leita

ELDRI PISTLAR

„Urðuð þið hundrað árum eldri meðan ég var í útlöndum,“ spyr sonurinn meðan við Vigdís rýnum í aðgöngumiðana og skimum um eftir gleraugum til þess að geta sagt til hvort við eigum að mæta klukkan hálfsjö eða hálfátta. Hann er nýkominn frá útlöndum með dagblað sem hefur sett Osama

04. ágúst | Sigur drullunnar (BJ)
Árið 1988 skrifaði Magnús Þórðarson ágætan pistil með ofangreindu heiti í Rabbi í Lesbók Morgunblaðsins þann 22. október. Hafi hann átt vel við þá er stríðinu nú loksins alveg lokið. Drullan hefur nú gereytt öllum öðrum orðum sömu merkingar. Sorglegt er að sjá nú Ísfirðinga, sem löngum hafa verið með

23. janúar | Stund sannleikans (BJ)
Enginn þurfti að horfa lengi á umræður um þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar til þess að átta sig á því að pólitík ræður afstöðu margra þingmanna sem vilja halda málaferlum gegn Geir H. Haarde áfram. Mjög margir þingmenn hafa lítið sett sig inn í þær reglur sem gilda um Landsdóm. Sannast sagna


PISTLAR

08/01/2010 | 13:03

Bretar byrjaðir að hlusta (JGH)

Ég er ánægður með að forseti Íslands hafi neitað að skrifa undir lögin um Icesave og vísað málinu í þjóðaratkvæði. Hann var sjálfum sér samkvæmur og stjórnarskráin gefur honum þennan rétt. Hvort sem hann á að nota hann eða ekki. Sjálfsagt er ég ekki alveg hlutlaus, ég hef í marga mánuði skrifað pistla á þessum vettvangi um að það finnist hvergi lagabókstafur fyrir því að almenningur á Íslandi eigi að gangast í ábyrgð fyrir einkabankann Landsbankann og taka á sig Icesave-gjaldþrotabagga til að greiða breskum og hollenskum fjármagnseigendum. Við höfum farið í einu og öllu eftir regluverki Evrópusambandsins um innstæðutryggingasjóðinn og aldrei verið gerð athugasemd við hann erlendis frá.

Ýmislegt bendir til að synjun forsetans á lögunum um Icesave hafi komið óvæntri hreyfingu á málið og aukið skilning erlendis á því að það þýði ekki lengur að kúga Íslendinga í þessu máli og það hafi lítinn tilgang að setja þá í skuldafangelsi og gera þá gjaldþrota ef ætlunin er að þeir rétti úr kútnum og standi við sitt. Ég held líka að synjun forsetans hafi hrært upp í íslenskum stjórnmálamönnum um að vinna öðru vísi og standa betur saman í þessu máli. Og allt í einu er Steingrímur á þönum í útlöndum og Gordon Brown búinn að hringja í Jóhönnu en hann hefur ekki virt hana viðlits í margra mánuði og lét ekki svo mikið sem að svara bréfi hennar sem frægt varð. Þá er Eva Joly sama sinnis og við hörðustu andstæðingar Icesave um að hvergi sé  lagabókstaf að finna fyrir ríkisábyrgð og lögin gildi ekki um kerfishrun. Þegar hún talar fara Samfylking og Vinstri grænir að hlusta – sem og Norðmenn sjálfir.

Kúgunarstefna Breta og Hollendinga er byrjuð að molna innan frá, eins og sjá má í leiðaraskrifum hollenskra og breskra blaða. Á næstu vikum mun AGS, Evrópusambandinu, Norðurlöndunum og erlendu bankakerfi byrja að skiljast að það hefur engan tilgang að setja íslenska þjóð á höfuðið með Icesave-skuldaböggum; eigi hún að ná sér á strik og standa við þau lán sem hún hefur þegar tekið á alþjóðavettvangi og ráða við uppbyggingu hérlendis; m.a. að takast á við nánast óviðráðanlegan fjárlagahalla. Það er langt síðan að AGS og erlend matsfyrirtæki mátu Ísland á bjargbrúninni og að Icesave gæti ýtt henni fram af. Það hefur hins vegar verið þjösnast á okkur með valdníðslu.

