leita

ELDRI PISTLAR

Kosningabaráttan mun hér eftir snúast um hefðbundin málefni sem höfða til kjósenda. Þetta barst út um helgina, og þótti nokkur tíðindi, því að stjórnmálin höfðu um tíma borist út á óhefðbundnar brautir. Á fjölmennum fundi í Valhöll á laugardag ræddi Davíð Oddsson nokkur þeirra málefna sem hann hyggst leggja

Ný vinstri stjórn boðar almennileg vettlingatök. Hún er það besta sem gat komið fyrir sjálfstæðis- menn. Það kemur samt á óvart að Vinstri grænir falli enn og aftur í gildruna. Í þetta skiptið láta þeir Samfylkinguna negla sig svo um munar með myndun nýrrar vinstri stjórnar rétt fyrir kosningar

Það var fallegur dagur þegar ég vaknaði og mér var glatt í sinni. En það stóð stutt. Í Mogganum sá ég að tónlistarmaðurinn Prins hélt tónleika á dögunum og í umsögn blaðamanns segir: „... þótt hann verði fimmtugur á næsta ári hélt hann uppi fjörinu í næstum tvo


PISTLAR

27/02/2006 | 10:10

Blaðamenn í einelti (BJ)

Morgunblaðið birtir athyglis verðan leiðara mánudaginn 27. febrúar. Þar fjallar blaðið um nýja mynd um bandaríska öldungadeildar þingmanninn Joe McCarthy og ofsóknir hans á hendur kommúnistum og meintum kommúnistum í Bandaríkjunum. McCarthy var um tíma geysilega áhrifamikill og gat á augabragði eyðilagt feril manna með því að kalla þá fyrir rannsóknarnefnd sína. Hann hafði víða áhrif og skoðanabræður. Mikið hefur verið gert úr því að Nixon sem síðar varð forseti hafi verið samsíða McCarthy í skoðunum. Minna hefur verið gert úr vináttu McCarthys við Kennedyana, en einn þeirra, Robert Kennedy, var starfsmaður nefndar McCarthys.

Í bíómyndinni mun einum sjónvarpsmanni, Ed Murrow, vera eignaður heiðurinn af því að hafa klekkt á McCarthy, en þó að margir hafi óttast þennan áhrifamikla mann voru þeir miklu fleiri sem börðust gegn honum en Ed Murrow einn.

Það sem er athyglisvert við leiðara Morgunblaðsins er þó ekki upprifjun á sögunni heldur hliðstæðurnar sem blaðið telur vera við Ísland nú á dögum. Morgunblaðið segir:„Og Ed Murrow kynntist auðvitað þeim veruleika, sem þeir blaðamenn kynnast oft, sem taka upp baráttu í einhverjum málum; ef rógurinn dugar ekki er gripið til peningavaldsins og reynt að hóta viðkomandi fjölmiðli með tekjumissi. Joe McCarthy brást við á sama hátt og hans líkar gera alltaf. Hann svaraði engu þeim staðreyndum, sem dregnar voru fram og sýndu í skýrt þann lygaáróður, sem hann hafði haldið uppi. Þess í stað reyndi hann að grafa upp einhvern óþverra um andstæðing sinn og ef hann fann hann ekki var hann búinn til.“

Síðar segir í Morgunblaðinu: „Verst er þó að vinnubrögð Joes McCarthys lifa góðu lífi á Vesturlöndum á okkar tímum og líka hér á Íslandi. Það er athyglisvert hvað erfitt er að fá fram umræður hér á landi um efni þeirra mála, sem til umræðu eru. Í stað þess að taka upp málefnalegar umræður er alltof oft reynt að beina umræðum frá kjarna máls að formi máls og ef það dugar ekki til er gripið til hinnar gamalkunnu aðferðar Joes McCarthys, þ.e.a.s. rógsins. Og þar sem Ed Murrow hefur ekki eignast marga verðuga eftirmenn enda umræðurnar með því að snúast upp í einelti, sem margir fjölmiðlar taka hugsunarlaust þátt í. Ef hægt er að lýsa vinnubrögðum Joes McCarthys með einu orði þá er það þetta orð - einelti. Vonandi eiga margir eftir að sjá þessa merku kvikmynd - og kannski einhverjir þeirra líti í eigin barm og horfist í augu við sjálfa sig.“

Líklega lesa ekki margir leiðara blaðanna þannig að sú bitra gagnrýni sem þarna kemur fram fer framhjá flestum. En hún er hárrétt. Þeir sem skrifa í blöð eða flytja boðskap sinn opinberlega vilja gjarnan fá umræðu um það sem þeir segja. Það er eðlilegt. Þess vegna er ekki nema eðlilegt að stundum bregðist menn við með því að hafa samband við ritstjóra, sem er hinn eðlilegi farvegur, eða útgefanda, ræði málin og útskýri að fleiri fletir séu á málinu. Góður ritstjóri bregst þá við með því að bjóðast til þess að ljá ólíkum skoðunum rými eða leiðrétta það sem missagt er.

En það er mjög algengt að þeir sem um er fjallað bregðist við með þeim hætti að hringja eða láta aðra hringja fyrir sig og láta vita af því að þeim líki ekki að verið sé að skrifa um slík mál. Og allra síst ætli þeir að borga fyrir slíkan óhróður og gefa þannig til kynna að ekki þurfi að búast við frekari auglýsingum úr þeirri átt. Þetta eru líka sjálfsögð viðbrögð við óhróðri og lygum. Og ekki síður ef blöð neita að leiðrétta missagnir og dylgjur. En þeir sem bregðast þannig við málefnalegum umræðum eru ógn við lýðræðið.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is