leita

ELDRI PISTLAR

18. desember | The Boys from Brazil (BJ)
Fyrir 25 árum eða svo var búin til bíómynd þar sem brjálaður læknir hafði klónað Hitler og dreift víðs vegar um heiminn til þess að tryggja endurkomu þessa öðlings svo ljúka mætti ætlunarverkinu. Endirinn var óræður, læknirinn lést en einn drengurinn lifði af. Í Mogganum sé ég að þessi

06. desember | Stakir steinar (BJ)
Hér áður fyrr var blaðamennska eitt helsta starf alvöru rithöfunda. Þorsteinn Erlingsson, Matthías Jochumsson, Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson gáfu allir út blöð á sínum tíma. Snjallir pennar komu fróðleik, skáldskap og áróðri til skila með meistaralegum hætti. Nú er öldin önnur. Ekki er langt síðan dálkahöfundar

Samfylkingin vekur athygli þessa dagana. Á flokksstjórnarfundi ákvað formaðurinn að breyta Samfylkingunni í Framsóknarflokk. Flokk sem hefur lítið fram að færa annað en að vera á móti Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn er líka í einkastríði við Morgunblaðið , stríði sem enginn botnar í nema kannski formaðurinn sjálfur. Blaðið , sem formaðurinn


PISTLAR

28/11/2005 | 00:00

Fjölmargir áhrifamenn og Ólafur Ragnar í Mónakó (BJ)

Ólafur Ragnar Grímsson forseti var glæsilegur fulltrúi íslensku þjóðarinnar á krýningarhátíð furstans í  Mónakó. Og ekki aðeins íslensku þjóðarinnar heldur var hann fulltrúi fyrir þjóðríki almennt því að hann var eini þjóðhöfðinginn við athöfnina.

Staksteinar Morgunblaðsins áttuðu sig ekki á mikilvægi athafnarinnar og sögðu: „Forseti Íslands fær áreiðanlega mörg boð um að sækja athafnir víðs vegar um heim. Það liggur í augum uppi, að ástæða er til að taka slíku boði þegar um er að ræða mikla hagsmuni okkar Íslendinga, pólitíska, viðskiptalega eða menningarlega. Í öðrum tilvikum getur opinber heimsókn eða annars konar heimsókn þjóðhöfðingja verið ástæðulaus með öllu. Það á við þegar engir augljósir, pólitískir hagsmunir eða viðskiptalegir hagsmunir eru í húfi. Það getur beinlínis komið óorði á slíkar heimsóknir ef þjóðhöfðingi á í raun engin erindi á þjóðarinnar vegum við gestgjafa sína.

En spurningin er þessi: Hvaða hagsmunir íslenzku þjóðarinnar krefjast þess, að forseti Íslands, einn þjóðhöfðingja skv. fréttum AP, alla vega í okkar heimshluta, sé viðstaddur krýningu Alberts fursta í Mónakó? Ekki eigum við svo mikil viðskipti við Mónakó? Ekki kaupa þeir svo mikið af íslenzkum útflutningsafurðum. Ekki skiptir Mónakó svo miklu máli í evrópskum stjórnmálum að tilefni sé til af þeim sökum. Forsetinn fór til Mónakó á vegum íslenzku þjóðarinnar og þess vegna væri óneitanlega forvitnilegt ef hann upplýsti þá sömu þjóð, um hvers vegna hann sækir krýningarhátíð í þessu sérkennilega umdæmi, sem er fyrst og fremst þekkt fyrir spilavíti og þotulið. Hverra hagsmuna á verstöðin í Norður-Atlantshafi að gæta í Mónakó?“

Svanur Kristjánsson prófessor og vinur forsetans setti eðlilega ofan í við Morgunblaðið í ríkisútvarpinu, en auk þess svaraði Ólafur Ragnar sjálfur ljúfmannlega að bragði:

„Albert fursti hefur auk þess verið mikill áhugamaður um málefni norðurslóða og hvaða áhrif loftslagsbreytingar kunni að hafa á lífshætti og náttúru í norðurhluta heims. Hann fór til dæmis nýlega til Svalbarða ásamt hópi vísindamanna og skipuleggur nú leiðangur til norðurskautsins. ...

Það er mikill fengur fyrir umræður um málefni norðurslóða að Albert fursti með fjölþætt tengsl sín í Suður-Evrópu skuli reiðubúinn að gerast virkur þátttakandi í samstarfi á þessum vettvangi. ...

Í tilefni embættistökunnar lagði furstinn sérstaka áherslu á að bjóða fulltrúum smáríkja í Evrópu til hennar og vildi hann á þann hátt sýna vilja sinn til að styrkja samstarf þeirra enn frekar í framtíðinni. Þess vegna var fulltrúum Íslands, Lúxemborgar, Liechtenstein, Andorra, Kýpur og San Marínó boðið að vera við embættistökuna, en þessi ríki mynda íþróttasamband Smáþjóðaleikanna. Þá má þess geta, að við embættistökuna voru fjölmargir áhrifamenn frá Bandaríkjunum og Evrópu, einkum á vettvangi viðskipta og menningar, og gáfust margvísleg tækifæri í Mónakó til að vekja athygli þessa fólks á árangri Íslendinga og möguleikum sem samvinna á þessum sviðum gæti skapað.

Það þjónar fjölþættum hagsmunum Íslendinga að leggja sérstaka rækt við að efla samstarf smáríkja, einkum smáríkja í Evrópu, og mikilvægt að Íslendingar kappkosti að sýna öðrum smáríkjum fullan sóma og ræði um þau af virðingu. Orðalagið sem notað var í Morgunblaðinu um Mónakó er ekki við hæfi, einkum þegar í hlut eiga ríki og furstafjölskylda sem ávallt hafa sýnt Íslendingum vináttu.“

Líklega hefur enginn Íslendingur lagt sig jafnmikið fram um að kynnast áhrifamönnum á vettvangi viðskipta og menningar í vestri og austri eins og forsetinn. Sumir tala með lítilsvirðingu um „þotulið“ og ekki laust við að þar gæti öfundar og beiskju. Spilavíti eru einmitt hluti af lífsstíl þess fólks sem við helst viljum líkjast eins og James Bond, en persónugervingur hans er einmitt á leið hingað til lands við hrifningu fjölmiðla.

Þó að forsetinn sýni þá smekkvísi að nefna það ekki í svari sínu þá hefur áhugi Alberts á norðurslóðum ekki síst legið í sambandi hans við íslenska íþróttakonu, sem frá var sagt í fjölmiðlum fyrir nokkru. Ólafur Ragnar skilur hugarheim piparsveinsins og veit hvaða möguleika „samvinna á þessum sviðum gæti skapað.“

Benedikt Jóhannesson

PS: Tveir höfðu samband vegna verðlaunagetraunar í síðasta pistli. Hvorugur gat þó leyst gátuna og verðlaunin enn ósótt.

Fleiri pistlar

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is