leita

ELDRI PISTLAR

Fátt gefur sögum meira gildi en snjöll mannlýsing. Í Íslendingasögum eru mörg dæmi um slíkar lýsingar, svo snjallar að söguhetjurnar eru enn í dag ljóslifandi í hugskoti fólks. Egill Skallagrímsson með sínar illilegu augabrúnir og Gunnar á Hlíðarenda sem stökk hæð sína í öllum herklæðum birtast okkur fyrir hugskotssjónum

27. nóvember | Magnús í Eyjum (JGH)
Magnús Kristinsson , útgerðarmaður í Eyjum, sendir frá sér tilkynningu vegna sölu á Toyota á Íslandi þar sem hann skýtur á Landsbankann. „Fyrir áeggjan stjórnenda Landsbankans tókst ég á hendur miklar skuldbindingar til að varna því að Gnúpur yrði gjaldþrota í lok árs 2007. Jafnframt dróst ég til að

Á fallegum degi velti ég stundum fyrir mér hvort fegurð umhverfisins sé tilviljun eða hvort guð gæti verið til. Um þetta geta menn deilt endalaust og kannski er guð hvers og eins bara hans hugmynd, til í eigin sjálfsvitund án þess að það verði frekar rökstutt. Margir hafa


PISTLAR

27/07/2008 | 23:50

Rambó í Kárahnjúkum (BJ)

Til þess að fá miða á Wagner-sýningu í Bayreuth í Þýskalandi þarf annaðhvort að bíða í tíu ár eða hafa sambönd í lagi. Ég fór á sýningu þar á dögunum og þurfti ekkert að bíða. Fékk satt að segja boðsmiða. Ég hef sambönd.

Flestir Íslendingar sem fara á sýningu í Bayreuth nýta sér klíku gegnum Wolfgang Wagner. Hann er Íslandsvinur. Ég þekki hann ekki neitt. Ég þekki hins vegar Einar Björnsson.

Einar er einn mesti aðdáandi Wagners á Íslandi og hefur verið frá blautu barnsbeini. Sérstaklega þriðja hluta Niflungahringsins, Sigurðar Fáfnisbana. Það varð til þess að þýskur vinur hans sendi honum miða á sýningu, reyndar generalprufu, en það er slegist um þá miða eins og aðra.

Þess vegna fannst okkur hjónum heldur betur hafa hlaupið á snærið hjá okkur þegar Einar bauð okkur að fara með sér á þessa eftirsóttu sýningu. Þetta átti sér ekki mjög langan aðdraganda en eftir stutta og snarpa lotu tókst okkur að setja saman þriggja manna hópferð frá Reykjavík til Bayreuth.

Ég er enginn Wagner sérfræðingur. Sumir sjá Niflungahringinn á hverju ári. Ég hef einsett mér að sjá hann allan á æfinni. Fyrir nokkru sá ég Valkyrjuna í Kaupmannahöfn. Svo ég er hálfnaður.

Ferðalagið var svolítið flókið. Við flugum á laugardegi til Frankfurt, ókum þaðan til Nürnberg og svo daginn eftir til Bayreuth þar sem við gistum tvær nætur.

Líklega er yfirleitt auðvelt að ferðast í Þýskalandi en í þetta sinn var þetta óvenjulétt. Ég fékk stöðugar leiðbeiningar frá tveimur konum. Annarri sem talaði ensku úr leiðbeiningatæki sem við leigðum frá bílaleigunni. Hún var tiltölulega þolinmóð þó að ég gerði ekki alveg eins og hún gerði. Hinni sem sat við hliðina á mér, talaði íslensku og tók því ekki vel ef ég lét ekki algerlega að stjórn. Þetta gekk allt vel.

Við stoppuðum aðeins í skemmtigarði í Nürnberg á leiðinni. Það var ágætt. Í Playmó-landi er boðið upp á ýmiss konar skemmtun. Við rerum, klifruðum og gengum eftir hengibrúm. Á einni mætti ég manni sem er um það bil 150 kíló. Hann sagði um leið og við mættumst. „Es is sehr eng,“ eða „þetta er mjög þröngt.“ Mér flaug í hug að hann lenti oft í aðstöðu þar sem „es ist sehr eng.“

Sýningin var á mánudegi. Við komum til Bayreuth á sunnudegi. Það var ekkert grín að hitta á Michael sem var með miðana okkar. Hann er sýningarstjóri á Sigurði Fáfnisbana. Við hringdum margoft í hann, sendum tölvupósta og sms. Það var svolítið langt að vera kominn alla leið og fá svo ekki miðana.

Á mánudeginum fórum við í skemmtiferð um borgina. Þar er ótrúlega margt að sjá miðað við að þetta er smábær í Þýskalandi.Við höfðum komið þangað áður, fyrir 27 árum tæpum. Þá komum við um miðjan vetur.Ég man eftir því að þegar við ókum þangað mættum við einhverjum Austur-Evrópu skrjóði með bilaðar þurkur. Hann var frá Póllandi. Það varð eftirminnilegt vegna þess að þessa nótt hafði herinn tekið völd í Póllandi. Það fréttum við eftirá.

Flest í Bayreuth tengist tónlist. Við sáum gamla óperuhúsið, Markgreifaóperuna. Það er stórkostlegt hús og ef lesendur einhverntíma flækjast á þessar slóðir er það vel þess virði að sjá.

