Val á ráðherrum(JGH)

Pistlar


Val Geirs Haarde á ráðherrum Sjálfstæðis- flokksins var eftir bókinni. Guðlaugur Þór Þórðarson hlaut að fara inn og auðvitað var ekki hægt annað en að setja Björn Bjarnason í ráðuneyti dómsmála eftir aðför Jóhannesar Jónssonar í Bónus að honum. Ég undrast hins vegar svolítið val Ingibjargar Sólrúnar á ráðherrum Samfylkingar og hnýt um það – eins og allir aðrir – að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, sé ekki ráðherra. Það er mikið pólitískt áfall fyrir hann og allt að því niðurlæging. Það er augljóst að varaformennska í Samfylkingu vegur ekki þungt og er ekki sambærileg við varaformennsku í Sjálfstæðisflokki. Ágúst Ólafur var enda þungur á brún þegar ráðherravalið var kynnt. Það er svolítið skrítið að Ágúst Ólafur skyldi lúta í lægra haldi fyrir Kristjáni Möller og Björgvini G. Sigurðssyni, með allri virðingu fyrir þeim báðum. Þrítugur og of ungur? Jú, kannski. Um það er rætt sem helstu ástæðuna fyrir höfnuninni ásamt því að hann er úr Reykjavík sem var „komin með kvótann“. En landsfundurinn valdi hann – og því má spyrja sig; til hvaða verka?Vissulega er ákveðinn ferskleiki yfir hinni nýju stjórn, en ekki get ég samt sagt að hún sé að springa af ferskleika þegar farið er yfir valið á ráðherrum. Eða finnst ykkur það? Þá finnst mér hjákátlegt að nefna hana Þingvallastjórnina. Það hafa of margir stjórnmálamenn ræðst við á Þingvöllum til þessa. Ekkert nýtt við það. Enn fáránlegra er að kalla hana Nýja viðreisn. Þessi stjórn þarf ekki að reisa neitt við; hún tekur við góðu búi og þarf fyrst og fremst að halda vel á spilunum til að glutra ekki niður árangri síðustu ára. Þessi stjórn er í raun eini raunhæfi kosturinn í stöðunni og hún er komin til að vera í tvö til þrjú kjörtímabil. Aðrar blöndur hefðu ekki gengið hversu mikið sem menn hefðu reynt að hrista flokka saman og búa til kokteila á barnum. Enda sýnist mér að samfylkingarfólk sé hæstánægt með samstarfið við sjálfstæðismenn og eitthvað segir mér að Ingibjörg Sólrún og Össur hefðu hreinlega ekki nennt að sjóða saman broslitla vinstristjórn og þurfa að takast á við fúllyndið frá degi til dags til að halda slíkri stjórn saman. Þessi stjórn verður hins vegar brosmild (a la Össur) umbótastjórn sem lætur sig sterkt atvinnulíf varða.Eitthvað er slúðrað um að Björn Bjarnason láti af embætti dómsmálaráðherra eftir tvö ár og að frændi hans Bjarni Benediktsson taki við af honum. Það þarf í það minnsta að setja Bjarna einhvern tíma inn á leikvöllinn telji menn að hann sé leiðtogi framtíðarinnar hjá flokknum. Bjarni hlýtur að vera svolítið súr með ráðherravalið og komast ekki að í þetta skiptið. Um Björn má segja að Jóhannes í Bónus hafi tryggt honum ráðherrastólinn. Það hefði verið alger niðurlæging fyrir ríkisstjórnina að setja Björn út eftir það sem á undan var gengið. Þá fyrst hefði þessi stjórn fengið heitið Baugsstjórn.Sturlu Böðvarssyni var skipt út af í þetta skiptið. Hann fer ekki beint á bekkinn heldur í embætti forseta Alþingis. Það er virðingarstaða og finnst mér að Sturla geti vel við unað. Mikið hefur verið gert úr því að konur í Sjálfstæðisflokki séu óhressar með kynjaskiptinguna. Þær eru það og hafa ástæðu til, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir svaraði því ágætlega þegar hún sagði að konur yrðu að leiða listana til að eiga raunhæfan kost á ráðherrastólum; flóknara væri það nú ekki. Þá dylst engum að Kristján Þór Júlíusson, oddviti listans í norðausturkjördæmi og reynslubolti úr stjórnmálum sveitarstjórna, er vonsvikinn yfir að fá ekki ráðherrastól.Val leiðtoganna á ráðherrum er auðvitað erfitt, það er úr svo miklu mannvali að moða. Þetta er eins og lenda í kastþröng í bridge. Þess vegna er hægt að taka undir orð Ingibjargar Sólrúnar um að valið sé erfitt. En ég hélt t.d. að tími Jóhönnu Sigurðardóttur væri liðinn en ekki kominn. Og hvers vegna að kippa Þórunni Sveinbjarnardóttur fram fyrir tvo efstu menn listans í Kraganum? Og er það ekki einum of gamaldags leið að setja Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson í ríkisstjórn til þess að þjónka kjördæmum þeirra. Hvað með alla umræðuna um að velja einstaklinga; manneskjur, án þess að horfa til kjördæma eða kynjakvóta. Ekki gafst kynjakvótinn Framsóknarflokknum vel í ríkisstjórn? Ósigur Framsóknar sýnir a.m.k. að kynjakvóti dugir ekki - einn og sér - til að ná árangri og afla fylgis. En auðvitað viljum við öll sjá aukið jafnrétti kynjanna í pólitík sem og í stjórnun fyrirtækja. Jafnrétti byggt á hæfileikum, en ekki handafli, er tákn um fjölbreyttni og ferskleika.Í pólitík hljóta alltaf margir að vera óhressir með að verða ekki ráðherrar. En Kristján Þór Júlíusson orðaði það ágætlega þegar hann sagði að það væri líf utan ráðherrastóls. Ráðherrakapallinn er að baki, sáttmálinn hefur verið undirritaður á Þingvöllum, blik eru í augum  á Bessastöðum og Össur hefur núna brosað hringinn í rúma viku. Ég held að smælið hjá honum minnki ekki a.m.k. næstu átta árin. Frjálslynd og brosmild umbótastjórn blasir við.Jón G. Hauksson[email protected]

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.