiði (BJ)
Það er erfitt að skýra það fyrir þeim sem ekki veiðir hvað er gaman að standa tímunum saman úti í á, kaldur og hrakinn, án nokkurrar sýnilegrar umbunar. Þá sjaldan einhver hreyfing finnst er eins víst að flugan sé föst í botni eða hafi krækst í fljótandi slý. Fiskarnir


PISTLAR

01/12/2006 | 16:49

RÚV af markaði auglýsinga? (JGH)

Hún er fjörleg umræðan um það hvort taka eigi RÚV út af markaði auglýsinga og koma þannig í veg fyrir að auglýsendur geti auglýst þar. Keppinautar RÚV, þ.e. Stöð 2 og SkjárEinn, vilja eðlilega að engar auglýsingar verði hjá RÚV. Þar með sætu þeir einir að auglýsingum í sjónvarpi. Auglýsendur og auglýsingastofur segja hins vegar að það „sé alveg kelfileg hugmynd“ að takmarka þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði; verðið á birtingu sjónvarpsauglýsinga myndi hækka og það væri óviðunandi að auglýsendur fengju ekki að auglýsa þar sem þeir vildu og teldu hag sínum best borgið. Þetta er ekki auðvelt mál. Það eru gild rök með og á móti.

Mér þykir, eins og langflestum landsmönnum, mjög vænt um Ríkisútvarpið. En ég hef nokkuð lengi talið besta kostinn að selja það á þeim forsendum að ríkið eigi ekki að vera í atvinnurekstri og keppa við einkafyrirtæki. Þessi skoðun nýtur hins vegar ekki mikils fylgis. RÚV er í hugum fólks hvorki stofnun, fyrirtæki né fjölmiðill – heldur orkulind menningar sem ber að varðveita líkt og náttúruna.

Þess vegna vill langstærsti hluti þjóðarinnar hafa RÚV áfram, samkvæmt könnunum. Það er ekki bara þjóðin sem sameinast um RÚV heldur sameinast nánast allir þingmenn um fyrirtækið. Þegar kemur að RÚV er enginn munur á Geir Haarde, Össuri Skarphéðinssyni, Merði Árnasyni, Ögmundi Jónassyni, Valgerði Sverrisdóttur og Guðjóni A. Kristjánssyni. Þá kemst hnífurinn ekki á milli þeirra. Þetta fólk greinir hins vegar á hvort gera eigi RÚV að hlutafélagi eða ekki.

Alþingi stefnir að því að afgreiða frumvarpið um RÚV háeff fyrir jól og hefur meirihluti menntamálanefndar Alþingis samþykkt að leggja til þá breytingu á framvarpinu að óheimilt sé að selja auglýsingar til birtingar á Netinu og að kostun sem hlutfall af kostunar- og auglýsingatekjum verði ekki hærra en 10% eins og það er núna. Formaður nefndarinnar, Sigurður Kári Kristjánsson, vildi ganga lengra í takmörkun auglýsinga í RÚV.

Það blasir auðvitað við að það yrði mikil skemmdarstarfsemi á RÚV hf. (ohf.) ef auglýsingar yrðu bannaðar hjá fyrirtækinu. Og þar með yrði nánast útilokað að selja það – fengi þjóðin einhvern tíma áhuga á því. Í ljósi þess er fáránlegt að taka RÚV út af auglýsingamarkaði. En ég skil líka vel svekkelsið í Ara Edwald, forstjóra 365, og Magnúsi Ragnarssyni, sjónvarpsstjóra SkjásEins, yfir að verða ekki að þeirri ósk sinni að RÚV hverfi af auglýsingamarkaðnum þannig að þeir fái meira í kassann. Það er auðvitað mjög lýjandi fyrir einkafyrirtæki að keppa við ríkisfyrirtæki - sem sækir fé m.a. beint til skattborgara og er í þokkabót svo vinsælt að þjóðin tekur andköf ef minnst er á að draga úr umsvifum þess.

Samstaðan um RÚV er svo einhuga á meðal þjóðarinnar að fólk lætur það sem vind um eyru þjóta þótt Ari Edwald ræði um stórfelldan niðurskurð hjá Stöð 2 verði frumvarpið um RÚV samþykkt. Hann hefur að vísu áður sagt að hann fagni því að frumvarpið sé fram komið, því þá verði auðveldara fyrir dómstóla og samkeppnisyfirvöld að dæma RÚV út af auglýsingamarkaðnum í réttarsölum. Það færi þó aldrei svo að það yrði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sem hefði síðasta orðið, en ekki þingheimur. Varla kemur það til þar sem Páll Gunnar hefur sagt að frumvarpið um RÚV háeff gangi vissulega gegn markmiðum samkeppnislaga, en að sérlög Alþingis um RÚV taki samkeppnislögum fram.

Það þarf í sjálfu sér ekki mörg orð um þetta; RÚV hefur aldrei verið með meira lífsmarki. Annað verður ekki lesið út úr viðbrögðum keppinautanna.

Jón G. Hauksson


jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is