Halldór og Steingrímur J. eru „góðir karlar“(JGH)

Pistlar


ÉG VEIT EKKI hvort hið pólitíska landslag hafi breyst á mörgum heimilum í gær við að sjá Halldór Ásgrímsson í þættinum Strákunum á Stöð 2 og Steingrím J. Sigfússon með fréttamannafund frá sjúkrabeði sínu tæplega tveimur sólarhringum eftir að hann lenti í hörmulegu bílslysi við Húnaver. Ég held ekki. En samt, þeir unnu sér inn prik, ekki sem pólitíkusar heldur sem manneskjur – sem „góðir karlar“. Þeir hafa báðir notið virðingar sem gamlar kempur í stjórnmálum en ímynd þeirra varð öðruvísi og sterkari eftir gærdaginn.EFLAUST FINNST MÖRGUM það hallærislegt og kaldhæðið af mér að fjalla um ímynd Steingríms J. í tengslum við hið hörmulega slys sem hann lenti í við Húnaver. En stígum samt skrefið. Það var mjög ánægjulegt að sjá hvað hann var brattur þar sem hann lá margbrotinn á sjúkrabeði sínu og að betur hefði farið hjá honum en á horfðist í fyrstu. Fólk þyrsti í fréttir af líðan hans og það var slungið hjá honum að afgreiða kvabb fréttamanna með því að halda blaðamannafund á sjúkrabeði sínu – en þetta mun vera í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn á sjúkrahúsi og hvað þá í beinni útsendingu. Hann sló þarna margar flugur í einu höggi. Eflaust eru ekki allir á einu máli um það hvort Steingrímur hefði átt að boða til þessa blaðamannafundar; en ég held að hann hafi ekki komist hjá því.ÞAÐ ER LÖNGU VITAÐ að Steingrímur J. er mikill ræðuskörungur og mikill karakter þótt obbinn af þjóðinni sé á öndverðum meiði við hann í skoðunum. Hann er kommi af gamla skólanum. Vinsældir hans byggjast á því að hann er ærlegur stjórnmálamaður, heiðarlegur, það vita allir hvar þeir hafa hann, þótt fólk sé ekki endilega sammála honum. Einhvern tíma var haft eftir góðum og gegnum sjálfstæðismanni að það væri verst að Steingrímur J. væri ekki í Sjálfstæðisflokknum – svo sleipur og skemmtilegur væri hann í ræðumennsku.ÞÁ VERÐ ÉG AÐ hrósa Halldóri Ásgrímssyni fyrir „að láta sig hafa það“ að koma fram í þættinum Strákunum á Stöð 2. Ég hef horft á örfáa þætti með þeim og engan veginn hrifist af þessum óheyrilegu fíflalátum – einna helst að mér hafi þótt Pétur Jóhann Sigfússon búa yfir nokkrum hæfileikum sem skemmtikraftur. Eflaust geta þeir allir leikið og sennilega myndi þátturinn batna ef leiknu atriðunum fjölgaði á kostnað fíflalátanna.ÉG BEIÐ HINS VEGAR spenntur eftir Strákunum í gærkvöldi, svo mikið var búið að auglýsa að forsætisráðherra kæmi fram í þættinum. Ég velti því fyrir mér hvernig þeir myndu grilla Halldór. Svo varð ekki, það var Halldór sem náði strákunum niður á jörðina. Ég sprakk auðvitað úr hlátri þegar Pétur Jóhann fór í gervi Jóns Ársæls Þórðarsonar og tók viðtal við Halldór sem átti bágt með að springa ekki úr hlátri allan tímann.HALLDÓR ÁSGRÍMSSON hefur verið þingmaður frá árinu 1974, eða í rúm þrjátíu og tvö ár (var varaþingmaður í tvo mánuði 1978). Hann hefur ekki þótt brosmildasti þingmaðurinn til þessa – heldur hægur og þungur, svo maður tali tæpitungulaust. Spaugstofumenn hafa stillt honum fram sem „Dóra durg“ og hafa raunar látið hann líta út sem ídjót sem gert hefur gervið hjá þeim svolítið ótrúverðugt. En eitthvað er að gerast. Ég tók eftir því í Kryddsíldinni á gamlársdag að Halldór var skyndilega orðinn miklu léttari á brún og virtist leika á alls oddi. Líklegast er það rétt sem margir tala um að hann sé farinn að njóta sín betur í embætti forsætisráðherra eftir að Davíð Oddsson yfirgaf sviðið og fór í Seðlabankann. Í Strákunum bætti hann um betur, brosti stöðugt út í annað og lét sig hafa það að taka þátt í gríninu. Aðeins um Kryddsíldina – þar sá maður vel hversu mikill munur er á Össuri og Ingibjörgu Sólrúnu á slíkum stundum; síldin á betur við Össur.ÞAÐ ER SAGT AÐ sitthvað sé ímynd og virðing; að það sé ekki það sama. Því er t.d. haldið fram að stjórnmálamenn geti keypt sér ímynd með því að hringja í PR-menn og láta þá stilla sér rétt fram í sjónvarpi – en að þeir geti ekki keypt sér virðingu og orðstír, það sé eitthvað sem þeir verða að byggja upp með því að sýna heilindi og heiðarleika í hvívetna. Að það þurfi að geta sér góðan orðstír.EKKI VEIT ÉG HVORT það komi þeim Halldóri Ásgrímssyni og Steingrími J. Sigfússyni til góða síðar í kjörklefanum að hafa staðið sig með svo mikilli prýði undir svo óvenjulegum kringumstæðum í fjölmiðlum í gær. Eflaust dembist fylgið ekki yfir þá. Frjálshyggjumenn verða örugglega mjög seint framsóknarmenn eða lopapeysukommnar. En þeir töpuðu örugglega ekki á framkomu sinni í gær, hvað þá þegar því er haldið fram að allt snúist núna um miðjuna í stjórnmálum.ÍMYND OG VIRÐING. Sitthvað eður ei. Þeir Halldór og Steingrímur J. hafa báðir notið virðingar til þessa – en  ímynd þeirra varð öðru vísi og sterkari eftir gærdaginn. Þeir unnu sér inn prik sem „góðir karlar“.Jón G. HaukssonCategories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.