Kúgun Breta og Hollendinga og gegndarlaus hræðsluáróður um að alþjóðasamfélagið skrúfi fyrir Ísland, ef við samþykkjum ekki Icesave, hefur ráðið gjörðum meirihluta íslenskra stjórnmálamanna til þessa. Sem og hótunin um að aðild Íslands að ESB verði hafnað ef við skrifum ekki undir. Þess vegna gerði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hinn afleita samning við Breta og Hollendinga í byrjun júní síðastliðnum þar sem Svavar Gestsson var í hlutverkinu Ég nenni þessu ekki lengur. Það var mikil ESB spenna í júní vegna þess að Svívar voru að komast þar í forystu. 

Svavar gleymdi bara þessu: Það losar sig enginn við Icesave með því að samþykkja Icesave hvað sem það kostar – þá fyrst byrjar Icesave að tikka með ógnargreiðslum sem setja þjóðina á höfuðið. Yfir 40 milljarða króna í vaxtagreiðslur á ári í sjö ár, (aukinn fjárlagahalli), eða tæplega 300 milljarða króna á tímabilinu, og eftir það þarf að takast á við sjálfan höfuðstólinn. Þetta bætist við þann fjárlagahalla sem fyrir er og ríkisstjórnin stendur ráðþrota gegn og fær ekkert við ráðið.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram í febrúar. Sumir segja að fólk viti ekki um hvað sé verið að kjósa. Það kemur á óvart. Þetta er ekki flókið: Fólk er að samþykkja eða hafna lögum um Icesave sem Alþingi samþykkti miðvikudagskvöldið 30. desember. Ekkert annað. Hvað tekur þá við? Jú, gilandi lög um Icesave sem eru með sterka fyrirvara um gildistíma, greiðslugetu og að við getum kannað rétt okkar. Þetta eru lögin sem Alþingi samþykkti í byrjun september síðastliðnum og forsetinn samþykkti með sérstakri greinargerð þar sem hann sagði efnislega að hann samþykkti lögin aðeins vegna þeirra fyrirvara sem í þeim væru. Bretar og Hollendingar hlógu að þessum fyrirvörum. Til að þóknast Bretum byrjaði Alþingi upp á nýtt og henti helstu fyrirvörunum út.

Það hefur átt sér stað merkileg umræða síðustu daga eftir að forsetinn neitaði að staðfesta Icesave um að Íslendingar ætli að standa við „skuldbindingar sínar“. Hverjar eru þessar skuldbindingar samkvæmt lögum? Þær eru ekki til. Það finnst engin afdráttarlaus lagaheimild fyrir því að Icesavereikningar hafi verið á ábyrgð íslenska ríkisins. Þess vegna á ekki að gera grín að þeim sem segjast hafa skrifað undir Indefence áskorunina í ljósi þess að Íslendingar eigi ekki að greiða krónu. Þeir hafa rétt fyrir sér.

Þeir sem skrifuðu undir Indefence áskorunina til forsetans voru eingöngu að biðja hann um að neita að staðfesta lögin. Ekkert meira. Langflestir þeirra vilja ekki greiða krónu. Indefence hópurinn sjálfur hefur hins vegar sagt frá upphafi að úr því sem komið væri yrði að draga víglínuna við lögin sem Alþingi samþykkti í byrjun september eftir allt þjark sumarsins, þ.e. með fyrirvörunum, og allir flokkar stóðu að.

Ég undraðist það þegar Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi eftir synjun forsetans að nú vildu allt í einu allir borga og standa við „skuldbindingar okkar“. Þar gaf hann sér enn og aftur að við ættum að greiða hverja einustu Icesave krónu eða hvert pund öllu heldur. „Vill fólk núna borga 20 þúsund evru trygginguna?“ sagði Steingrímur og bætti við: „Þá er nú ekki mikið bil á milli okkar.“ Er nema von að maður spyrji: Okkar hverja?