Svo skoðuðum við hús Wagners. Það er svosem ekkert sérstakt. Stiginn upp á þriðju hæð er svo skakkur að mig svimaði þegar ég gekk upp hann. Þetta er tiltölulega nýtt ástand hjá mér, ég þoli ekki skökk gólf og stiga. Í Stykkishólmi er gamalt hús sem ég þoli ekki, í Prag er búð sem sama gildir um og svo er það húsið hans Wagners. Mér finnst þetta ekki góður eiginleiki. Ég get ekki ímyndað mér að neinn vilji nýta sér þetta til þess að vita hvort húsið hans er rétt byggt.

Í garðinum eru Wagner og Cosima kona hans grafin í ómerktri gröf. Ég elti yfirleitt ekki grafir en fann þessa án þess að vita af henni. Á steininum voru þrír blómvendir, einn visnaður.

Cosima var laundóttir Lists, tónskáldsins fræga. Ég hélt að þetta hefði allt verið mjög eðlilegt hjónaband þar sem Wagner hefði kynnst dótturinni hjá læriföður sínum og þau svo gifst. En svo var alls ekki. Cosima var gift þegar Wagner hóf samband við hana. Þau áttu orðið tvö ef ekki þrjú börn saman þegar fyrri maður hennar veitti henni skilnað. Þetta var helsta hneyksli í München á sínum tíma. Aldursmunur á þeim hjónum var 24 ár Wagner í vil (eða óhag).

Sýningin byrjaði klukkan fjögur um eftirmiðdaginn. Skömmu áður höfðum við heyrt frá Michael og áttum að hitta hann vinstra megin við húsið.

Hvernig ákveður maður vinstri og hægri á húsum? Ég færi mig heima hjá mér í austur og vestur, suður og norður. Sjónvarpið er í suðvesturhorni hússins. Það er ekki flókið. En hvort er það hægra eða vinstra megin í húsinu? Því gat ég varla svarað.

Líklegast fannst mér að maður ætti að standa framan við húsið og horfa á það. Þetta reyndist rétt (og samkvæmt því er sjónvarpið heima hægra megin).

Miðaafhendingin var flókin. Við þurftum að skrifa nafnið okkar á miðann og kvitta svo undir. Við dyrnar voru verðir sem báru miðana við vegabréf. Við sluppum við svo nána skoðun. Litum líklega heiðarlega út. Segir kannski ekki mikið þegar maður minnist þess að Þjóðverjar voru þjóðin sem treysti Adolf Hitler.

Vigdís og Einar fengu miða fyrir miðju, en ég var úti á enda. Skömmu áður en klukkan varð fjögur kom til mín kona sem spurði mig einhvers á þýsku. Eftir nokkurn tíma áttaði ég mig á því að hún vildi að ég sæti hjá manninum sínum í fyrsta þætti. Það var ágætt, því að þá færðist ég nær miðjunni.

Sýningin byrjaði í kennslustofu. Það er örugglega ekki hefðbundin uppfærsla. Sigurður, Mímir og Óðinn sungu allir lengi. Líklega er hlutverk Sigurðar það stærsta í óperusögunni. Eftir einn og hálfan tíma var hlé.

Hléin eru greinilega tekin alvarlega í Bayreuth. Þau eru klukkutími. Við fengum okkur bara vatnsglas og ís af því að við vissum ekki fyrirfram að við hefðum svona langan tíma. Þarna hittust örugglega fagmenn í Wagner en við amatörarnir horfðum á.

Í öðrum þætti sat ég aftur úti í horni. Það var vont því að mest aksjónin var í horninu sem ég sá ekki. Í þessum þætti drepur Sigurður Fáfni undir hálfkláraðri steyptri brú sem minnti á dreka. Aftur sungu allir mjög lengi.

Í næsta hléi vorum við hagvön og fengum okkur að borða. Enginn gat séð það á okkur þá að við værum á okkar fyrstu Bayreuth sýningu. Margir gáfu okkur auga, ekki síst Einari sem var í flottum jakkafötum.

Ég settist í mínu hornsæti en rétt áður en þriðji þáttur hófst heyrðist mér einhver kalla: Bensi. Ég leit við en þetta var þá konan með miðjusætið sem sagði: „Wenn sie (ekki Bensi) es wollen, getið þér fengið sætið aftur.“ Ég þakkaði henni mikið fyrir og færði mig aftur á minn stað. Í þessum þætti gerðist ekkert í horninu.

Í þessum þætti vekur Sigurður Brynhildi af fastasvefni. Sviðið er einhver fjallabyggð. Sigurður sem ég hélt alltaf að væri ungur og spengilegur er í raun vel þéttur, miðaldra maður. Mér fannst eins og þetta væri Rambó í Kárahnjúkum.

Brynhildur hélt ég líka að væri gullfalleg, ung stúlka, en það er misskilningur. Hún er í raun 120 kílóa boldangs  kerling. Ég hefði ekki vakið hana, en Sigurður var nokkuð ánægður með hana. Þau áttu að verða uppruni mannkynsins eftir Ragnarök. Þar sem Brynhildur var líka hálfsystir föður Sigurðar er ekki skrítið að mannkynið sé brenglað.

Þau sungu bæði afskaplega vel og ekkert að sjá á Sigurði að af honum væri dregið í lokin.

Á generalprufum er leikurum ekki fagnað en sumir klöppuðu stuttlega í lok sýningar.

Við höfðum ætlað að heilsa upp á leikstjórann en Einar var orðinn þreyttur enda nærri sex og hálfur tími frá því að sýningin hófst. Við drifum okkur því heim á hótel.

Ég var feginn að hvorugur okkar hafði sofnað. Hvorki ég á sextugsaldri né Einar sex ára.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is