leita

ELDRI PISTLAR

11. febrúar | Óregla og óreiða (BJ)
Ég hef ekki lesið bókina sem fékk bókmenntaverðlaunin. Á ekki von á að lesa hana því að ég á erfitt með að fá mig til að lesa bók sem heitir Illska . Reyndar las ég hina bókina um Nonna eins og ég hef vikið að áður. Í þetta sinn

Ég var búinn að skrifa pistill. Eða næstum búinn að því. Svo ætlaði ég að lesa hann yfir en komst þá að því að hann var svo leiðinlegur að ég gat ekki einu sinni klárað að lesa hann sjálfur. Nú hugsa dyggir lesendur örugglega: Sá hefur verið leiðinlegur ef

21. september | Fyrirgefning syndanna (BJ)
Nú er komin út bók um Hafskipsmálið. Það er vel við hæfi að rifja þetta mál upp núna. Pistlahöfundur hefur ekki náð að lesa bókina en samkvæmt Morgunblaðinu segist höfundur ekki trúa á „hið margrómaða hlutleysi“ fræðimanna. „Ég hef ákveðnar skoðanir á viðfangsefni mínu sem mér finnst ekki að


PISTLAR

20/05/2012 | 16:19

Fölnaður blómi (BJ)

benedikt01„Geturðu slökkt á músikkinni?“ sagði Vigdís. Auðvitað gerði ég það eins og annað sem fyrir mig er lagt.

Fyrr um daginn hafði ég fengið tilboð frá miða punktur is um að nú væru miðar á Manfred Mann seldir vildarvinum eins og mér á þrjú þúsund kall. Ég mundi auðvitað eftir Manfred Mann úr Lögum unga fólksins í gamla daga. Vandinn var bara sá að ég mundi ekki eftir neinum lögum með honum (eða þeim, mig rámaði í að þetta væri hljómsveit). Best mundi ég No Milk Today, en þegar ég spurði Gúgúl, sem er minnugri en ég, kom í ljós að það lag var með Herman‘s Hermits. Manfred Mann var hins vegar með Dúadíddídíddí, sem er í sjálfu sér ágætt lag fyrir ellefu ára, en smekkurinn hjá mér hefur lítillega þróast síðan.

Þess vegna þreifaði ég eftir delít-takkanum, en ákvað svo að kíkja á jútúb, sem stundum sýnir nýleg myndbönd af gamlingjum. Ég datt í lukkupottinn. Þar var einmitt myndband frá 1986 af Manfreði þar sem hann spilaði Blinded by the lights, sem ég mundi eftir frá því að ég var í Bandaríkjunum. Það var ágætislag og hann spilaði og söng það nokkuð vel. Svo sá ég að hann hafði á sínum tíma spilað Mighty Quinn, sem var líka frá tímum Laga unga fólksins. Þetta gat ekki klikkað fyrir 2.990 krónur.

Um kvöldið bar ég upp erindið við Vigdísi. Hún mundi líka eftir Manfred Mann en ekki neinum lögum. Nú var ég fróðleiksbrunnur og gat sagt henni að í raun og veru væri þetta ekki Manfred Mann sem væri að spila. Sú hljómsveit hefði lagst af árið 1970. „Nú er Manfred ekki maður?“ spurði Vigdís, án þess að hafa ætlað sér að segja hinn augljósa brandara, heldur gat þetta verið hljómsveitarnafn eins og Jethro Tull eða Uriah Heep.

Ég flýtti mér að útskýra að eftir að Manfred Mann hefði lagt upp laupana hefði hann stofnað nýja hljómsveit sem hann kallaði líka Manfred Mann (það læðist að manni grunur um narsissma hljómsveitarstjórans) en svo var það ekki lengur nógu kúl, þannig að hann breytti nafninu í Manfred Mann‘s Earth Band. Það höfðaði vel til blómakynslóðarinnar.

Þegar Vigdís spurði hvaða lög þeir hefðu spilað gat ég að vísu ekki nefnt þau í fljótu bragði. En nú gafst tækifæri til þess að spjaldtölvuna mína sem ég sótti stoltur og stillti á jútúb. Fyrst spilaði ég Blinded by the lights, sjö mínútna snilld, næst Father of Day, níu mínútna meistaraverk, en tók þó eftir því að þegar leið á lagið hækkaði Vigdís í sjónvarpinu. Sem grand fínalale kveikti ég svo á Mighty Quinn, en ekki veit ég hvað það er langt því þegar hér var komið sögu var Vigdís farin að fitla við símann og sagði: „Geturðu slökkt á músikkinni? Ég er að velja nýjan hringitón fyrir símann.“

Yfirleitt er ég frekar lengi að fatta, en nú gat mér vart dulist að tónleikar hjá Manfred Mann voru ekki efst á óskalistanum hjá Vigdísi.

Ég laumaðist fram og hringdi í Smára vin minn og spurði hvort hann væri ekki til í að koma með mér. „Er Manfred Mann enn á lífi?“ spurði hann. „Nei“, sagði ég, „tónleikunum verður veitt í gegnum Þórhall miðil.“ Fimm mínútum seinna var ég búinn að endursegja allt sem ég vissi um Manfred og þegar tónninn á hinum endanum var enn daufur spilaði ég út trompinu: „Ég skal bjóða þér.“ Það vissi ég að myndi virka vel, sem það og gerði.

