Að streitast á móti (JGH)

Pistlar

Ég minnist þess frá menntaskólaárum mínum að Sigmar heitinn í Sigtúni gekk eitt sinn út á dansgólfið og rak alla út af gólfinu. Þið megið ekki dansa, sagði hann hálfskelkaður. Þetta var laugardagskvöld fyrir páska og til voru einhverjar reglur um að fólk mætti vera inni á staðnum en að það mætti ekki dansa, það bryti í bága við helgisiði. Sigmar reyndi að streitast á móti dansi gesta þótt hann vissi að það væri vita gagnslaust. Það er þetta með að streitast á móti. Lögreglan lokaði 10-11 á hvítasunnudag vegna þess að það var helgidagur. Stjórnvöld streitast á móti því að þorp í jaðarbyggðum leggi upp laupana. Davíð svarar Bush í dag og mun sjálfsagt streitast á móti því að Varnarliðið dragi úr umsvifum sínum og fljúgi herþotum og þyrlum í burtu. Og sjálfur er ég alltaf eitthvað að ströggla.


Við félagarnir erum enn að hlæja að sögunni um Sigmar í Sigtúni, þennan þekkta veitingamann sem rak Sigtún við Austurvöll og síðan Sigtún við Suðurlandsbraut. Það var í Sigtúni við Suðurlandsbrautina sem hann rak liðið út af dansgólfinu af ótta við að „Eftirlitið" fræga kæmi inn á staðinn og setti hann í straff fyrir að fólk dansaði inni á staðnum og fremdi þar með helgispjöll. Þetta var eins og austan megin við járntjaldið. Einhverjir helgisiðir eru enn á veitingastöðum. Þó er svo komið að það má dansa á meðan leyfilegt er að hafa opið. Hvílíkt frelsi! Sagan um Sigmar rifjast auðvitað upp yfir fréttum síðustu daga þar sem allir virðast synda á móti straumnum. Þetta er eins og með laxinn. Lögreglan lokaði verslun 10-11við Lágmúlann á hvítasunnudag sem og verslunum Europris við Lyngháls og Skútuvog. Þar er verið að streitast á móti úreltum reglum um opnunartíma verslana á helgidögum og segir nýskipaður dómsmálaráðherra í Morgunblaðinu í morgun „að ræða verði hvert inntakið eigi að vera í helgidagahugtakinu, hvort það sé forsenda fyrir helgidegi hvort ákveðnum verslunum sé lokað."


Varnarliðið og LÍÚ


Davíð svarar bréfi Bush í dag. En Bandaríkjaforseti er sagður vilja flytja herþoturnar af Keflavíkurflugvelli í burtu. Mér segir svo hugur um að Davíð og stjórnvöld ætli að streitast á móti því að Bandaríkjamenn dragi úr umsvifum Varnarliðsins hér á landi – og þar með vörnum landsins. Einu get ég lofað ykkur; ef minnst verður einu orði á að við séum fúlir yfir því að Íslendingar missi vinnuna á Vellinum munu jálkarnir í Washington ekki hugsa sig tvisvar um. Það er helst að þeir doki við verði einblínt á pólitíska samstöðu í varnarsamstarfi í áratugi og raunverulega þörf fyrir varnir landsins í lofti sem á láði. Það verður erfitt að sannfæra Sám frænda um að þörfin fyrir varnarstöðina í Keflavík sé jafnmikil núna og á tímum kalda stríðsins.


Áfram með þörfina fyrir að streitast á móti. Núna er það krónan. Framkvæmdastjóri LÍÚ, Friðrik J. Arngrímsson, ruddist fram um helgina og vill streitast á móti markaðsöflunum í gjaldeyrisviðskiptum og óskar eftir því að stjórnvöld taki á markaðsöflunum og kaupi gjaldeyri í gríð og erg til að hækka hann í verði á kostnað krónunnar. Friðrik biður um 10% gengislækkun.