Því hefur verið haldið fram að samninganefnd Íslands hafi lagt upp í viðræður um að við ætluðum að greiða allt, þ.e. 20 þúsund evru trygginguna. Það er furðulegt ef samninganefndin hefur haft þær forsendur í viðræðum við Breta og Hollendinga um að okkur bæri skylda til að greiða Icesave og „samningaviðræðurnar“ ættu eingöngu að ganga út á greiðslukjör; þ.e. vexti. Í þingsályktun Alþingis frá 5. desember 2008 segir aðeins að ríkisstjórninni verði falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld. Alþingi leit aldrei svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt.

Þeir sem vilja samþykkja Icesave eru í þeim vanda að geta ekki bent á neinar lagagreinar sem kveða á um að ríkið eigi að ábyrgjast innstæðureikninginn. Samt vilja þeir borga, fyrst og fremst af ótta um að skrúfað verði fyrir Ísland. Þeir benda á neyðarlögin og jafnræðissjónarmið á milli landa. Með neyðarlögunum var ákveðið að tryggja til fulls innstæður hér heima langt umfram það sem til var í innstæðutryggingasjóðnum. Það var gjöf íslensku þjóðarinnar til íslenskra sparifjáreigenda.

Innstæðutryggingasjóður er ekki á vegum ríkisins heldur bankanna sjálfra sem eiga og áttu að fjármagna hann. Neyðarlögin breyttu þar engu um. Í regluverkinu eru heldur ekki gert ráð fyrir kerfishruni. Margir vísa á margrædda tilskipun Evrópusambandsins um að tryggja hverjum innstæðueiganda 20.000 evrur að lágmarki, trygginguna sem Steingrímur minntist á í Kastljósi. Sú tilskipun á ekki við því samkvæmt henni bendir allt til að Evrópusambandið eigi sjálft að vera bótaskylt í þeim tilvikum sem innstæðutryggingasjóðir standa ekki undir áföllum – auk þess sem ESB og fjármálaeftirlit í öllum þessum löndum vita að kerfin standa ekki undir hruni margra banka; kerfishruni eins og á Íslandi.

Forsetinn var sjálfum sér samkvæmur þegar hann synjaði undirskrift og sendi málið til þjóðarinnar. Það kom hins vegar ríkisstjórninni mjög í opna skjöldu. Þar á bæ treystu menn því að þeir hefðu Ólafur Ragnar í vasanum og gætu ráðskast með hann sem gamlan vin. Þeir áttu að vita betur. Eflaust hefur núna runnið upp fyrir Alþingi að breyta þurfi stjórnarskránni um vald og eðli forsetaembættisins og setja verði reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur og hvernig sé hægt að boða til þeirra.

Forsetinn hefur vísað málinu til þjóðarinnar. Íslenskur almenningur, sem enga sök átti á hruni Landsbankans, átti ekki bankann, bar enga ábyrgð á honum, skrifaði ekki undir neina ábyrgð á honum, stendur núna í fæturna og segir við Breta og Hollendinga: Við eigum rétt samkvæmt stjórnarskrá Íslands, hvort sem ykkur líkar betur eða verr; þannig er lýðræðið á Íslandi. Þetta hefur komið Bretum á óvart.

Austvöllur logaði og Þjóðfundurinn blés í lúðra í nafni þess að fleiri mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi stjórn komst til valda undir þeim formerkjum. Samfylkingarfólk og Vinstri grænir verða hins vegar brjáluð þegar þetta stórmál fer til þjóðarinnar. En kannski er von; Bretar eru byrjaðir að hlusta      og eitthvað segir mér að þá byrji stjórnarráðið líka að hlusta.

Jón G. Hauksson
jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is