leita

ELDRI PISTLAR

13. nóvember | Leiðin úr örvæntingunni
Ofuraflið sem leysist úr læðingi þegar innbyrgð reiði brýst út getur valdið íslensku þjóðfélagi slíkum skaða að enginn hefur áður kynnst slíku hér á landi. Eyðileggingin gæti orðið gífurleg og sárin sem eftir sitja á þjóðarsálinni gróa seint. Skynsamir ráðamenn leggja nótt við dag að leysa skammtímavanda og vilja geyma

Á föstudagskvöld fór ég í afmæli til góðrar vinkonu okkar. Fínt partý, skemmtilegt fólk, veitingar á heimsmælikvarða, ekki síst þar sem þær byggðust fyrst og fremst á laxi, bleikju og rabarbara. Það þurfti að tæma ísskápinn, frystikistuna og beðin í garðinum. Maður þakkar guði fyrir að þau hjón eru ekki

Ég gæti auðvitað skrifað áramótagrein, en er ekki alveg búinn með 2009 enn. Hjá mér voru jól haldin eins og víða um land og nokkrar bækur leyndust í jólapökkum. Mér hefur hins vegar gengið illa að vinna á þeim. Og þó. Ég hef lesið hrafl í viðtalsbók eftir Matthías


PISTLAR

06/09/2004 | 00:00

Hvað er list? (BJ)

Ég hef verið að velta fyrir mér listinni. Eða réttara sagt spurningunni: Hvað er list? Hvenær verður skrifað orð skáldverk, verk á striga myndlist? Getur list orðið til óviljandi eða verður hún alltaf að vera þrauthugsuð? Í Morgunblaðinu er grein sem segir að engin bók sé skemmtilegri en höfundurinn. Þetta er þvæla, merkir menn geta gert ómerkilega hluti og snjallir listamenn geta verið leiðinlegir skíthælar.

Er þetta list?

Sagan er full af dæmum um það að það sem á einum tíma er talið ómerkilegt fúsk er síðar talið ódauðlegt listaverk. Van Gogh seldi enga mynd, nú er sá sem á eina mynd eftir hann auðjöfur. Halldór Laxness orti Únglínginn í skóginum á heilum vetri að sagt er, ungur maður, og missti skáldastyrkinn frá Alþingi. Á sjötugsafmæli hans varð ljóðið lesið upp sem ein af perlum hans. Þar segir meðal annars:

(Hann:)
Ó ég veit alt um þig
alt hvað þú ert lítil
lítil og skrýtin,
því ég er Safír
frá Sahara í Aharabíu
Saba í Abaríu
og veit alt.
Abari frá Sabarí
Saraba í Arabíu
og veit altaltaltaltaltaltalt.
Alt.

(Hún:)

Þú veist ekki neitt, ert ekki neitt.

Er þetta list eða er Halldór að gera grín að heiminum? Ég hef heyrt báðar skoðanir settar fram af ákefð. En það er ekki það sama að heyra ljóðið lesið upp því að þá er nýr listamaður kominn í spilið, lesarinn eða leikarinn.

Þetta er list

Halldór er að sumu leyti gott dæmi vegna þess að hann var á sínum tíma mjög umdeildur en varð loks sameign þjóðarinnar sem dáði hann. Við eigum líka verk frá nær allri æfi hans, frá unglingsárum til elli. Það dylst fáum að æskuverk hans eru lakari en þau sem hann skrifar á blómaskeiði sínu sem entist í fjörutíu ár, kannski lengur. Hins vegar eru bæði elstu og yngstu verk hans mörg betri en það besta sem flestir meðaljónar sem kalla sig skáld geta gert. Tökum byrjunina á Heimsljósi:

"Hann stendur ásamt tjaldi og sendlíngi í föruborðinu niðrundan bænum og horfir á ölduna sogast að og frá. Kanski er hann að svíkjast um. Hann er tökubarn og þessvegna er lífið í brjósti hans sérstakur heimur, annað blóð, án skyldleika við hina, hann er ekki partur af neinu, en stendur utanvið, og það er oft tómt umhverfis hann, og lángt síðan hann byrjaði að þrá óskiljanlega huggun. Þessi mjóa vík með léttri báru á sandi, og litlum bláum skeljum, og klettum öðrumegin og grænu nesi hinumegin, það var vina hans. Hún hét Ljósavík.