Smári kom að sækja mig klukkan hálf átta og ég kvaddi Vigdísi sem kallaði á eftir mér: „Góða skemmtun. Ég verð í garðinum á meðan.“ Ég svaraði: „Þú getur þá hlustað á hringitóna þér til skemmtunar“, en það sagði ég auðvitað ekki fyrr en ég var búinn að loka á eftir mér (og til frekara öryggis í hljóði).

Þegar við komum í Háskólabíó sá ég að Gunnar Þórðarson var að fara út úr bíl með einhverjum öðrum poppara sem ég þekkti en man ekki hver er. „Þú sérð að hér eru allir aðalmennirnir“, sagði ég við Smára, sem kættist við það. Hann veit nefnilega að Gunni Þórðar er svalur náungi (og veit líklega ekki að nú semur hann mest söngleikjamúsikk, sem er ekkert sérlega svalt og við félagarnir myndum aldrei viðurkenna að hafa gaman að, jafnvel þó að við hefðum það).

Í gamla daga hafði ég þá kenningu að maður væri orðinn gamall þegar maður hefði gaman af því að fara á böll á Hótel Sögu. Mér hefur aldrei tekist að reyna þessa kenningu á sjálfum mér því að dansleikjahald held ég að hafi fyrir löngu lagst af á bændahótelinu og við Vigdís höfum ekki farið ótilneydd á ball í þrjátíu ár. En þegar ég kom í anddyri bíósins sá ég að blómakynslóðin var mætt, en blóminn hafði fölnað töluvert. Við félagarnir vorum með yngstu mönnum.

Salurinn var ekki alveg fullur, en það höfðu greinilega fleiri en ég fallið fyrir þessu kostaboði. Smári virti fyrir sér uppstillinguna á sviðinu og sá að þar voru tvö trommusett. Svo benti hann mér á að aftast á sviðinu voru fjórir saxófónar. Nei átta, því að hinum megin voru aðrir fjórir. Við töldum að Manfred hefði líklega breyst í Big Band einhverntíma á lífsleiðinni.

Klukkan rétt rúmlega átta stigu nokkrir síðhærðir ungir menn á sviðið. Annað hvort voru þetta rótarar eða Manfred og félagar höfðu fundið æskubrunninn. Hvorugt reyndist rétt.

Á svið var stigin hljómsveitin Eldberg, sem átti að eigin sögn að koma okkur í rokkgírinn. Hinn aldraði salur klappaði kurteislega.

Við tók hálftíma hlé. Á leiðinni niður horfði ég áheyrendur og sá að margir höfðu dregið fram gömlu leðurjakkana og mussurnar. Ég horfði á þéttvaxna konu með úfið grátt hár og bjór í plastmáli og hugsaði með mér: „Einhvern tíma hefur þú átt þér blómlegri daga.“ Hún horfði á mig á móti og hugsaði það sama.

Í gamla daga hefðu menn eflaust átt að nota hléið til þess að fá sér sýru og jónu, en nú er kreppa þannig að rauðvínsglas og retta var látið nægja. Einhver spurði Smára hvort hann væri ekki úr Karfavoginum og annar sagði að hljómblöndunin á Eldbergi hefði verið hörmuleg en trommarinn taktfastur.

Ég gladdist þegar ég sá Dóra Andrésar og Ólaf Helga. Ég held að það séu 37 ár síðan ég hitti þá síðast saman þó að öðru hvoru sjái ég þá hvorn um sig. Við Ólafur vorum á tónleikum Rolling Stones í Boston árið 2002, ef ég man rétt. Þetta er í eina skiptið sem ég hef séð þá. Ólafur fór á þrenna tónleika með þeim bara í þessari Bostonferð.

Eftir hlé tóku aðalmennirnir við. Mér fannst Manfred syngja nokkuð vel eftir öll þessi ár, þegar í ljós kom að hann var hljómborðsleikarinn. Í hljómsveitinni voru fimm menn. Einn hafði verið í henni með Manfred frá upphafi. Þetta voru hressilegir karlar. Einn minnti mig á Herbert Guðmundsson, en þau líkindi hurfu sem betur fer þegar hann byrjaði að syngja. Saxafónarnir sem við höfðum séð reyndust vera ljóskastarar. Manni getur nú missýnst.

Manfred Mann‘s Earth band tekur mest lög eftir aðra þannig að maður þekkti þó nokkur lög. Þetta eru góðir tónlistarmenn og voru í ágætu stuði. Einhverjir þekktu mörg lögin (Dóri og Óli) en flestir voru eins og við, sem bara klöppuðum taktinn með þegar stuði var sem mest.

Í lokin voru þeir klappaðir upp og inn á sviðið komu bara tveir, gítarleikarinn og trommarinn. Þeir tóku Dúadíddídíddi, þannig að salurinn söng hið vinsæla viðlag. Lagið er eiginlega ekki neitt og þetta tókst ágætlega. Í lokin spiluðu þeir svo Mighty Quinn allir fimm í feiknastuði og salurinn fór af hjörunum (eins og hægt er að ætlast til af fólki á sjötugsaldri).

Á leiðinni út voru flestir kátir. Tvær þéttvaxnar konur sem sátu við hliðina á okkur höfðu að vísu þurft að fara skyndilega áður en tónleikum lauk. Örfáir aðrir gátu ekki beðið í þennan hálfa annan klukkutíma þangað til dúadíddí var sungið. Smára fannst gítarleikarinn frábær.

Utan við dyrnar stóðu nokkrir gráhærðir og reyktu. Einn þeirra sagði: „Þeir hefðu sómt sér vel á Kringlukránni“.

Hann meinti þetta sem hrós.

Benedikt Jóhannesson

www.heimur.is/benedikt

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is