Glötuð fyrirmynd (BJ)

Pistlar


Þessa dagana er ég að lesa ævisögu Erics Claptons. Clapton er einhver besti gítarleikari sem uppi hefur verið. Hann var í Cream sem var frábær hljómsveit og hann hefur samið mörg flott lög. En ef bókin gefur rétta mynd af honum er hann ömurlegur náungi.


Clapton er –isti. Alkóhólisti, heróinisti, dópisti, egóisti. Hann skammast sín ekki fyrir það. Þvert á móti er hann nánast stoltur. Ekki að hann hrósi sér beinlínis af því en hann á erfitt með að skammast sín. Sjálfsvorkunnin skín í gegn. Enda létti honum mikið þegar í ljós kom að þetta voru sjúkdómar en ekki veikleikar.


Hann er mjög hreykinn af því að krotað hafi verið á veggi ,,Clapton er guð''. Kannski hefur hann trúað því sjálfur. Ástarguð að minnsta kosti.


Líklega hafa fáar bækur komið út sem eru jafnfullar af kvenfyrirlitningu eins og þessi. Clapton nær sér í eina á fætur annarri, sama hvort hann er á föstu eða jafnvel giftur. Um leið og konan er horfin er hún gleymd. Það er alþekkt að hann giftist fyrrverandi konu Georgs Harrisons, Patty Boyd. Þegar hann loks náði í hana missti hún samt sjarmann. Að hluta til að minnsta kosti. Hann hætti að kalla hana Patty af því að það minnti hann svo mikið á daga hennar með George og notaði nafnið Nell. Hún lét sér það vel líka. Minnti mig á ljóð Bítlanna: „Her name was McGill, and called herself Lil, but everyone knew her as Nancy.“ Stundum stælir raunveruleikinn skáldskap.


Ekki þarf að efast um að ráðsettar ömmur um víða veröld fagna því að poppgoðið segi frá því að hann hafi sofið hjá þeim. Eric sleppir varla nokkru nafni. Slúðurblöð hafa sagt frá því að fjöldi frægra manna skjálfi af ótta við að frægar vændiskonur birti kúnnalistann. En nú þarf ekki að bíða lengur eftir listanum frá Clapton. Hann svaf hjá systur Pattyar (og segir stoltur frá því) síðar hjá sextán ára stúlku sem hann gerði að heróínista, hjá Yvonne Elleman (hún lék Maríu Magdalenu í Jesús Kristi stórstjörnu). Af mikilli smekkvísi greinir hann frá því að hún hafi smitað sig af kynsjúkdómi. „Amma hvað þýðir ...“


Eric er stórkostlegur gæi.


Ég hélt að hann segði frá lögunum og hljómsveitunum og hann nefnir bæði. En konurnar, brennivínið og dópið taka miklu meira pláss.


Útgefendurnir eru ekki merkilegir pappírar heldur. Sagt er á baksíðu að Eric segi frá minningum sínum um látna félaga og viðbrögðum við dauða Hendrix og Lennons. Hendrix er nefndur en sá sem les þessa bók myndi áætla að Lennon væri enn á lífi. Hans er síðast getið vegna þess að Clapton gleymdi að bjóða honum í brúðkaupsveisluna sína.


Clapton er Íslandsvinur. Hann getur þess að hann veiði á Íslandi á hverju ári. Svosem ekkert meira en það. Ekki nöfnin á konunum sem hann hefur sofið hjá á Blönduósi.


Þeir sem hrærðust af því þegar Cream kom saman árið 2005 geta hætt að tárast. Þetta voru ekki skemmtilegir náungar. Clapton var veikur þrenna tónleika af fjórum í London og vissi lítið af sér. Þó voru þeir tónleikar hátíð hjá tónleikunum sama haust í Madison Square Garden í New York. Segir hann sjálfur.


Takk Eric!


Ekki kaupa þessa bók. Ef þið getið fengið hana lánaða (ég skal lána mína með glöðu geði) þá er það kannski í lagi.


Það skrítna er að lögin eru alveg jafngóð þó að Eric sé ömurlegur sjálfur.Benedikt Jóhannesson

Categories

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.