Átti hann þá aungvan að, var honum þá einginn góður nema þessi litla vík? Nei, einginn góður."

Eftir þessa lýsingu liggur leiðin niður á við fyrir Ljósvíkinginn; það hlýtur að vera list.

Gátan ráðin

Spurningin um hvar mörkin liggi milli verks og listaverks kom upp í spjalli hjá okkur í Heimi fyrir nokkrum dögum. Þar er gaman að ræða slíka hluti, þar er fólk með margslags listræna reynslu, bæði sem veitendur og þiggjendur. Einn sagði mér að list þyrfti fyrst og fremst geranda, sem yrði að líta sig sem listamann. Einhvers staðar yrði líka að finnast annar sem upplifði gjörninginn sem list. Ef leiðir þessara tveggja liggja saman fær listamaðurinn viðurkenningu, annars ekki. Þetta er ekki svo galið.

Er samasemmerki milli höfundar og verks?

Guðrún Guðlaugsdóttir segir í Mogganum 29.8.2004: ,,Raunar geta bækur aldrei orðið skemmtilegri en höfundur þeirra." Þetta held ég að sé rangt. Því til sönnunar vil ég færa sögu sem mér er sagt að hafi gerst í Kaupmannahöfn fyrir sirka tveimur áratugum. Boðað var til bókmenntavöku þar sem skáld lásu úr verkum sínum. Undir lestri eins höfundarins heyrist kona nokkur segja stundarhátt: ,,Mikið skelfing er merkilegt hvað hann X skrifar skemmtilega, eins og hann er leiðinlegur maður." X er nú virtur og viðurkenndur rithöfundur innan lands sem utan. Skriftir eru bland af snilld og iðni og menn geta lært að skrifa vel og þjálfað sig upp.

Halldór Laxness segir um vin sinn Jóhann Jónsson sem orti fá kvæði en hefur varðveist í minningunni fyrir Söknuð; Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

,,Hann hafði mjög fullkomið skáldlegt ímyndunarafl. Hann var ekki aðeins gæddur þeirri gáfu að sjá jafnan í hug sér litrík og stórbrotin yrkisefni, heldur þreyttist hann aldrei á að finna þeim rétta stígandi, jafnvægi og listræna afmörkun, um leið og hann sveipaði þau hinum kynjafulla örlagablæ skaplyndis síns, dimmum, gullnum og æsilegum. Á hinn bóginn var honum geðs vant til yfirlegu iðnkendra vinnubragða sem falin eru í því að læsa fjölda hugmynda í viðjar ritaðs máls, binda þær í letur. Hann var sneyddur rithöfundarhæfileikum.

...

Svo ótrúlega erfitt er að verða listamaður að heita má tilgángslaust að ætla sér að reyna að skýra slíkt fyrir almenníngi. Af tíu æskumönnum sem leggja útá þá braut má telja þakkarvert ef helmíngur fær að halda lífinu undir því skelfilega fargi sem listamannsuppeldið leggur á manninn, en flestir gefast upp; og þó einn þessara tíu kunni að lifa af, fer því fjarri að nokkur trygging sé fyrir því að hann hafi verið mesta listamannsefnið í upphafi."
 [Halldór Laxness, Af skáldum, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1972, bls. 128-131]

Samt var Jóhann listamaður. Hann var frumkvöðull í því að yrkja á íslensku án stuðla og höfuðstafa. Halldór segir um fimmtán kvæði vera til eftir Jóhann. Af þeim hafa fimm ratað inn í úrval íslenskra ljóða frá Almenna bókafélaginu. Halldór sem hafði rithöfundarhæfileikann skrifaði hátt í sextíu bækur, greinar, leikrit, smásögur ljóð og löng skáldverk. Jóhann, sneyddur rithöfundarhæfileikum, orti í Söknuði:

Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu' eigin lífi vegvilltur, framandi maður;
og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð
af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan.

Kannski hefði Halldór getað ort svona, en hann gerði það aldrei.

Benedikt Jóhannesson

Share
© Allur rettur askilinn heimur.is (Heimur hf)
Heimur hf. Borgartúni 23 105 Reykjavik S. 512 7575 Fax. 561 8646 heimur@heimur.is