„Verslaðu í 10-11 og vertu snöggur að því"


Ég get vel skilið að forráðamenn 10-11 séu ósáttir við að mega ekki hafa opið á hvítasunnudag, aðra helstu ferðahelgi landsins. Ekki síst þegar bensínstöðvar og söluturnar með talsvert matvöruúrval fá að hafa opið þennan sama dag – sem og myndbandaleigur sem bjóða fólki upp á matvörur og spólur. Hver stór-sjoppan af annarri við hringveginn hefur auðvitað opið þennan stórhátíðardag, enda mikilvægt að metta maga ferðalanga sem og bensínháka þeirra. Ég er sammála framkvæmdastjóra 10-11 þegar hann segir að þetta séu óréttlátar reglur og að þetta sé spurning um jafnræðisregluna; að eitt skuli yfir alla ganga. Vilji kaupmenn hafa opið þennan dag og vilji starfsfólk þeirra vinna þennan dag er ekkert sem mælir á móti því að þeim sé leyft að hafa opið. Það á ekki að halda í úreltar reglur um opnunartíma. Burt með helgislepjuna. „Verslaðu í 10-11 á hvítasunnudag og vertu snöggur að því – löggan lokar eftir tvo tíma," verður sennilega auglýst að ári.


„Neyðarkall frá norðurslóðum"


Ekki verður annað séð en að stjórnvöld ætli að streitast á móti fólksflótta af landsbyggðinni til Reykjavíkur og reyna að stýra búsetu í landinu. Fréttir síðustu daga um fækkun starfsmanna Jökuls á Raufarhöfn undir yfirskriftinni „Neyðarkall frá norðurslóðum" hefur vakið upp áratuga gamla umræðu um byggðamál í landinu og fólksflótta til höfuðborgarsvæðisins. Það er löngu vitað að lítil þorp á jaðrinum – langt frá þéttbýliskjörnum – munu lognast út af. Ástæðan er sú að straumurinn suður orsakast ekki af atvinnuleysi heima fyrir heldur af áhuga fólks á lífskjörum og lifnaðarháttum höfuðborgarbúa sem búa við betri þjónustu, fjölbreyttara atvinnulíf og mildara veðurfar á veturna. Fólksflóttinn verður þess vegna hvorki haminn með handafli stjórnmálamanna né miðstýringu fjármagns.


Á meðan nýjum kynslóðum þykir grasið grænna í höfuðborginni kemur ekkert í veg fyrir þær flytji suður. Eftir verða þá eldri íbúar, en þeir munu með tímanum flytja líka og elta afkomendur sína. Eiga stjórnvöld að byrja á þeirri stefnu, sem síðasta ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var svo hrifin af, að aðstoða með „sértækum aðgerðum" sum fyrirtæki úti á landi við að halda uppi atvinnu? Nei. Betri kostur væri að tryggja kaup á húsnæði íbúanna og hjálpa þeim að flytjast á brott sé það þeirra vilji. Hvaða stjórnmálamaður ætlar að ákveða hverjir búi á höfuðborgarsvæðinu og hverjir ekki. Eiga ráðherrar að ákveða hvar fólk vinnur, býr og byggir? Varla. Best væri ef byggðin út á landi þjappaðist miklu meira en nú er í kringum nokkra stóra kjarna, eins og Ísafjörð, Akureyri og Egilsstaði. Staðir eins og Selfoss, Akranes, Borgarnes og jafnvel Stykkishólmur eru að verða hluti af höfuðborgarsvæðinu.


Á meðan áhugi fólks er ekki á búsetu úti á landi, hvað þá í minnstu þorpunum, er lítið við því að segja. Allra síst á að streitast á móti. Það verður að vera vilji fólksins sjálfs, íbúanna, að halda úti byggð í landinu – og að eigin frumkvæði. Það er bjarnargreiði að telja fólki trú um eitthvað annað, eins og gert hefur verið í umræðunni um Raufarhöfn. Það er ekkert gamanmál að verða atvinnulaus og sitja uppi með óseljanlegt hús í litlu þorpi úti á landi. Enn verra er ef stjórnvöld stunda blekkingar og gefa í skyn að lítil þorp, sem eru langt frá næsta þéttbýliskjarna, eigi sér von.


Allt hefur sinn tíma í lífinu. Kröfur og þarfir breytast í verslun, viðskiptum og vörnum landins. Streitumst ekki á móti frelsinu. Eftir nokkur ár verður hlegið að lokun verslana á hvítasunnudag, rétt eins og sumir hlæja enn að Sigmari þar sem hann rak gesti út af dansgólfinu í Sigtúni fyrir bráðum þrjátíu árum.


Jón G. Hauksson 

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.