leita

ELDRI PISTLAR

02. maí | Ég er fyrstur (BJ)
Ég hef verið að lesa bækur að undanförnu. Undanfarna áratugi reyndar, en ég hef tekið ágæta syrpu nýlega. Nú hljóp á snærið hjá mér því að ég fékk bók sem kemur ekki út fyrr en á föstudaginn. Kannski næ ég að lesa hana alla áður en hún kemur út.

Ég lenti í því nýlega að þurfa að fara til útlanda í embættiserindum. Helst hefði ég viljað stýra dýrum knerri, en lét mér að sinni nægja almenningssæti í þotu. Í lögfræðinni í gamla daga þurftum við ekki að læra útlensku. Þar nægði að lesa Grágás og þegar ungir kennarar

Það er óhætt að segja að Davíð Oddsson hafi staðið við loforð sitt um að útspil ríkisstjórnarinnar yrði óvænt. Forsetinn hlýtur nú að leggjast aftur í mælingar á breidd sprungunnar milli þings og þjóðar, nýbúinn að mæla bilið milli þeirra 42,5% þjóðarinnar sem kusu hann og hinna 57,5% sem gerðu


PISTLAR

27/01/2012 | 14:32

Fúnksjónir lifa – fyrirtæki koma og fara (JGH)

jong-2011Nýlega var sagt frá því að Kodak risinn væri orðinn gjaldþrota. Um tíma var hann svo áberandi og sterkur að hann var talinn eins konar eilífðarvél, líkt og mörg önnur þekkt fyrirtæki vestanhafs. Örugg fúnksjón, sterkt vörumerki, góð tækni, framúrskarandi filmur og allt eftir bókinni um gott fyrirtæki. Kodak átti ekki að geta farið á höfuðið. Um erfiðleika þess hefur verið mikið fjallað í bandarískum fjölmiðlum.

Gjaldþrot Kodaks sýnir okkur að fúnksjónir lifa en fyrirtæki koma og fara.

Mörg fyrirtæki eru svo sterk að þau eru talin eilífðarvélar. Þeir sem réðu sig til slíkra fyrirtækja á árum áður töldu sig hafa öruggt ævistarf. Núna vita flestir að það er ekki á vísan að róa í þeim efnum.

Eilífðarfyrirtækið hefur ekki verið fundið upp og verður aldrei. Þú stýrir ekki fyrirtæki að ákveðnum punkti og setur svo sjálfstýringuna á.

Samband íslenskra samvinnufélaga, SÍS, var áratugum saman talið eilífðarfyrirtæki sem gæti ekki farið á höfuðið.

SÍS féll á því að hafa of greiðan aðgang að lánsfé og fyrir vikið minnkaði krafan um arðsemi. Þegar veldi SÍS var mest skiptist atvinnulífið í þrennt; SÍS, hið opinbera og einkageirann.

Það er ekki bara að fyrirtæki komi og fari; það sama er að segja um viðskiptajöfrana. Þeir eiga sína spretti og svo fennir furðufljótt í sporin.

Hvers vegna fór Kodak á höfuðið? Verður Apple eins langlíft og Kodak? Hvað með Google og öll flottu fyrirtækin núna í heimsviðskiptunum?

Kodak klikkaði á því að hunsa digital-tæknina, stafrænu tæknina, og trúa í blindni á filmuna. Það sem Kodak átti að gera var að fjárfesta í litlum sprotum þegar fyrstu stafrænu sprotarnir voru að stíga upp. Vera með í leiknum.

Kodak er gjaldþrota en fúnksjónin lifir; þ.e. það að taka myndir. Sú fúnksjón hefur raunar aldrei lifað eins góðu lífi. Núna taka flestir myndir á stafrænar myndavélar, svo ekki sé talað um þá sem smella af með símunum sínum.

Hver segir að Apple verði eilíft fyrirtæki? Fæstir.

Margir óttast að illa fari eftir nokkur ár þegar fyrirtækið fer fyrir alvöru að finna fyrir því að Steve Jobs er allur.

Eitt er víst að einhvers staðar er núna uppfinningamaður sem kemur á næstunni með einhverja lausn á einhverri þörf með notendavænu umhverfi sem ógnar Apple.

Á Íslandi er mikið rætt um fyrirmyndarfyrirtæki líkt og erlendis. Ég minnist þess að á níunda áratugnum var fyrirtækið Hilda (flutti út lopapeysur) talið slíkt fyrirtæki, allir dásömuðu það og lofuðu, skömmu síðar var það búið að vera.

Enn eru hins vegar seldar íslenskar lopapeysur og þær hafa aldrei verið eins vinsælar; tískuflíkur.

Útlánabólan fór illa með flest fyrirtæki á Íslandi. Eimskip var lengi vel risi af gamla skólanum sem talinn var eilífur meðan byggð væri á Íslandi. Hann belgdist út og varð gjaldþrota. Úr varð nýtt félag í eigu kröfuhafa sem heitir Eimskip og sinnir eingöngu siglingum til og frá landinu. Funskjónin lifir – en nýtt fyrirtæki með gamla góða nafninu.

Jóhannes Jónsson í Bónus sagði eitt sinn að Bónus hefði séð gat á markaðnum og uppfyllt þörf fyrir alvöru lágvöruverðsverslun. Bónusfjölskyldan hélt út á vit ævintýranna og missti að lokum fyrirtækið til kröfuhafa.

Engum hefði dottið í hug að Bónusfjölskyldan valdaði ekki reitinn betur og missti þetta fjölskyldusilfur sitt.

Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks, sagði í viðtali við Frjálsa verslun á síðasta ári að nýjar hugmyndir og nýir sprotar þyrftu ekki hvað síst að spretta út úr stóru fyrirtækjunum sem eitt sinn voru litlir sprotar.

Össur og Marel eru með þekktustu og bestu fyrirtækjum landsins. Þau þurfa eins og önnur að vera á tánum. Eitt sinn voru þau litlir sprotar. Eru inni í þessum fyrirtækjum  „órólegar deildir“ sem koma auga á nýja sprota og hugmyndir sem ógna þeim?

Það að sjá ógnina og viðurkenna hana er fyrir mestu. Það eru örugglega einhverjir uppfinningamenn einhvers staðar núna að leita að bættri tækni í stoðtækjum. Sniðugt væri af Össuri að fjárfesta í þessum sprotum.

Bræðurnir í matvælarisanum Bakkavör voru um tíma með mestu athafnamönnum landsins. Þeir þöndu veldi sitt út og fóru illa að ráði sínu í útlánabólunni. Bakkavör Group er enn stærsta fyrirtæki Íslands og þar eru þeir bræður við völd í skjóli kröfuhafa sem eiga núna fyrirtækið.

Stundum er sagt að allt gangi út á að vera réttur maður, á réttum stað og á réttum tíma. Fyrirtæki getur fallið með góða hugmynd en tíu árum síðar blómstrar hún undir nýjum formerkjum.

Kodak er gjaldþrota. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar. Við flettum fjölskyldualbúminu, hlæjum að öllum góðu minningunum og tökum myndir sem aldrei fyrr - en með nýrri tækni.

Fúnksjónir lifa – en fyrirtæki og athafnamenn koma og fara.

Eilífðarvélin og eilífðarfyrirtækið er ekki til.

Jón G. Hauksson

jgh@heimur.is

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is