Fitch hnerrar og allir kvefast(JGH)

Pistlar
Taugar manna eru þandar. Einn daginn er allt í lukkunnar standi, en næsta dag er allt að fara til fjandans. Einn daginn er sagt á Viðskiptaþingi að Ísland geti orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð og að fjármálaþjónusta sé atvinnuvegur framtíðarinnar. Allir klappa og skála. Daginn eftir hnerrar einhver Fitch og Íslendingar fá kvef. Allt myrkvast – og á augabragði verður allt ómögulegt á Íslandi; krónan og hlutabréf taka dýfu. En svo verður allt ægilega gott aftur.
 
Ég skil vel að fólk sé orðið ringlað eftir fréttaflutning síðustu daga um „ástandið í efnahagsmálunum“. Er staðan góð eða slæm? Hverjum á maður að trúa? Baclays Capital og Credit Sights settu út á okkur fyrir nokkrum vikum og því var slegið upp. Því var líka slegið upp dag eftir dag á síðasta ári þegar einhver norskur prófessor sagði að íslenska bankakerfið ætti eftir að hrynja eins og spilaborg.
 
Síðan birtist Fitch Ratings í byrjun þessarar viku, en þetta matsfyrirtæki var með jákvæðan tón í okkar garð fyrir aðeins hálfum mánuði. Fitch setti skyndilega út á hagstjórn ríkissjóðs með þeim orðum að of mikið mæddi á Seðlabankanum einum í baráttunni við verðbólguna og að ríkissjóður yrði að taka aukinn þátt í þeirri baráttu með því að skila enn meiri afgangi á fjárlögum og fara sér hægar í framkvæmdum.
 
Fitch bað sem sagt þá við Arnarhólinn að stilla betur saman strengi sína – en blönduðu samt ekki Ingólfi inn í málið. En þetta dugði til að allt nötraði og allir túlkuðu þetta sem svo að nú væri allt að fara til fjandans og að orð norska prófessorsins væru sönn. En svo staðfesti Fitch að lánshæfismat bankanna hefði ekkert breyst, það væri „stöðugt“, þrátt fyrir að hann hefði sent ríkissjóði tóninn fyrir tveimur dögum – og þar með var allt orðið gott aftur. Þetta róaði fjárfesta, eins og það var nefnt.
 
En þarf alltaf útlendinga til að segja okkur hvernig staðan sé? Nei. Vandinn er að vísu sá að þeir lána okkur allt féð sem við dælum í kerfið og það er því talsvert mál ef þeir hætta að treysta okkur. Þá munu þeir væntanlega byrja á því að hækka vextina og í einhverjum tilvikum segja nei.
 
Hvað getum við Íslendingar þá sagt okkur sjálfir um „ástandið í efnahagsmálum“? Þetta: Efnahagslífið er traust og fyrirtækin standa vel eftir mikla útrás síðustu tveggja ára. Komin er fram ný auðlind, nýr atvinnuvegur sem byggir á hugviti og þekkingu og heitir fjármálaþjónusta. Það ríkir velmegun. Fjárfestingar eru miklar og neyslan sömuleiðis. Það er full atvinna. Kaupmáttur er mikill og verðbólgan lítil. Óveðurskýin eru hins vegar stórauknar skuldir þjóðarinnar og mikill viðskiptahalli, en hann mun að lokum fella krónuna ef ekki dregur úr neyslunni. Vandinn er sem sagt sá „að við höfum það of gott“.
 
Ég undrast hins vegar mest að íslenskir fjárfestar haldi að hlutabréfaverð geti endalaust haldið áfram að hækka, nánast lóðrétt dag eftir dag. Þótt verð hlutabréfa félli á einum degi um 20% væri verð á hlutabréfum samt ennþá mjög hátt og fyrirtækin jafn sterk og áður.  
 
Í byrjun október sl. var úrvalsvísitalan í kringum 4.800 stig og allir stóðu á öndinni af hrifningu. Á þeim tíma var vísitalan komin í hæstu hæðir, sögðu menn. En hún hélt áfram að hækka og hækka og er núna 6.663 stig þrátt fyrir óróann í vikunni. 20% verðfall hlutabréfa á einum degi færi með úrvalsvísitöluna niður í um 5.400 stig. Hvers vegna ættu menn að fara á taugum yfir því? Vísitalan væri þrátt fyrir það talsvert hærri en þegar allir stóðu á öndinni af hrifningu fyrir fimm mánuðum.
 
Mikið vill miklu meira og við kunnum ekki gott að meta. Það er það sem hefur hrjáð okkur Íslendinga þessa vikuna. Fitch hnerrar og allir fá kvef í hitabylgjunni - hitabylgju fjármálanna.. 


Jón G. HaukssonCategories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.