Í versta ham? (BJ)

Pistlar


Ég ætlaði að kalla þessa grein „Eggert fallinn?“ en svo hugsaði ég með mér að það yrði allt of dýrt fyrir mig. Ég hef ekkert sérstaklega gaman af því að sjá West Ham tapa, en um helgina varð ég ósköp ánægður. Ég er nefnilega í þeim fámenna hópi Íslendinga sem heldur með Tottenham. Ég fylgist samt ekkert með þeim og get lítið sagt um sögu liðsins. Ég ákvað bara á sínum tíma að halda með þeim. Ég fór yfir stigatöfluna einhvern tíma þegar ég var yngri en tíu ára og sá að þeir voru meðal efstu liða. Einhverja varð ég að velja og stóð við þetta val. Síðan hefur liðið aldrei hampað Englandsmeistaratitlinum. Unnið einhverja bikara með margra ára millibili og stundum verið ofarlega. En um helgina unnu mínir menn West Ham á síðustu stundu. Fjögur-þrjú er ekki slök úrslit eftir að þeir höfðu lengst af verið undir.


West Ham var aldrei sérstaklega áhugavert lið í mínum huga. Áttu að vísu lykilmenn í heimsmeistaraliði Englendinga 1966 (engir titlar þar síðan, næstum eins og hjá Tottenham). Mér fannst þetta alltaf skrítið nafn á liði og man að við snerum út úr því. Mér sýnist þeirra saga frá 1966 vera talsvert dapurlegri en minna manna. Þangað til Eggert Magnússon tók það upp á sína arma. Sagt er að Eggert hafi greitt tíu milljarða króna fyrir liðið. Þeir hafa ekki verið sigursælir síðan. Unnu að vísu Man. United, en ég man ekki eftir því að þeir hafi unnið leik eftir það. Það svolítið erfitt að átta sig á því hvers vegna Eggert keypti West Ham. Íslendingar eru að vísu reynsluboltar úr enska boltanum eftir að hafa keypt og rekið Stoke til skamms tíma. Samt fannst manni þetta djörf ákvörðun. Ég veit að tíu milljarðar eru ekki miklir peningar fyrir Eggert sem í ensku pressunni er nefndur „the Biscuit Baron“ eða kex kóngurinn. Samt velti ég því fyrir mér hvort þetta hafi verið sterkasti leikurinn í stöðunni. Kannski lumar Eggert á leynivopni og vonandi verður hann sigursæll núna þegar „mínir menn“ eru búnir að spila við hann. Ég sé það í ensku pressunni að Eggert er bara sagður tala við leikmennina sem hann hefur sjálfur keypt. Það er eðlilegt því að hinir geta ekki neitt og eyða nóttinni í fjárhættuspil.


Ég fór á listaverkauppboð í gærkvöldi. Flestar myndirnar fóru á svipuðu verði og sagt var í skránni. Sumar á minna. Kjarval fór til dæmis á um milljón. Ágætar myndir fóru á lægra verði en ég hefði verið til í að greiða fyrir þær – ef ég hefði verið til í að greiða fyrir þær, en ég mætti staðráðinn í því að láta ekkert í mér heyra og stóð við það. Nokkrar myndir fóru á háu verði, sumar á allt of háu verði. Að minnsta kosti fyrir minn smekk. Hafi menn ætlað að láta vita hve ríkir þeir væru varð þeim á, því að það þekkti enginn þessa menn. Líklega hafa þeim bara þótt myndirnar fallegri en hlutabréfin.


En það var engin hækkun yfir línuna. Í Kaupmannahöfn urðu menn greinilega hálfvitlausir yfir mynd sem ég velti því fyrst fyrir mér hvort væri fölsuð. Það var hún víst ekki en ég held að uppboðshaldarinn hafi verið nær réttu verði en kaupandinn. Stundum hafa menn bara svo mikla peninga að þeim dettur ekki neitt í hug til þess að gera við þá.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.