Sum dýr eru jafnari en önnur (BJ)

Pistlar


Ég sé að Danir ætla að breyta lögum um erfðir þannig að konur geti erft konungdæmið til jafns við karla. Auðvitað þýðir ekkert að segja það, en þeir ættu að nota tækifærið og losa sig við konungdæmið í leiðinni. En það að hafa forseta er náttúrlega engin trygging fyrir því að fá góðan þjóðhöfðingja.Íslenskar konur eru að skammast yfir því að stjórnarskráin sé kynblind. Ég hélt einmitt að það væri kostur, réttvísin ætti að vera blind. Auðvitað er rangt hjá mér að segja íslenskar konur, þetta eru einhverjar íslenskar konur sem vilja að stjórnarskráin verði kynvillt, þ.e. konur fái frekari vernd en karlar. Það væri afleit breyting.Ein af tillögunum sem þessar konur leggja til er að vernda konur gegn ofbeldi. Ætli það sé nokkuð sem ég fyrirlít jafnmikið og ofbeldi gegn konum? Menn sem leggja hendur á konur eru sannarlega eitt fyrirlitlegasta fyrirbæri sem til er. Lausin er samt örugglega ekki að breyta stjórnarskránni. Reynslan virðist sýna að ofbeldi meðal kvenna er líka að aukast, stúlkur hafa líka smitast af óhugnanlegri árásarhneigð. Við getum breytt stjórnarskránni endalaust, en það stoppar ekki slíka óheillaþróun.Önnur tillaga er um kynjakvóta. Það er ekki góð regla. Ef fleiri konur koma í stjórnunarstörf þá er það gott, ef þær eru hæfar til verka. Enginn skyldi ætla að ég væri með þessu að segja að allir karlar í stjórnun séu hæfir. Nei, því miður ekki, en menn eiga að veljast vegna hæfileika, ekki kynferðis eða litarháttar.Líklega er danska prinsessan ófrísk. Þess vegna liggur á að gera erfðaríkið kynblint, þ.e. ekki skipti máli hvort elsta barnið er strákur eða stelpa, það elsta á að fá kórónuna. Ég er ekki í Hinu konunglega fjelagi og hef sáralítinn áhuga á kóngafólki, en þó nógan til þess að vita að danski prinsinn Hinrik er eitthvað brenglaður, sömuleiðis Jóakim sonur hans og að Margrét drottning er rúmlega sextug, en lítur út fyrir að vera áttræð, ef maður nær að sjá hana gegnum sígarettureykinn. Hvers vegna vilja menn þetta fólk? (Að vísu finnst mér svolítið flott hjá Margréti að skíra son sinn upp úr Andrésblaði, en Frikki hefði átt að heita Mikki).Til þess að gera langt mál stutt þá er ég ekki hrifinn af erfðaprinsum og prinsessum. Ef fólk vill kjósa feðga eða mæðgin yfir sig eins og Bandaríkjamenn eða Indverjar, þá er það allt í lagi mín vegna. Fólkið ræður þá. En forréttindi kónga og aðals ættu að heyra fortíðinni til og vonandi heyra kynvilltar stjórnarskrár ekki framtíðinni til.


Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.